133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:05]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er komið að lokaumræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007. Það væri auðvitað freistandi að endurtaka þá ræðu sem ég flutti við 2. umr. málsins en ég er að hugsa um að sleppa því að endurflytja hana. Mér þykir samt sem áður vert að geta hér nokkurra atriða sem skipta máli og sýna hversu vel hefur verið haldið á ríkisfjármálum og efnahagsmálum af hálfu stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Ég mun síðar í ræðu minni víkja að framgöngu stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár og þess framhaldsnefndarálits sem minni hlutinn hefur komið sér saman um.

Ég vek athygli á þeim horfum að verðbólga næsta árs verði 3% en ekki 4,5% eins og áður var spáð, sömuleiðis að verðbólgan verði 2,2% árið 2008. Verðbólgan er því á niðurleið en kaupmáttur, ráðstöfunartekjur almennings í landinu, eykst sífellt. Eins og ég hef áður tekið fram í þessum ræðustól hefur kaupmáttur almennings aukist að meðaltali um 60% á síðustu 10 árum. Það sem skiptir miklu máli er hins vegar það að ríkissjóður er að verða nánast skuldlaus. Á síðustu 10 árum hafa 77% af skuldum ríkissjóðs verið greidd niður. Það eru engar smáupphæðir og hefði einhvern tíma þótt fréttnæmt, hæstv. forseti.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar slá ýmist í eða úr. Í öðru orðinu kvarta þeir yfir því að útgjöld ríkisins séu of mikil en í hinu orðinu að útgjöld ríkisins séu of lítil, ekki séu næg framlög til tiltekinna mála eða málaflokka. Þá er kannski rétt, hæstv. forseti, að rifja upp að framlög til heilbrigðismála jukust á árunum 1998 til 2005 um 27,5 milljarða kr. Á sama tíma jukust framlög til almannatrygginga um 23 milljarða kr., þ.e. um 45%. Þetta er fyrir utan verðbólgu, þetta er umfram þá hækkun sem leiðir af verðbólgu. Framlög til fræðslumála hafa aukist að raungildi um 60% á sama tímabili, frá árinu 1998 til 2005, og þar af hafa framlög til háskóla aukist um 7,4 milljarða, þ.e. 80%. Ég vek athygli á því að þetta er fyrir utan fjárlög 2006 og þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar lagði fram við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga.

Ég gerði að umtalsefni í ræðu minni við 2. umr. um fjárlagafrumvarp næsta árs þau merku tíðindi að stjórnarandstaðan hefði komið sér saman um sameiginlegt nefndarálit. Eins og ég gat þá um er þetta í fyrsta skipti á kjörtímabilinu sem stjórnarandstaðan kemur sér saman um sameiginlegt nefndarálit við frumvarp til fjárlaga. Ekki nóg með það, hæstv. forseti, þetta er í fyrsta skipti frá árinu 1999, í sjö ár, sem stjórnarandstaðan kemur sér saman um eitt nefndarálit við afgreiðslu fjárlaga.

