133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar.

[15:26]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hörmulegir atburðir í umferðinni beina sjónum okkar að sjálfsögðu að umferðaröryggismálum og þeim stóru framkvæmdum sem rætt er um í vegamálum þjóðarinnar sem snúa sérstaklega að tvöföldun vega.

Tvöföldun Suðurlandsvegar er eitt stærsta hagsmunamál samfélagsins í dag og ekki út af neinu öðru en því að vegfarendur óttast um líf sitt. Topparnir í umferðinni eru slíkir að oft er viðvarandi hættuástand á veginum. Umferð hefur aukist um 80–90% á örfáum árum, og framúrakstur og tvöfaldur hámarkshraði fólksbíla og vörubifreiða skapa gífurlega hættu á svo umferðarþungum og erfiðum vegi þar sem fjallvegurinn yfir Hellisheiði er innifalinn.

Aðgreining akreina er meginmálið. Þar koma að sjálfsögðu allar leiðir til álita, einkaframkvæmdir og aðrar. Það er eina leiðin til að ná fram viðunandi umferðaröryggi á veginum. Frábær reynslan af Reykjanesbraut undirstrikar það þar sem reynslan er mjög góð út frá umferðaröryggislegu sjónarmiði.

2+1 til 2030 eru skilaboðin sem Vegagerðin kynnir núna, að einni akrein verði bætt við veginn og það látið duga til 2030. Það er algjörlega óviðunandi lausn að mínu mati. Þverpólitísk samstaða allra flokka, sveitarstjórnarmanna og einstaklinga í kjördæminu og langt út fyrir það er um að tvöfalda veginn, að tafarlaus tvöföldun Suðurlandsvegar sé eina lausnin sem búandi sé við.

Borist hafa misvísandi skilaboð um málið, t.d. sagði varaformaður samgöngunefndar í sjónvarpsfréttum í gær að það ætti að tvöfalda veginn á næstu 3–4 árum. Um leið kynnir Vegagerðin 2+1 veg sem er algjörlega óboðleg bráðabirgðalausn og andstaða er við á svæðinu.

Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Hvora leiðina á að fara? Kemur einkaframkvæmd til greina við tvöföldun? Hvað leggur hæstv. samgönguráðherra til? Hver er hin pólitíska ákvörðun ríkisstjórnarinnar í málinu?