133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með að hafa tekið upp margar af tillögum Samfylkingarinnar sem hún lagði fram á haustdögum. Sömuleiðis vil ég óska honum til hamingju með að í svörum sínum í dag hefur hann í reynd staðfest það sem við sögðum, að þetta þingmál um lækkun matarskattsins væri beinlínis til komið vegna tillagna Samfylkingarinnar.

Það kemur í ljós af máli hæstv. ráðherra að hann hefur verið að flýta sér svo mikið við að koma málinu fram, beinlínis sem svari við þingmáli Samfylkingarinnar, að í fyrsta lagi var ekki hægt að setja tollalagabreytingar eða kostnað sem af þeim hlýst inn í fjárlagafrumvarpið af því það var ekki tími til þess.

Í öðru lagi hafði hann ekki heldur getað reiknað út áfengisgjaldið með þeim hætti að viðunandi sé. Þetta staðfestir hvílík fljótaskrift var á þessu. Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um þetta? Í öðru lagi hef ég eina, litla efnislega spurningu til hæstv. ráðherra. Felur frumvarpið í sér að virðisaukaskattur af gangagjaldinu í Hvalfirði muni lækka?