133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:18]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að matarútgjöldin hafa farið lækkandi sem hlutfall af ráðstöfunartekjum fólks. Ég bendi þingmönnum á, þeim sem ekki þegar hafa orðið sér úti um ágæta bók sem heitir „Við öll, íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum“, að þar er í það vitnað að í lok seinna stríðs eyddu fjölskyldurnar á Íslandi að meðaltali næstum helmingi ráðstöfunartekna sinna í mat, matarútgjöldin ein tóku næstum hálfar tekjur fjölskyldnanna. Síðan hefur þarna orðið mikil breyting á af tveimur ástæðum. Það hefur orðið mikil framleiðniaukning í landbúnaði og matvælaverð hefur lækkað, það er veruleikinn, og tekjur hafa auðvitað hækkað. Þarna hefur orðið sú gleðilega þróun að nú eyða menn að meðaltali aðeins kannski 16% af ráðstöfunartekjum sínum í mat og þar af þessum 6% til innlendu matvörunnar sem ég áðan nefndi.

Það er auðvitað hægt að hugsa sér fleiri ráðstafanir á fjármunum sem geta verið skilvirkar til að koma kjarabótum til tekjulágra, barnmargra fjölskyldna. En þetta er að mínu mati alveg örugglega (Forseti hringir.) ein þeirra.