Hvað gerði stjórnarandstaðan í tilefni af þessu? Það var ekki kaffifundur eins og stundum vill verða, það var heldur betra en það. Það varð auðvitað að kalla til blaðamenn, það gefur augaleið að það verður að kalla til blaðamenn þegar stjórnarandstaðan kemur sér saman um einhvern skapaðan hlut. Það var auðvitað gert í þessu tilviki. (Gripið fram í.) Hverjar voru svo tillögur stjórnarandstöðunnar við 2. umr. fjárlaga? Hvaða tillögur skyldu það vera, þessar stórkostlegu tillögur? Það er kannski ekki rétt að tala um þær í fleirtölu vegna þess að þetta var ein tillaga (Gripið fram í.) og stjórnarandstaðan skilaði auðu, hún lagði ekki fram neinar tillögur um aukin framlög til menntamála, hún lagði ekki fram neinar tillögur um aukin framlög til félagsmála og hún lagði ekki fram neinar tillögur um aukin framlög til heilbrigðismála. (Gripið fram í.) Þetta var hugurinn sem stjórnarandstaðan sýndi þjóðinni við 2. umr. um fjárlög. Enda heyri ég að hv. frammíkallandi Einar Már Sigurðarson er hér beygður, og auðvitað er hann beygður, það er búið að afskrifa hann. Það er búið að lýsa því yfir að honum sé ekki treystandi, að kjósendur treysti honum ekki. Það er búið að lýsa því yfir að honum sé ekki treystandi fyrir ríkisfjármálunum. Þetta er það sem ég er búinn að segja í ræðustólnum mjög lengi en það var ekki ég sem sagði þetta um helgina, heldur var það formaður Samfylkingarinnar, formaður hv. þingmanns, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem sagði að þingmanninum væri ekki treystandi frekar en öðrum þingmönnum í þingflokki Samfylkingarinnar. Kjósendur treysta ekki þingmönnum Samfylkingarinnar, það voru skilaboð og mjög skýr skilaboð formanns Samfylkingarinnar til hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og annarra í þingflokki Samfylkingarinnar.

Það má kannski halda þessari umræðu svolítið áfram. (Gripið fram í.) Það vakti athygli hér í gær að heilbrigðisráðherraefni stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, hélt því fram að hæstv. forseti hefði lagt Frjálslynda flokkinn í einelti. (Gripið fram í: Ha?) Ég veit ekki hversu langt þessi paranoja hjá Frjálslynda flokknum á að ganga en mér sýnist þetta bera vott um verulega óvissu og slæmt sálrænt ástand hv. þingmanna Frjálslynda flokksins. Manni hefur eiginlega sýnst af fréttum undanfarna daga að frjálslyndir séu aðallega í því að leggja hver annan í einelti, það þurfi ekki atbeina hæstv. forseta til þess. En slík er paranojan að menn sjá sérstaka ástæðu til að koma hér upp í ræðustól og kvarta yfir eineltistilburðum hæstv. forseta. (GAK: Þú verður sífellt skemmtilegri.) Hversu langt á þessi umræða að ganga um einelti Frjálslynda flokksins? (Gripið fram í.) Já, það væri full ástæða til þess að fara svolítið lengra í þessum efnum. (Gripið fram í.) Já, það má hafa mörg orð um Framsóknarflokkinn, vissulega er það rétt, hæstv. forseti. (Gripið fram í: Gerði hann ekki bara mistök?) Það vita þeir sem vilja vita að Framsóknarflokkurinn hefur verið lengst allra flokka í ríkisstjórn á Íslandi á lýðveldistímanum, og hvar koma þau áhrif fram? Þau koma fram alls staðar á öllum sviðum þjóðlífsins.

Af því að ég gat um það áðan að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu undir myndavélum fjölmiðlanna komið sér saman um eitt nefndarálit við 2. umr. um fjárlög er auðvitað ástæða til að skoða hver skilaboð hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar til almennings voru við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins við 2. umr. Hvernig skyldu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið á tillögum um aukin framlög til ýmissa málaflokka? Hver skyldi hafa verið afstaða hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar til tillagna meiri hluta fjárlaganefndarinnar? Hver voru þau, hæstv. forseti? Eigum við ekki bara að renna yfir það (Gripið fram í: Jú.) þannig að almenningur viti hver afstaða stjórnarandstöðunnar er og hvernig hún kemur fram gagnvart almenningi í landinu (GAK: … almenningur …) þegar tækifæri er til? (Gripið fram í.) Sé ég nú hv. þm. Sigurjón Þórðarson koma á harðahlaupum inn í þingsalinn til að missa ekki af neinu í þessari skemmtilegu ræðu. (Gripið fram í.) Það er líka hollt fyrir hv. þm. Sigurjón Þórðarson eins og aðra þingmenn (Gripið fram í.) einelta flokksins að rifja upp hvernig þeir sýndu hug sinn til þjóðarinnar við 2. umr. um frumvarp til fjárlaga. (Gripið fram í.)

