133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:16]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú þegar ríkisstjórnin hefur loksins verið rekin til að koma með frumvarp, ég segi loksins, um lækkun matarskattsins, eftir frumkvæði Samfylkingarinnar í upphafi þessa þings og í upphafi allra þinga kjörtímabilsins, þá kemur samt hér meira með. Það er varðandi 9. gr. þar sem á að lækka virðisaukaskatt af áfengi og hækka áfengisgjald í staðinn.

Við höfum hlustað á hæstv. fjármálaráðherra flytja sitt mál og biðja efnahags- og viðskiptanefnd um að geyma þessa grein og þennan hluta frumvarpsins vegna þess hvað þetta er illa unnið.

Það hefur verið umtalsverð ólga í landinu, sagði hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er umdeilt og það þarf að sannreyna útreikningana. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, virðulegi forseti, í hinu háa fjármálaráðuneyti?

Eru þetta kannski tæknileg mistök sem hér eiga sér stað? Ég minnist þess ekki á stuttum þingferli mínum að flytjandi máls, eins og hæstv. fjármálaráðherra nú, hafi þurft að koma og biðja nefndina strax við 1. umr. að skilja eftir hluta (Forseti hringir.) vegna þess að það sé umtalsverð ólga og það eigi eftir sannreyna útreikninga.