133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

ummæli formanns Samfylkingarinnar á fundi í Keflavík – förgun fugla í Húsdýragarðinum.

[10:34]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ræða sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hélt fyrir margt löngu í Borgarnesi vakti furðu. Nú hefur hins vegar borið svo við að hv. þingmaður hefur haldið aðra ræðu sem hún vill kenna við Keflavík og hefur sú ræða vakið enn meiri furðu en sú fyrri.

Það sem einkum hefur vakið athygli er sú afdráttarlausa niðurstaða hv. þingmanns að kjósendur treysti ekki þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir stjórn landsins. Þetta eru í sjálfu sér engin ný tíðindi fyrir okkur sem stöndum utan Samfylkingarinnar en það er ánægjulegt að fá þetta staðfest með svo afgerandi hætti af hálfu formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. (Gripið fram í.) Það er full ástæða til að óska hv. þingmanni til hamingju með að hafa komist að þessari niðurstöðu og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka með svo afdráttarlausum hætti undir orð mín en ég hef í ræðu og riti á undanförnum árum vakið athygli á þessu.

Það eru hins vegar tvær hliðar á þessu máli eins og öðrum, hæstv. forseti. Hin snýr að hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og ég held að það séu fá ef nokkur dæmi í seinni tíma stjórnmálasögu okkar Íslendinga að formaður flokks hafi niðurlægt þingmenn sína með jafnafgerandi og augljósum hætti og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur kosið að gera í þetta skiptið.

Það er napur norðanvindur sem leikur um þingflokk Samfylkingarinnar og það eru kaldar kveðjur sem formaður flokksins færir þingmönnum sem sumir hverjir hafa setið hér árum og áratugum saman. Það eru einkennilegar kveðjurnar sem Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi formaður þingflokks Samfylkingarinnar, og aðrir þingmenn sem nú eru að láta af störfum eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson og Rannveig Guðmundsdóttir svo einhverjir séu nefndir, það eru kaldar kveðjur sem formaður Samfylkingarinnar sendir þeim þingmönnum.

Það er hins vegar annað, hæstv. forseti, sem ég vil vekja athygli á en í þessu felast skilaboð til framtíðarinnar. Af hverju? Jú, vegna þess að það eru engar líkur á að það verði nokkrar breytingar á þingflokki Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili. Þetta er skemmtilegt upphaf á kosningabaráttu Samfylkingarinnar. Skilaboð formannsins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, til frambjóðenda eru skýr og þau eru þessi: Kjósendur treysta ykkur ekki. Það er ánægjulegt að vita af því í upphafi kosningabaráttunnar hvernig Samfylkingin ætlar að reka kosningabaráttu sína í vor.