133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:21]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Birki Jón Jónsson vil ég segja: Auðvitað eru þessi fjárlög ekki alslæm en það er saga til næsta bæjar að Sjálfstæðisflokkurinn skuli sætta sig við að sitja í þessari voðalegu vinstri stjórn sem hv. þingmaður lýsti í ræðu sinni.

Þó svo að lífskjör almennings séu, af þeim meðaltölum sem hv. þingmaður vitnar ævinlega til, ekki að versna þá vita menn að ríkisstjórnin hefur enga stjórn á þenslunni, enga stjórn á viðskiptahallanum sem að stórum hluta stafar af stóriðjuframkvæmdunum. Við vitum öll hvernig gengið hefur sveiflast og óstöðugleikinn hefur magnast í samfélaginu. Við þekkjum misskiptinguna sem eykst stöðugt, við vitum að lífeyrisþegum fjölgar ár frá ári sem þurfa ár eftir ár að skrapa saman af ráðstöfunartekjum sínum, sem ekki eru nú of miklar, til að endurgreiða Tryggingastofnun svokallaðan ofgreiddan lífeyri. Auðvitað er hv. þingmaður ekki í góðu sambandi við þjóðina eða lífið í landinu þegar hann getur belgt sig eins og hann gerir í ræðustóli.

Spurning mín til hv. þingmanns er einföld. Hún varðar lækkunina á framlaginu til lánasjóðsins um 139 millj. Mig langar til að vita meira um það hvernig þessi lækkun er til komin en hv. þingmaður sagði í ræðu sinni. Við horfumst í augu við það að háskólastúdentum fjölgar gríðarlega. Ég vil fá að vita hvort þessi lækkun kemur á einhvern hátt til með að bitna á háskólastúdentum. Er þetta gert með vitund og vilja háskólastúdentanna og samtaka þeirra eða liggur hér fiskur undir steini? Ég hefði talið að hér hefði þurft að koma sterkari yfirlýsing frá hv. þingmanni um þessi mál.

Einnig vil ég fá að vita, í tengslum við háskólaumræðuna og umræðuna um fjárframlög til háskólans, hvar samningar við Háskóla Íslands eru staddir. Við vitum að 300 millj. kr. eru settar ofan á fjárveitingu til Háskóla Íslands í þessum fjárlögum en við vitum ekki út frá hvaða samningum er gengið eða út frá hvaða forsendum er gengið í þeirri fjárveitingu, hvort þar er bara um eitthvert slump að ræða. Hvar standa þessir samningar?