133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:26]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta fer nú að verða broslegt með hv. þingmenn Samfylkingarinnar, hversu gjarnan þeir vildu hafa staðið að því að lækka virðisaukaskattinn og lækka matvælaverðið. Það er í ljósi þess, sem ég fór yfir áðan, hvernig málin þróuðust í aðdraganda kosninganna fyrir bráðum fjórum árum, þar sem Samfylkingin lýsti því yfir aðspurð að hún vildi ekki lækka virðisaukaskattinn á matvæli til þess að lækka matarverðið.

Ég held ég geti staðfest og farið alveg rétt með að verði þessar breytingar að lögum muni virðisaukaskattur af gangagjaldinu lækka. En varðandi það að einhver fljótaskrift sé á frumvarpinu, þá er það ekki svo.

Það koma hins vegar oft upp álitamál og umræður í þjóðfélaginu sem rétt er að taka tillit til hér á hv. Alþingi og mig furðar mjög að hv. þingmenn skuli vera að agnúast út í að það skuli gert.