133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:35]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mig langaði að beina einni spurningu til þín sem varðar það hvernig valdar eru þær fyrirspurnir sem koma hér til umræðu. Fyrirspurnirnar skipta verulega miklu máli, frú forseti, til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og það virðist sem Frjálslyndi flokkurinn hafi verið útilokaður nú í þessari umræðu. Við ætluðum að beina spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra en hún komst ekki á dagskrá og ég spyr hverju það sæti. Á dagskrá voru teknar tvær fyrirspurnir nánast sama eðlis varðandi Írak hvor frá sínum flokknum og síðan er fyrirspurn sem varðar innanflokksmál Framsóknarflokksins þar sem hv. þm. Hjálmar Árnason spyr ráðherra flokks síns út í sín mál. Ég spyr hverju þetta sæti. Hvernig velur hæstv. forseti þær fyrirspurnir sem koma hér á dagskrá? Er það orðið svo að ekki megi ræða málefni sjávarútvegs af hálfu Sjálfstæðisflokksins, að þetta séu svo viðkvæm mál að menn reyni að útiloka þá umræðu?

Það væri fróðlegt að fá svör hjá hæstv. forseta hvað þetta varðar. Það vekur óneitanlega mjög mikla furðu að tvær fyrirspurnir séu teknar um Írak og síðan spyr samflokksmaður ráðherra út í málefni og loks kemur fyrirspurn sem er í raun sama eðlis og var í fyrirspurnatíma í síðustu viku varðandi Suðurlandsveg. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki sitji allir við sama borð í þessum þingsal.