133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:36]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða fundarstjórn forseta. Ég vil fá að lýsa því yfir sem þingflokksformaður Frjálslynda flokksins að ég klóraði mér í kollinum yfir því að eina óundirbúna fyrirspurnin sem við í þingflokknum, einn af þingmönnum okkar, vildum bera fram hér í dag fékkst ekki tekin fyrir. Ég sendi tölvupóst til skrifstofu Alþingis góðri stundu áður en þingfundur hófst og greindi frá því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson vildi koma að einni fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra varðandi sláandi niðurstöðu úr stofnmælingu Hafrannsóknastofnunar, svokölluðu haustralli. Mér finnst það svolítið einkennilegt, virðulegi forseti, að jafnhófsöm beiðni og þessi eina litla fyrirspurn frá okkar flokki í þessum fyrirspurnatíma skuli ekki hafa komist að. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa orð mín fleiri um þetta, virðulegi forseti, en mælist til þess að meira tillit verði næst tekið til óska okkar.