Við skulum byrja á menntamálunum. (Gripið fram í.) Eins og ég sagði áðan lagði stjórnarandstaðan ekki fram neina tillögu við 2. umr. fjárlaga sem sneri að menntamálum, (Gripið fram í.) ekki eina einustu tillögu um menntamál. (Gripið fram í: Var þörf á …?) Við skulum sjá hvað meiri hluti fjárlaganefndar gerði.

Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög til Háskóla Íslands yrðu hækkuð um 308,8 millj. (Gripið fram í: Hefði átt að vera meira.) Nú væri fróðlegt að fá að vita um tillögur stjórnarandstöðunnar. Þær voru engar. Maður hefði þó kannski haldið að stjórnarandstaðan gæti látið svo lítið að taka undir og styðja tillögur um aukin framlög til Háskóla Íslands. (HHj: Ertu nýr hérna?) Hver var svo afstaða hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar til tillagna um ríflega 300 millj. kr. fjáraukningu til Háskóla Íslands? Þau ákváðu að sitja hjá, þau treystu sér ekki til að styðja tillögu um það að Háskóli Íslands fengi ríflega 300 millj. kr. hækkun á fjárlögum næsta árs. Það er fróðlegt fyrir stúdenta við Háskóla Íslands að vita af þessu, það er fróðlegt fyrir forráðamenn Háskóla Íslands að vita af þessu.

Ég talaði t.d. að á málþingi Stúdentaráðs Háskóla Íslands á föstudaginn og þar talaði heilbrigðisráðherraefni stjórnarandstöðunnar úr einelta flokknum, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, og hafði uppi mikil áform og hástemmdar yfirlýsingar um gildi Háskóla Íslands. Þar töluðu líka hv. þm. Björgvin Sigurðsson og Kolbrún Halldórsdóttir. Þeim láðist hins vegar öllum að greina frá því að þau hefðu ekki treyst sér til að samþykkja hækkun til Háskóla Íslands upp á ríflega 300 millj. kr. Þetta eru skýr skilaboð frá stjórnarandstöðunni til Háskóla Íslands.

Sömu sögu er að segja um Háskólann á Akureyri, hæstv. forseti. Þar lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að framlög til Háskólans á Akureyri yrðu aukin um 78 millj. kr. Hvað gerði stjórnarandstaðan? Maður hefði kannski haldið að hún hefði hamast hér á já-takkanum og greitt þessu atkvæði, sérstaklega hv. þm. Einar Már Sigurðarson þar sem skólinn er í kjördæmi hans og hann hefur á góðum stundum lagt mikla áherslu á starfsemi Háskólans á Akureyri. Hvað skyldi hann hafa gert við 2. umr. um fjárlögin? Hann sat hjá. Ætli það þyki ekki tíðindi í kjördæmi hv. þingmanns að hann hafi ekki treyst sér til að samþykkja fjárframlög til Háskólans á Akureyri, aukin fjárframlög upp á 78 millj. kr.? Það hefur kannski bara verið búið að slá hann af þá þegar. Kannski hefur formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, verið búin að hvísla því í eyrað á honum að kjósendur treystu honum ekki fyrir stjórn ríkisfjármálanna fremur en stjórn annarra mála er varða stjórn ríkisins.

