133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:20]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Þetta er nú algerlega óskiljanleg röksemdafærsla hjá hv. þingmanni. Fyrst er ráðherrann skammaður fyrir að biðja um að beðið sé með málið og svo er komið og hann skammaður fyrir að það hafi verið ásetningur af því að einhvern tímann hafi eitthvað verið rangt reiknað að hans mati. (Gripið fram í.)

Ég verð eiginlega bara að spyrja hv. þingmann og þá sem á þetta hlusta yfirleitt: Til hvers hefði hæstv. fjármálaráðherra átt að reyna að læða inn einhverri þriggja milljarða kr. tekjuaukningu á áfengisgjaldinu? (Gripið fram í.) Hvað hefði hún gagnast honum? Ekki er verið að leggja þetta til í fjárlagafrumvarpinu. Ekki kemur það fram í einhverjum fölskum afgangi á fjárlagafrumvarpinu þá. Hvaða gagn væri að þessu þá? (Gripið fram í.)

Afgangurinn á þessu ári eins og við vorum að samþykkja í fjáraukalögum áðan er 45 milljarðar. Nei, ekki getur fjármálaráðherrann kvartað yfir því að það séu ekki til fjármunir í ríkissjóði.

Hvers vegna hefði hann átt að reyna að svindla inn þremur milljörðum (Forseti hringir.) í áfengisgjaldinu án þess að þeir kæmu nokkurs staðar fram í reikningunum, frú forseti?