133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

boð lyfjafyrirtækja.

[15:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Já, það er miklir hagsmunir hér í húfi. Við kaupum geðlyf fyrir um 2 milljarða í gegnum Tryggingastofnun ríkisins þannig að þetta eru háar upphæðir. Við fáum líka, að sjálfsögðu, ágætisþjónustu fyrir peninginn.

Ég tel mjög mikilvægt að hér verði andrúmsloft sem tryggi það að sjúklingar og aðrir geti treyst því að ekki sé um hagsmunatengsl að ræða. Við vitum að lyfjafyrirtækin hafa að sjálfsögðu hag af því að koma lyfjunum sínum á markað og hag af því að þau sé notuð. Ég tel mjög mikilvægt að við tryggjum eins og hægt er að læknar láti ekki glepjast af lyfjafyrirtækjunum. Það er eðlilegt að menn fái upplýsingar og fræðslu en menn verða að gæta hófs í þessu.

Mikil umræða hefur farið fram á vegum lækna um þessi mál og ég fagna henni. Ég höfða til siðferðiskenndar þeirra. Það verður að vera tryggt að sjúklingar og við öll hin getum treyst því að þetta sé í lagi.