Ég vakti í ræðu minni við 2. umr. málsins athygli á málefnum Reykjavíkurakademíunnar. (Gripið fram í: … útskrifast?) Við 2. umr. lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að framlög til Reykjavíkurakademíunnar yrðu aukin um 10,2 millj. kr. Þetta er sjálfstætt samfélag fræðimanna þar sem unnið hefur verið gott starf og eins og ég gat um í ræðu minni við 2. umr. hafði ég tækifæri til að sækja þessa akademíu heim (Gripið fram í: Nú?) fyrr í haust og sjá með eigin augum (Gripið fram í.) það góða starf sem þar er unnið. Það hefur a.m.k. skilað sér í því að hér var lagt til að Reykjavíkurakademían fengi 10,2 millj. aukalega og Reykjavíkurakademían fær núna 22 millj. kr. á fjárlögum næsta árs. (Gripið fram í.) Og hvað gerði hv. þm. Einar Már Sigurðarson, hvað gerðu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar? Skyldu þeir hafa greitt þessu atkvæði? Nei, þeir auðvitað sátu hjá. Þetta eru menn sem geta enga ábyrgð borið. Einn stjórnarandstöðuflokkurinn er í einelti við sjálfan sig og það er búið að afskrifa alla þingmenn annars stjórnarandstöðuflokks sem óhæfa, þeim sé ekki treystandi að áliti kjósenda til að sjá um stjórn ríkisins, þar með ríkisfjármálin, enda hafa þeir haft heldur hægt um sig við þessa umræðu sem vonlegt er.

Þá komum við að framhaldsskólunum. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur verið sérstakur áhugamaður um að bæta hag framhaldsskóla. Hvað skyldi þá hv. þingmaður hafa gert þegar meiri hluti fjárlaganefndar lagði til 260 millj. kr. hækkun við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður vill meina að hér hafi ríkissjóður verið að skila einhverju til baka. Maður hefði þá haldið að hv. þingmaður gæti greitt því atkvæði að þessu fé yrði skilað til baka en svo var aldeilis ekki. Hann vildi bara greinilega að þessu fé yrði þá ekki skilað til baka vegna þess að hann gat ekki greitt því atkvæði, ekki frekar en aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gat hann greitt því atkvæði að framlög til framhaldsskóla yrðu aukin um 260 millj. við 2. umr.

Það má líka benda á Fjölbrautaskóla Snæfellinga, í kjördæmi sjálfs fjármálaráðherraefnis stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Það voru lagðar til 7 millj. kr. aukalega til Fjölbrautaskóla Snæfellinga þannig að framlögin yrðu alls 169,3 millj. á næsta ári. Hvað gerði hv. þm. Jón Bjarnason? Maður hefði haldið að hann hefði hlaupið upp til handa og fóta til að fá að greiða þessum framlögum atkvæði sitt. Hann treysti sér ekki í það, ekki frekar en aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. Meira að segja hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sem sætt hefur hvað mestu einelti hér á þinginu, treysti sér ekki heldur til að greiða þessu atkvæði (Gripið fram í.) þrátt fyrir að þetta væri í hans kjördæmi. Sagan segir meira að segja að hv. þingmaður hafi komið þar einu sinni. (SigurjÞ: Hvert?) Á Snæfellsnesið. (SigurjÞ: Ég var alinn þar upp.)

Ég vek líka athygli á því, hæstv. forseti, að meiri hluti fjárlaganefndar lagði til við 2. umr. að veittar yrðu 100 millj. kr. til íslenskukennslu fyrir útlendinga. Hvað skyldi stjórnarandstaðan hafa gert í þeim málum, er ekki rétt að upplýsa þjóðina um það? Ég sé að þingmenn Frjálslynda flokksins, hins einelta, eru nú orðnir mjög áhyggjufullir. Það var kannski skiljanlegt að þeir greiddu þessu ekki atkvæði en aðrir þingmenn, þingmenn Vinstri grænna og hv. þingmenn Samfylkingarinnar, treystu sér ekki til að samþykkja að greiddar yrðu 100 millj. til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þetta voru skilaboðin, þetta er til merkis um stefnu stjórnarandstöðunnar í málefnum útlendinga. Það þarf bara engan pening í málefni útlendinga, það þarf bara engan pening í íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þetta eru hugguleg skilaboð frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar til þjóðarinnar.

