133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:48]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Er það ekki rétt skilið hjá mér að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar sé flutt af hæstv. fjármálaráðherra?

(Forseti (JónK): Það er rétt skilið.)

En hann er ekki í salnum.

(Forseti (JónK): Ég geri ráðstafanir til þess að gera honum aðvart.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir það. Mér finnst eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra sé viðstaddur umræðu um eigið frumvarp hér í þingsölum og veiti því eftirtekt sem fram kemur við umræðuna þó að það sé kannski eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra kjósi heldur að vera í einhverjum öðrum sölum en þessum þegar hann hefur þurft að leggja fram frumvarp sem ríkisstjórnin hefur sannarlega hrakist til að leggja fram vegna þrýstings frá öllum öðrum en sjálfri sér, missiri eftir missiri og ár eftir ár. Við bjóðum hæstv. fjármálaráðherra velkominn í salinn og það er gott að sjá hæstv. fjármálaráðherra við umræðuna.

Þetta eru auðvitað líka með sínum hætti merkileg kaflaskil í sögu ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í hartnær 12 ár og furðulegt að einkum ungir hægri menn í röðum stjórnarliða skuli ekki vera viðstaddir í hópum því það má þó með sanni segja að hér gefur að líta fyrsta frumvarpið sem með einhverjum rétti mætti kalla að leiddi til skattalækkana fyrir venjulegt fólk í landinu.

En eins og við þekkjum, þá hafa síðastliðin 11 ár verið nánast ein samfelld skattahækkunarleið ríkisstjórnarflokkanna. Einkanlega á meðaltekjufólkið í landinu en á láglaunafólkið líka. Eitt samfellt skattahækkunarskeið þannig að nú, 11 árum eftir að núverandi ríkisstjórn kom til valda, stöndum við uppi með hærri skatta en við höfum áður þekkt í landinu, hvort sem litið er til krónutölu í tekjuöflun ríkissjóðs, til hlutfalls af landsframleiðslu eða til umfangs ríkisútgjaldanna sem orðin eru miklu meiri en við höfum nokkru sinni þekkt.

Allan þennan stóra reikning hafa menn auðvitað lagt á meðaltekjufólkið í landinu með því að ganga á vaxtabæturnar, með því að ganga á barnabæturnar, með því að halda niðri persónuafslættinum. Og með alls kyns laumusköttum og gjaldtöku sem við þekkjum úr margvíslegri umræðu undangengin ár. Skatta sem aldrei áttu að verða skattar. Gjöld sem aldrei áttu að verða gjöld.

Við umræðuna fyrr í dag gerði hv. þm. Kristján L. Möller t.d. ágætlega grein fyrir því með hvaða hætti ríkisstjórnin notfærði sér breytingarnar á olíugjaldinu á síðasta þingi til þess að auka nú enn á, og töldu ýmsir að aldrei yrði hægt að bæta í það sem þar var komið af álögum á bifreiðaeigendur og á flutningskostnaðinn í landinu.

Þegar við lítum yfir þessa vegferð er það auðvitað ánægjuefni og sérstakt fagnaðarefni að loksins komi fram frumvarp sem sannarlega mun leiða til lækkunar á sköttum heimilanna í landinu og skattgreiðslum venjulegs fólks. Við í stjórnarandstöðunni munum auðvitað reyna að greiða slíku máli, þá loksins það kemur fram, leið í gegnum þingið.

En það verður ekki aðeins það sem verður verkefni okkar í þessu. Vegna þess að þegar menn líta á það hvenær ríkisstjórnin sem nú hefur setið rúm 11 ár við samfelldar skattahækkanir sínar ætlar að uppfylla þær skattalækkanir sem hér eru fluttar þá er það 1. mars á næsta ári. Þeir sem þekkja til vita sem er, að sá virðisaukaskattur sem leggst á í mars og apríl á næsta ári á að koma til greiðslu í maí á næsta ári, þ.e. þegar sitjandi ríkisstjórn er farin frá.

Það verður þess vegna ekki aðeins verkefni okkar hér í stjórnarandstöðunni að greiða þessari fyrstu skattalækkun leið í gegnum þingið. Það verður líka hlutskipti okkar að framkvæma hana að loknum kosningum og sjá til þess að hér verði svigrúm til þess að mæta því tekjutapi sem hún lýtur að. Því á 12 ára valdatímabili sínu hefur ríkisstjórnin ekki treyst sér til að standa fyrir einni einustu skattalækkun til venjulegs fólks í landinu, sem heitið getur.

