133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:23]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um áhrif á verðlagið. En ég þakka svörin við öðru. Ég vil benda á að við lækkunina úr 24,5% niður í 7% mun verðlag á veitingastöðum lækka um 14% að því gefnu að til staðar sé samkeppni.

Við ætlum að vona að það sé dálítil samkeppni, að minnsta kosti að því sem snýr að almenningi, pitsustöðum og slíku. 2.000 kr. pitsa mun lækka um 280 kr. og það munar töluvert um það ef samkeppnin lækkar um 300 kr., þá er það enn þá betra.

Þetta mun allt verða til að lækka verðlag. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er talið að nýjustu upplýsingar gefi tilefni til mikillar lækkunar á verðlagi? Svo er ég náttúrlega á móti þeirri sykurforsjá sem kemur fram í frumvarpinu en það er önnur saga.