133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

ummæli formanns Samfylkingarinnar á fundi í Keflavík – förgun fugla í Húsdýragarðinum.

[10:52]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir þá miklu hreinskilni að hafa sjálf áttað sig á því að þjóðin treystir ekki Samfylkingunni. Þetta eru ummæli sem eru sjaldgæf og hreinskilni sem er sjaldgæf í stjórnmálum. Nú er það brennt á enni og brjóst Samfylkingarinnar: Þjóðin treystir þeim ekki. (Gripið fram í.) Þetta var auðvitað eitthvað sem við vissum. Þetta er samsafn fólks undir regnhlíf (Gripið fram í: Fékkst þú ekki orðið út á hænsni?) kommanna, (Gripið fram í.) kratanna, Kvennalistans ... (Gripið fram í.) Ég hef sama frelsi í ræðustól og hver annar. (Gripið fram í.) Ég vil þakka þessa hreinskilni. Hún er skýr. (Gripið fram í.) Hún er brennd þeim á brjóst.

Svo sný ég mér að hinum fuglunum sem voru í sjálfu sér miklu dýrmætari í Reykjavík, í Húsdýragarðinum. [Hlátrasköll í þingsal.] Þeir áttu að fá að lifa en þeir urðu að deyja, blessaðir, vegna þess að það fannst í garðinum veira, (Gripið fram í: Framsóknarveira.) H5N2 og H5N9, sennilega samfylkingargen. Vírusinn, þessi mikli sjúkdómur, gat verið til staðar og samkvæmt ákvörðun allra sem hér fara með þessi mál varð að farga þessum fuglum og rannsaka þá. Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin hefur gert kröfur til þess. Sem betur fer var ekki vírus til staðar en við skulum hugsa okkur það hvað þetta var mikið öryggisatriði að fella þessa fugla og (KolH: Af hverju er ...?) hreinsa garðinn og fá síðan nýja fugla með hækkandi sól í vor. Það verða fuglar sem geta sigrað kosningar þó Samfylkingin geri það ekki, nýir glæsilegir fuglar sem munu skemmta borgarbúum. Ég bið menn að gera ekki grín að þessari niðurstöðu. (Forseti hringir.) Þetta var grafalvarlegt og landbúnaðarráðherra varð að hlíta þessari niðurstöðu heilbrigðisstofnunarinnar og (Gripið fram í.) æðstu vísindamanna hér.