133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:27]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær 300 millj. sem gert er ráð fyrir að fari í sérstakan samning við Háskóla Íslands til að efla hann og styrkja munu vafalaust nýtast vel. Nú er það svo að það eru samningar og viðræður í gangi á milli trúlega ráðuneytisins og yfirvalda í Háskóla Íslands og verið er að móta þennan samning. Ég hef ekki tekið þátt í þeirri vinnu þannig að ég get því miður ekki upplýst hv. þingmann hvernig sá samningur verði upp byggður.

Það er athyglisvert þegar maður hlustar á ræður Vinstri grænna hvað þeir hafa miklar áhyggjur af viðskiptahallanum. Á þessu ári verður viðskiptahallinn um 19–20% af landsframleiðslu. Á næsta ári er gert ráð fyrir að hann verði rúm 11% af landsframleiðslu í forsendum fjárlagafrumvarps ársins 2007. Það helgast m.a. af því að innflutningur er að minnka og útflutningur að aukast. Starfsemi álversins á Reyðarfirði verður að nokkru leyti komin af stað á næsta ári og þar af leiðandi mun viðskiptahallinn minnka. Árið 2008 er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði um 4% vegna þess að þá verður álverið á Reyðarfirði tekið til starfa af fullum þunga og álverið á Grundartanga með stækkuninni þar. En hv. þingmönnum Vinstri grænna finnst engin ástæða til að benda á hvað þessi iðnaður mun skila þjóðarbúinu í framtíðinni og öll þau störf sem verða til, t.d. á Austurlandi og á Grundartanga, auk hinna miklu útflutningstekna sem munu myndast í kjölfar þessara framkvæmda fyrir íslensku þjóðina. Með þessum framkvæmdum getum við haldið áfram að standa undir okkar öfluga heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi og það er ætlun okkar, þó að aðrir séu á móti því.