En eftir sem áður fögnum við auðvitað því þetta er þó viðleitni í þessa átt, korteri fyrir kosningar og vegna mikils þrýstings frá verkalýðshreyfingunni og auðvitað vegna látlauss tillöguflutnings stjórnarandstöðunnar hér á hinu háa Alþingi, virðulegi forseti.

Við hljótum auðvitað líka að gleðjast vegna þess að það er ekki þannig að þessu máli sé verið að hreyfa fyrsta sinni á Alþingi. Það er nú aldeilis ekki svo. Þessu máli hefur hér verið hreyft aftur og aftur. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur því verið hreyft ítrekað og við í Samfylkingunni höfum tekið þetta mál upp í fjárlagaumræðu eftir fjárlagaumræðu. Við höfum flutt tillögur um það að hinum röngu áherslum ríkisstjórnarinnar í skattamálum yrði breytt í þá veru að menn færu frekar í að lækka virðisaukaskatt á matvæli í landinu sem sannarlega kæmi hinu venjulega fólki í landinu til góða, meðaltekjufólki, láglaunafólki og ekki síst barnafjölskyldunum.

Aftur og aftur hefur stjórnarmeirihlutinn fellt þessar tillögur, fellt sömu tillögur og þeir standa nú að flutningi að. Þess vegna hljótum við í Samfylkingunni líka að gleðjast, að sjá stjórnarliðið hafa hrakist undan í rúm þrjú ár í þessu máli, í umræðu eftir umræðu og neyðast nú loks til þess korteri fyrir kosningar að flytja þá tillögu sem við höfum aftur og aftur haldið fram. Staðreyndin er einfaldlega sú að þeir þora ekki í kosningar eftir samfelldar skattahækkanir sínar í 11 ár án þess að taka á matarskattinum.

Við sem höfum tekið þátt í þessari umræðu hér um margra ára skeið, söknum þess auðvitað út af fyrir sig, að heyra ekki meira í fulltrúum Framsóknarflokksins við umræðuna en raun ber vitni. Því það verður að segja að það er hæstv. fjármálaráðherra og flokki hans til sóma að sannarlega var þetta eitt af þeim stefnumálum sem þeir höfðu nokkuð uppi í síðustu kosningum. Trúlega stóð ekki á þeim við að ráðast í að reyna að lækka matvælaverðið með lækkun virðisaukaskatts.

En það var alveg augljóst í fjárlagaumræðu eftir fjárlagaumræðu, að hinn stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, stóð greinilega í vegi fyrir því og þvert gegn því að hægt væri að fara í þann leiðangur sem ég held að allur almenningur í landinu og stærstur hluti starfandi þingmanna á Alþingi hafi haft ríka sannfæringu fyrir að mikilvægt væri að ráðast í.

Það virðist augljóst að Framsóknarflokkurinn hafi einfaldlega staðið þvert gegn því að farið væri í lækkun á hinum svokallaða matarskatti og þannig reynt að lækka nokkuð útgjöld heimilanna í landinu. Framsóknarflokkurinn hefur auðvitað líka staðið þvert gegn því, með sínum hætti, að sporna gegn verðbólgunni sem alla ráðherratíð hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesens hefur verið langt yfir öllum viðmiðunarmörkum, blikkandi á rauðu ljósi í hverjum einasta mánuði yfir þeim viðmiðunarmörkum sem Seðlabankinn hefur sett. Það var því auðvitað mikilvægt innlegg í þá þróun og hefði mátt koma til miklu fyrr, að ráðast í að reyna að lækka matvælaverðið.

En það var augljóst af öllu að Framsóknarflokkurinn stóð einarðlega gegn því í stjórnarsamstarfinu að hægt væri að lækka matarreikning heimilanna. En nú virðist loks hafa tekist að beygja Framsóknarflokkinn í þessu efni. Ég held að það væri út af fyrir sig forvitnilegt að heyra hér við umræðuna sjónarmið þingmanna Framsóknarflokksins um þetta stjórnarfrumvarp eftir þá miklu umræðu sem við höfum átt um þetta.

Við munum að það voru, ekki bara frá framsóknarþingmönnum, heldur líka frá ýmsum framámönnum í Sjálfstæðisflokknum, t.d. margvíslegar og miklar efasemdir um að skattalækkun af því tagi sem hæstv. fjármálaráðherra leggur nú til mundi nokkurn tíma ná til heimilanna í landinu í raun og sann. Vegna þess að hún mundi gufa upp á leiðinni, trúlega hjá Baugi, sem eins og alþjóð þekkir hefur verið flokki hæstv. fjármálaráðherra ákaflega … Er tíminn búinn?

(Forseti (JónK): Klukkan er sjö en ég býð ræðumanni upp á að ljúka ræðu sinni. Það eru átta mínútur eftir af ræðutíma hans.)

