133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist nú að við ræðumaður séum í aðalatriðum sammála og hv. þingmaður nefndi hér hlut sem mér vannst ekki tími til að koma inn á í ræðu minni og er mjög gildur, þ.e. það að þessar aðgerðir týnist ekki á leiðinni og að þær skili sér raunverulega alla leið til neytenda.

Varðandi landbúnaðinn er mjög mikilvægt að menn hafi það í huga og sýni því sanngirni að landbúnaðurinn hefur tekið mikið á sig á undanförnum árum. Honum er enn ætlað það. Er það ekki svo að mjólkurvörur eigi að haldast í óbreyttu verði í tvö ár í tengslum við þetta samkomulag? Það er þó nokkur fórn þegar til þess er litið að verðbólgan er ein 6–8% um þessar mundir. Það munar um minna en að lofa því fyrir fram í þetta mikilli verðbólgu að halda verði á framleiðsluvöru sinni alveg óbreyttu.

Ég vil líka nefna það að í búvörusamningum, a.m.k. þeim sem ég þekki best til, var innbyggð hagræðingarkrafa á landbúnaðinn. Greinin tók á sig, ein atvinnugreina svo að mér sé kunnugt um, kvöð um hagræðingu sem var innbyggð í samning, í löggerning sem var bindandi að þessu leyti.

Svo vil ég nefna einnig í sambandi við þessa aðgerð að það er ákaflega mikilvægt að halda uppi þessu eftirliti með að verðið beinlínis lækki í búðunum. Ég get síðan nefnt ein rök enn sem tengjast því sem áður hefur verið rætt um landsbyggðina af minni hálfu sem mæla með því að virðisaukaskatturinn á matvörunni verði lækkaður sérstaklega og það er sú staðreynd að þrátt fyrir að virðisaukaskattur sé mun skárri en söluskattur hvað varðar svokölluð uppsöfnunaráhrif eru þau samt í vissum mæli áfram til staðar. Virðisaukaskatturinn leggst ofan á endanlegt útsöluverð vörunnar á endastað. Hvar er það hæst? Jú, það er í afskekktustu héruðum landsins þar sem er mestur flutningskostnaðurinn, minnst vöruveltan og mest rýrnunin. Að því leyti er mjög gott að virðisaukaskatturinn á slíka vöru sé sem lægstur í lokin því að þá dregur úr þeim uppsöfnunaráhrifum sem eru annars í eðli sínu fólgin í að leggja virðisaukaskatt á endaverð vörunnar.