133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:39]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tíndi hérna til nokkrar röksemdir fyrir þessari umkvörtun minni og þær eru reyndar fleiri, m.a. að tvær fyrirspurnir komu frá þingflokki Samfylkingarinnar meðan við vorum útilokaðir í Frjálslynda flokknum.

Ég vil bara leyfa mér að spyrja hæstv. forseta hvort hún ætli að halda þessu áfram, hvort hún telji þetta eðlileg vinnubrögð og að við í Frjálslynda flokknum megum búast við því í framtíðinni að við verðum útilokaðir frá því að leggja hér fram fyrirspurnir og hvort þetta geti í raun talist eðlileg og lýðræðisleg vinnubrögð. Ég get alls ekki séð að Frjálslyndi flokkurinn eigi ekki rétt á því að bera fram fyrirspurnir eins og aðrir þingflokkar. Ég fordæmi vinnubrögð hæstv. forseta og ég vona svo sannarlega að hæstv. forseti sjái að sér, komi til okkar í þingflokki Frjálslynda flokksins og verði við bón okkar um það að við fáum eðlilega málsmeðferð og afgreiðslu hér í þinginu. Þetta sem hæstv. forseti hefur staðið að er bara alls ekki eðlilegt. Þetta er mjög ólýðræðislegt og mér finnst stórundarlegt að verða vitni að því á þjóðþingi Íslendinga að einn flokkur, minnsti flokkurinn, skuli vera lagður í einelti af forseta þingsins. Ég furða mig á þessu. Það getur ekki verið eðlilegt að hæstv. forseti telji það sanngjarna málsmeðferð að einn þingflokkur fái tvær fyrirspurnir meðan annar er útilokaður nema þá að hæstv. forseti sé hrædd við umræðu um sjávarútvegsmál og vilji einfaldlega koma í veg fyrir hana.

Hæstv. forseti skuldar okkur í Frjálslynda flokknum svo sannarlega skýringar á vinnubrögðum sínum hér í dag.