133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:29]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki dettur mér í hug að veita andsvar í venjulegum skilningi þess orðs við jafnágætri ræðu og hv. þm. Birkir Jón Jónsson flutti hér. Það er þó ein spurning sem ég vildi koma á framfæri við hv. formann fjárlaganefndar, því að við afgreiddum út úr fjárlaganefnd í gærmorgun frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár en eftir hádegið tókum við til umræðu stjórnarfrumvarp sem lýtur að verðlagningu matvöru og opinberum álögum á hana. Við umræðuna kom fram að ekki væri gert ráð fyrir þeim tollalækkunum á matvöru sem gert er ráð fyrir í því frumvarpi, í fjárlagafrumvarpinu sem við erum nú með undir. Mér finnst því nauðsynlegt að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hér sé í fyrsta lagi rétt með farið, í öðru lagi hvers vegna ekki sé gert ráð fyrir því í frumvarpinu og hvort einhver ágreiningur sé um framkvæmdina, og í þriðja lagi hvort ástæða sé til að taka frumvarpið aftur inn í nefndina til að ráða bót á þessu svo frumvarpið megi vera sem réttast.