133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:19]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert óeðlilegt við að gerð sé athugasemd við þetta. Ég held nefnilega að hér hafi ekki verið um tæknileg mistök að ræða. Ég held að það hafi verið ásetningur fjármálaráðherra, að ætla ná í þremur milljörðum meira í áfengisgjaldið við að breyta virðisaukaskattinum eins og reiknað hefur verið út af hagsmunaaðilum úti í bæ. Ég held að þetta hafi verið ásetningur.

Þá kemur upp í hugann, virðulegi forseti, að fyrrverandi fjármálaráðherra, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, kom með útreikninga út af frægu gjaldi sem var dísilolíugjaldið. Hvernig hefur það þróast, virðulegi forseti? Í öllum gögnum sem ríkisstjórnin kemur fram með núna segir að tekjurnar af dísilolíugjaldinu séu allt að tveimur milljörðum hærri á þessu ári en reiknað var út í byrjun.

Hvernig var það gert, virðulegi forseti? Það var vegna þess að fjármálaráðuneytið var með vitlausar tölur um lítrafjölda. Þá var þessi aðferð notuð til að ná í þá tvo milljarða sem skatt af dísilolíugjaldinu. (Forseti hringir.) Og virðulegi forseti. Ég endurtek að ég held að hér hafi verið um ásetning að ræða.