133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar.

[15:33]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmenn þekkja gerum við ráð fyrir því og afgreiðum það væntanlega hér sem lög frá Alþingi í fjáraukalögum fyrir árið 2006 að setja sérstaka fjármuni til öryggisaðgerða á þessum vegi. Ég lít svo til að meðal þeirra öryggisaðgerða sem við getum farið í strax — eins og hv. þingmaður veit mætavel verður ekki sett af stað á morgun eða eftir mánuð tvöföldun þessarar brautar frá upphafi til enda — og stefnan er á þeim nótum að auka öryggið með girðingum eða vegriðum þar sem það er hægt og gera það strax. Í því ljósi höfum við látið skoða þetta og meta hvernig við getum gengið til þeirra verka að auka öryggið á þessari braut.

Að lokum, virðulegi forseti, hljótum við þingmenn á hinu háa Alþingi að senda þeim fjölskyldum sem hafa orðið fyrir slysum og dauðsföllum og syrgja nú sína nánustu hlýjar samúðarkveðjur héðan.