Ég held að það væri mikilvægt að heyra hvort þau sjónarmið í stjórnarliðinu sem lýsa áhyggjum af því að þessi skattalækkun nái ekki til heimilanna í landinu, séu algjörlega hjöðnuð. Eða hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi gripið til sérstakra aðgerða til að tryggja að þessi skattalækkun skili sér örugglega til heimilanna í landinu, eða hvort menn hafi alfarið fallið frá þeim sjónarmiðum sem þeir hafa áður haldið fram í þessari umræðu.

Það eru líka margs kyns skattaleg atriði sem er eðlilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um, því það sýnir sig í þeirri vinnu sem menn hafa unnið í nefnd eftir nefnd um það hvernig megi vinna að lækkun matarverðs í landinu að það eru ýmis önnur atriði sem gætu jafnvel haft enn þá meiri og betri áhrif til þess en lækkunin á vaskinum einum sér. Í umræðum um þá sögu og þann tillöguflutning allan held ég að full ástæða sé til að halda til haga sérstaklega nafni hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, sem hefur sannarlega sem oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi beitt sér sérstaklega og af einurð fyrir því að halda vakandi umræðunni um lífskjör heimilanna og um matvælaverðið í landinu.

Þar er kannski fyrst til að taka vörugjöldin en það hafa verið færð fyrir því nokkuð sterk rök að afnám vörugjaldanna mundi skila meiri árangri miðað við tekjutap ríkissjóðs að krónutölu en sú aðgerð sem hér er lögð til og eðlilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að aðgerðir í vörugjöldum og tollum gætu jafnvel skilað okkur enn betri árangri en þær tillögur sem hér eru lagðar fram.

Og síðan hljóta að vakna ákveðnar spurningar um flokkun þátta í hin tvö skattþrep þegar menn kjósa að hafa tvö skattþrep í virðisaukaskatti, eitt fyrir þær vörur sem eigi að vera ódýrari, eins og matvöru og aðra slíka vöru, og annað fyrir vöru sem eigi að vera dýrari, þá hvers vegna menn hugi t.d. ekki að því að flytja nauðsynjavöru, einkum fyrir aldraða og sjúka, eins og t.d. lyf, í lægri flokkinn. Hvers vegna er ákveðið að margs konar neysluvarningur sem sannarlega telst ekki til lífsnauðsynja sé í lægra þrepinu meðan lyf sem eru stórum hópum og oft tekjulágum, algjör lífsnauðsyn, hvers vegna er sá vöruflokkur ekki fluttur í neðra þrepið?

Það er líka óhjákvæmilegt að hæstv. fjármálaráðherra geri grein fyrir því hvers vegna ekki sé gert ráð fyrir neinu tekjutapi í tollum í fjárlagafrumvarpi næsta árs, og svari þeim ávirðingum sem hér hafa verið uppi í umræðunni um að það sýni að frumvarpið sé óvandað og illa undirbúið, að ekki sé gert ráð fyrir kostnaði af þessum þætti málsins í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Og að hann svari sömuleiðis þeirri miklu gagnrýni sem áfengisgjaldið hefur sætt.

Við sáum það í deilunum sem stóðu um olíugjaldið hvernig fjármálaráðuneytið lagði til umtalsvert hærra olíugjald á dísilolíuna en nokkurt tilefni var til og hefur leitt til þess að verð á dísilolíu á bensínstöðvum er orðið hærra en bensínverð. Ég hygg að það hafi verið sannfæring mjög margra þingmanna og kom ítrekað fram við umræðuna að þetta væri óhæfileg gjaldtaka af hálfu fjármálaráðuneytisins en af hálfu ráðherra var því statt og stöðugt haldið fram að þetta mundi aðeins bæta ríkissjóði tekjutapið.

Nú er komið í ljós að gjaldið gerir langtum meira en það og skilar ríkissjóði verulega auknum skatttekjum í hirslur sínar og nú eru komnar fram ábendingar um að eins sé farið með áfengisgjaldið. Í tengslum við breytingar á því hljóta líka einfaldlega að vakna spurningar um uppbyggingu áfengisgjaldsins og hvort það gjald og uppbygging þess sé ekki í sjálfu sé orðið úrelt, því þar er verið að leggja krónutölu á ákveðnar einingar en ekki hlutfallslega álagningu ofan á innkaupsverð eins og er þó almennt viðtekin venja í gjalda- og skatttöku í kerfi okkar á 21. öldinni.

En virðulegi forseti. Af því það er komið langt fram á daginn þá held ég að ég láti hér staðar numið í fyrri ræðu minni um málið.