Við getum líka tekið framlög til byggða- og minjasafna. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög til Þjóðminjasafnsins mundu hækka um 10 millj. og framlög til ýmissa byggða- og minjasafna um 46,5 millj. kr. Hvað gerðu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar þá? Það þarf kannski ekki lengur að hafa mörg orð um þetta, hæstv. forseti, þau auðvitað skiluðu auðu. Stjórnarandstaðan hefur skilað auðu við þessa umræðu, enda er henni ekki treystandi fyrir ríkisfjármálunum eins og fram kom í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Keflavík í Reykjanesbæ á dögunum.

Landsbókasafn Íslands – háskólabókasafn. Þar lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að fjárheimildir yrðu auknar um 12 millj. kr. þannig að fjárheimildirnar yrðu alls ríflega 650 millj. Auðvitað treysti stjórnarandstaðan sér ekki til að leggja þessu lið. Eins og það hefði verið auðvelt, hæstv. forseti, að freistast til þess að ýta á já-takkann einu sinni, þótt ekki væri nema einu sinni í allri atkvæðagreiðslunni við 2. umr. fjárlaga. Því miður tókst það ekki, hæstv. forseti, og er auðvitað skiljanlegt.

Við skulum næst taka Blindrabókasafn Íslands. Það er safn sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haft sérstakan áhuga á og meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög til Blindrabókasafnsins yrðu aukin um 5 millj. Gátu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar stutt þá tillögu? Nei. Að hugsa sér, hæstv. forseti, þingmenn stjórnarandstöðunnar treystu sér ekki til að styðja tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um 5 millj. kr. aukaframlag til Blindrabókasafns Íslands.

Það er freistandi að taka næst til umfjöllunar framlög til ýmissa annarra safna, til að mynda Listasafns Alþýðusambands Íslands þar sem meiri hlutinn lagði til að að framlögin yrðu 5,5 millj., framlag til Nýlistasafnsins yrði 8 millj. og framlag til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar mundi hækka um 0,7 millj. og verða 8 millj. Hvernig sýndi stjórnarandstaðan hug sinn til lista- og menningarmála við afgreiðslu í 2. umr. um fjárlög? Ekki studdi hún þessar tillögur, auðvitað gat hún ekki stutt tillögur um aukin framlög til lista- og menningarstarfsemi, það gefur augaleið. Þetta er hugurinn, hæstv. forseti, sem stjórnarandstaðan sýnir lista- og menningarlífinu hér á landi.

Hann kemur fram í fleiri atriðum. Stjórnarandstaðan gat ekki stutt tillögu um að hækka framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands um ríflega 150 millj. Það sem meira er, stjórnarandstaðan gat ekki hugsað sér að styðja tillögu um aukin framlög til kvikmyndagerðar upp á 123 millj. Stórir þættir og mikil aukning á fjárlögum, og stjórnarandstaðan skilar auðu. Stjórnarandstaðan segir pass, stjórnarandstaðan hefur sagt eitt stórt pass við þessa umræðu um fjárlögin.

Þá eru það leikhóparnir. Hvernig tóku hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar á leikhópum? Maður hefði kannski haldið að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu haft áhuga á leik, til að mynda hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sem ég held að sé eini lærði leikari stjórnarandstöðunnar þó að þeir séu margir góðir. Hvernig skyldu hún og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið á tillögum meiri hluta fjárlaganefndar um aukin framlög til áhugaleikfélaga og atvinnuleikhópa? Hún skilaði auðvitað auðu, stjórnarandstaðan skilaði auðu, hún sagði pass. Hún gat ekki samþykkt aukin framlög til áhugaleikfélaga eða atvinnuleikhópa.

Hæstv. forseti. Því miður er sömu sögu að segja af öðrum málefnum er varða listir og fræðistörf. Til að mynda gat stjórnarandstaðan ekki stutt tillögu um aukin fjárframlög til Hins íslenska bókmenntafélags upp á 14,3 millj. kr., ekki til Skriðuklausturs upp á 7,7 millj. kr. og ekki til Snorrastofu í Reykholti upp á 6 millj. kr. Það verður fróðlegt þegar hv. þm. Jón Bjarnason, fjármálaráðherraefni stjórnarandstöðunnar, (JBjarn: Glæsilegt.) ríður um héruð (JBjarn: Já, á skjóttum.) og mun reyna að skýra það út fyrir Borgfirðingum hvers vegna hann gat ekki stutt tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um 6 millj. kr. aukaframlag til Snorrastofu. Hverju ætlar hv. þingmaður að svara?

