133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar.

[15:30]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er rangt hjá hv. þingmanni að samgönguráðherra sem hér stendur hafi talað fyrir þeirri lausn að það skuli vera 2+1 vegur til ársins 2030, það er bara rangt. Samgönguráðherra hefur aldrei nokkurn tíma kynnt slíka stefnu.

Það sem hv. þingmaður vitnar til er að íslenskt verkfræðifyrirtæki hefur unnið áætlun fyrir Vegagerðina þar sem reynt er að meta afkastagetu 2+2 annars vegar og 2+1 hins vegar á þessari leið. Það sýnir sig að samkvæmt spám gæti þessi vegur annað afköstum. Það er allt annað en það að velja leið sem við getum orðið ásátt um sem framkvæmd sem tryggi um leið það öryggi sem við viljum hafa. Ég er ekki að kynna neina stefnubreytingu. (Forseti hringir.) Ég hef margsinnis lýst því yfir, bæði hér í þinginu og annars staðar, að ég telji að við eigum að velja 2+2 veg á þessum þremur leiðum. Það er rangt hjá hv. þingmanni að ég hafi kynnt hér einhverja stefnubreytingu.