133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:28]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég verði að óska hv. þingmanni til hamingju með, fyrst hann er búinn að óska mér svo oft til hamingju, að uppgötva að Samfylkingin hefði einkarétt á því að hafa fundið það upp að lækka verð á matvörum með því lækka virðisaukaskattinn. (Gripið fram í.)

Það er skemmtilegt að heyra þetta núna. Þetta er eitt besta dæmið um pólitískan viðsnúning á stuttum tíma sem um getur í sögu íslenskra stjórnmála. Asinn í málinu hefur verið svo mikill að það hefur þurft að flytja frumvarp um þetta á hverju ári þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að það yrði flutt um þetta frumvarp fyrir lok kjörtímabilsins í samræmi (Gripið fram í.) við kosningaloforð og stjórnarsáttmála. Og að nauðsynlegt væri hins vegar að dreifa öllum skattalækkununum á kjörtímabilið vegna áhrifa sem þetta hefði á efnahagslífið.