Það er nefnilega þannig að það er oft innantómt gjálfur sem kemur frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Það verður erfitt fyrir þau að fara um héruð landsins og reyna að skýra það út fyrir landsmönnum hvers vegna þau gátu ekki stutt framlög um aukið fé til ýmissa málaflokka í öllum héruðum landsins.

Við skulum taka Íþróttasamband fatlaðra. Nú leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að framlög til Íþróttasambands fatlaðra nemi 22 millj. kr. Við 2. umr. var lagt til að þessi framlög hækkuðu frá því sem var í frumvarpinu sjálfu um 2,4 millj. kr. Hvað skyldu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert? Hvað ætli hv. brottrekni þingmaðurinn, Valdimar Leó Friðriksson, hafi gert í þeim efnum, (Gripið fram í: Brottrekinn hvaðan?) sá fyrsti sem fékk skilaboðin um það að (MÞH: Það er munur á brottrekstri og uppsögn.) hann væri ekki hæfur og honum væri ekki treystandi til að fara með stjórn landsins (Gripið fram í.) og að kjósendur mundu ekki treysta honum? Hvað skyldi hann hafa gert við þessa atkvæðagreiðslu? Hvað skyldu aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert? Studdu þau tillögu um aukin framlög til Íþróttasambands fatlaðra? Nei, þau gátu það ekki. Það væri fróðlegt ef hv. þingmenn mundu nú renna upp í Hátún og skýra það út fyrir forsvarsmönnum Íþróttasambands fatlaðra að þau hafi ekki getað stutt tillögu um aukin fjárframlög til sambandsins. Það mætti svo sýna þær útskýringar í Spaugstofunni á laugardaginn, (Gripið fram í.) jafnfyndnar og þær munu væntanlega reynast.

Skáksamband Íslands. Nú háttar svo til, hæstv. forseti, að forseti Skáksambandsins hefur hlotið þau örlög að bjóða sig fram fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í næstu alþingiskosningum. Þetta er skelegg kona og mundi vafalaust bæta miklu við þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hún kom á fund fjárlaganefndar og bað um aukin fjárframlög til Skáksambands Íslands og til Skákskóla Íslands. Hvað gerði meiri hluti fjárlaganefndar? Hann lagði til aukin fjárframlög til Skáksambands Íslands upp á 5,3 millj. þannig að sambandið fær nú 17 millj. og til Skákskóla Íslands upp á 1,4 millj. þannig að skólinn fær nú 8,5 millj. kr.

Það verður fróðlegt þegar hv. þm. Jón Bjarnason, fjármálaráðherraefni stjórnarandstöðunnar, fer að skýra þetta út fyrir félaga sínum, forseta Skáksambandsins, að hann hafi bara hreinlega ekki getað stutt þessar tillögur. Hvernig ætlar hv. þingmaður að gera það? Ætlar hann að segja að þetta sé svo vond ríkisstjórn, þetta sé svo vondur stjórnarmeirihluti, svo vondir menn í meiri hluta fjárlaganefndar að ekki hefði verið hægt að styðja þær tillögur sem meiri hlutinn lagði til? Eða ætlar hv. þingmaður, eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, að segja að þetta sé á ábyrgð meiri hluta þingsins? Það skyldi þó ekki vera. Auðvitað er þetta á ábyrgð meiri hluta þingsins, en bannar það hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að styðja einstök mál? Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan vill enga ábyrgð taka, stjórnarandstaðan þorir ekki að axla ábyrgð og þess vegna er skiljanlegt að kjósendur treysti ekki þingmönnum stjórnarandstöðunnar, hvort sem er Samfylkingarinnar eða öðrum, til að fara með stjórn landsins.

