133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:46]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa nokkurri undrun vegna ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og reyndar einnig vegna þess neikvæða tóns sem mér fannst birtast í málflutningi talsmanna Samfylkingarinnar í andsvörum við ræðu fjármálaráðherra áðan.

Nú hefði mátt vænta þess að þegar mál af þessu tagi kemur inn í þingið yrði því fagnað. Að því yrði fagnað að ætlunin er með þessu að stíga það skref að lækka matvælaverð verulega í landinu með því að breyta skattlagningunni á þann gríðarlega mikilvæga hátt sem lagt er til.

Verið er að tala um mestu breytingu á virðisaukaskatti í meira en áratug. Verið er að tala um breytingu sem felur í sér verulega kjarabót fyrir heimilin í landinu. Ég hefði vænst þess að það væri lykilatriðið í málflutningi Samfylkingarinnar þegar kemur að slíkri umræðu. Ég hefði raunar haldið að þetta mál væri þess eðlis að um það gæti orðið verulega góð samstaða í þinginu og því koma þessi viðbrögð mér nokkuð á óvart.

Hins vegar hvað varðar það efnislega sem fram hefur komið hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og öðrum sem hafa tjáð sig á vegum Samfylkingarinnar í umræðunni, þá er nú sagnfræðin kannski ekki upp á marga fiska þegar kemur að því að skoða bakgrunn þeirra tillagna sem verið er að fjalla um. Því það liggur alveg fyrir að í landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins vorið 2003 var skýrt kveðið um þá breytingu sem hér er gerð tillaga um varðandi virðisaukaskatt á matvæli. Rétt er að geta þess að það var ekki fyrr en eftir að sú samþykkt lá fyrir að Samfylkingin sneri við blaðinu og fór að boða sömu stefnu.