133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:30]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Hinn 16. júní í sumar barst mér bréf frá formanni utanríkismálanefndar norska Stórþingsins, Olav Akselsen, þess efnis að Norðurlandaþjóðir hafi áður komið að því að styrkja endurbyggingu þinghússins í Bosníu-Hersegóvínu. Nú hefur norska Stórþingið farið þess enn á leit við þjóðþing Norðurlanda að þau styrki frekari endurreisn þinghússins í Bosníu-Hersegóvínu þar sem nauðsynlegt er að endurbæta og laga útlit og veggi hússins. Upp úr því er lagt að koma húsinu í gott horf til að eyða þeim eyðileggingaráhrifum sem að þessu leyti urðu á þjóðþinginu í stríðinu á Balkanskaga.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdir er talinn vera 740 þús. evrur eða um 65 millj. kr. Norðmenn hafa boðist til að greiða helminginn af kostnaðinum og hafa óskað eftir stuðningi, eins og ég sagði áður, annarra ríkja á Norðurlöndum við fjármögnun 30% heildarkostnaðar en 20% ætla heimamenn að borga.

Í áliti utanríkismálanefndar, sem hún stendur öll að, til fjárlaganefndar var þess farið á leit að orðið verði við beiðni norska þingsins. Ekki hefur enn náðst samkomulag um skiptingu kostnaðar milli Íslendinga, Dana, Svía og Finna. Eins og ég sagði er verkefnið mjög brýnt og tengist endurreisn ríkisins og lýðræðisþróun þar í landi.

Hér er lagt til að 1,5 millj. kr. verði veitt til verkefnisins með fyrirvara um að sú fjárhæð sem við leggjum til þessa verks kunni að breytast og verður hún þá að koma til endurskoðunar síðar. Ég flyt þessa tillögu, en það er í samræmi við utanríkismálanefnd og vilja hennar.