Þetta eru stóru pólitísku tíðindin. Stóru pólitísku tíðindi síðustu vikna eru þau að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur loksins áttað sig á því að almenningur í landinu, kjósendur, treystir ekki þingmönnum Samfylkingarinnar. Það er vel að hv. þingmaður hafi áttað sig á þessu, enda eru þingmenn Samfylkingarinnar óvenjubeygðir og lítilfjörlegir í þingsalnum í dag eins og menn hafa orðið varir við.

Eigum við að taka fleiri sambönd, hæstv. forseti? (JBjarn: Sambandið.) (Gripið fram í: Sambandið sjálft bara.) Við skulum taka hér Bridgesambandið, (MÞH: Framsóknarflokkinn.) Bridgesamband Íslands. (Gripið fram í: S-hópinn.) Ég held að einhverjir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar kunni á spil, mér er sagt það og ég hef í sjálfu sér ekki ástæðu til að draga það í efa. Hvernig skyldu þá hv. þingmenn hafa tekið í tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um að auka framlög til Bridgesambands Íslands um 15 millj.? (VF: 15? Það voru 5 á þessu ári.) Það voru 15 millj. Það var lagt til 0 í fjárlagafrumvarpinu (Gripið fram í.) og 15 millj. við 2. umr. fjárlaga. (Gripið fram í.) Hvað skyldu hv. þingmenn hafa gert? Greiddu þau því atkvæði? Nei, auðvitað gerðu þau það ekki. Það var svo sjálfsagt að það þurfti ekki að minnast á það, auðvitað greiddu þau því ekki atkvæði, gátu ekki stutt það. Þau vildu bara að Bridgesambandið fengi ekki neitt.

Eigum við að taka Ungmennafélag Íslands? Ég sé að ungmennafélagsfrömuðurinn, hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson, er í salnum. (Gripið fram í: Og ég líka.) (JBjarn: Eru … hópar …?) Hvernig skyldu ungmennafélagar (Gripið fram í.) stjórnarandstöðunnar …

(Forseti (SAÞ): Forseti beinir því til hv. þingmanna að hafa þögn í salnum meðan ræðumaður talar.)

Hæstv. forseti. Það er skiljanlegt að hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sé órótt, það er mikil ólga í öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Þingmenn Frjálslynda flokksins og helstu forustumenn leggja hver annan í einelti og eru orðnir svo paranojaðir og illa haldnir að þeir telja hæstv. forseta leggja sig í einelti líka. Það er búið að afskrifa hv. þingmenn Samfylkingarinnar frá stjórn landsins, og ekki af þjóðinni heldur af formanninum sjálfum sem hefur lýst því margoft yfir að landsmenn treysti ekki hv. þingmönnum Samfylkingarinnar til að fara með stjórn landsins. Það er mikilvægt að það komist til skila, og það oft og það mörgum sinnum, hæstv. forseti.

Hvað gerðu ungmennafélagar stjórnarandstöðunnar þegar meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög til Ungmennafélags Íslands yrðu aukin um 34,4 millj. þannig að framlagið næmi 100 millj. á næsta ári? Ungmennafélagar stjórnarandstöðunnar sátu hjá, þau sögðu pass. Þau lögðu ekki í að samþykkja þessa tillögu, treystu sér ekki til að styðja hreyfingu sína. Þau treystu sér ekki til að styrkja Ungmennafélag Íslands til viðbótar um þessar 34,4 millj. kr. Það verður fróðlegt þegar hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson fer um kjördæmi sitt og reynir að skýra það út fyrir ungmennafélögum þar og öðru fólki af hverju hann gat ekki stutt tillögu um aukin framlög til Ungmennafélags Íslands.

Bandalag íslenskra skáta, hvernig fór stjórnarandstaðan með Bandalag íslenskra skáta? Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög til Bandalags íslenskra skáta yrðu aukin um 9 millj. Og auðvitað sat stjórnarandstaðan hjá, auðvitað sagði stjórnarandstaðan pass eins og í öllum öðrum málum þar sem framlög ríkissjóðs voru aukin.

Meira að segja sparkvellirnir, hæstv. forseti, fengu ekki að vera í friði fyrir stjórnarandstöðunni, meira að segja framlag til Knattspyrnusambands Íslands til að byggja upp sparkvelli víða um land og ljúka því átaki fékk ekki að vera í friði, hæstv. forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar treystu sér ekki til að styðja aukið framlag til sparkvallanna.

Mikið hefur verið talað um þann vanda sem steðjar að Suðurnesjamönnum í kjölfar brotthvarfs hersins af Keflavíkurflugvelli. Hvernig skyldu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa miklar áhyggjur af þessum vanda hafa tekið á tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um sérstakt fjárframlag til reksturs fyrrum hersvæða við Keflavíkurflugvöll upp á heilar 280 millj. kr. sem maður skyldi ætla að mundi bæta eitthvað atvinnuástandið á Suðurnesjum? Hvernig skyldu hv. þingmenn hafa tekið á þessu? Jú, þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá, þau sögðu pass.

Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög til Skógræktarfélags Íslands yrðu aukin um 6 millj. kr. Hvernig skyldu stjórnarandstæðingar hafa tekið á því? Jú, auðvitað með hefðbundnum hætti, þeir gátu ekki stutt framlög til Skógræktarfélags Íslands upp á heilar 6 millj. kr.

Það er furðulegt að horfa upp á þessa afstöðu stjórnarandstöðunnar til frjálsra félagasamtaka í landinu. Það er óhuggulegt að vita til þess að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar treysti sér ekki til að styðja framlög úr ríkissjóði til ýmissa félagasamtaka og áhugamannasamtaka víða um land sem eru að vinna yfirleitt í sjálfboðastarfi að góðum og uppbyggilegum málefnum sem brýn þörf er á að sinna.

Ég gat um Skógræktarfélags Íslands. Hvernig skyldu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið á Skógrækt ríkisins? Þar lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að framlög yrðu aukin um 24 millj. kr. Ég sé að þetta er sérstakt áhugamál hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni — sem nú hleypur í salinn — enda stofnun í kjördæmi hans. Hvernig skyldi hv. þingmaður eða aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið á þeirri tillögu meiri hluta fjárlaganefndar? Jú, þeir sátu hjá og gátu ekki, treystu sér ekki, þorðu ekki að samþykkja aukin fjárframlög til Skógræktar ríkisins.

Fróðlegt er að horfa aftur til landbúnaðarskólanna, hæstv. forseti. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög til Landbúnaðarháskóla Íslands yrðu aukin um 30 milljónir og yrðu þá tæplega 890 millj. kr. á næsta ári. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði líka til að framlög til Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal yrðu hækkuð um 4 milljónir og yrðu 320 millj. kr. Hvernig skyldi fyrrverandi Hólarektor, hv. þm. Jón Bjarnason, hafa tekið á þeim tillögum stjórnarandstöðunnar? Tveir skólar í kjördæmi hans, þar af annar þar sem hann gegndi stöðu rektors um margra ára skeið, hvernig skyldi hv. þingmaður hafa tekið á þeim tillögum? Maður hefði haldið að fyrra bragði að hann hefði verið snöggur til að greiða þeim atkvæði, en því var ekki að heilsa. Hv. þingmaður, eins og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, sat hjá. Hann skilaði auðu, hann sagði pass. Það verður mikil skemmtiför þegar hv. þm. Jón Bjarnason heldur næst heim að Hólum. Það verður skemmtiför, hæstv. forseti.

Það væri auðvitað full ástæða til að fara með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að Hólum, þótt ekki væri nema til að reyna að hjálpa honum og útskýra fyrir heimamönnum á Hólum að hv. þingmaður hafi ekki treyst sér, ekki þorað, ekki getað sýnt þann kjark að samþykkja aukin framlög til síns gamla skóla á Hólum. Ja, sér er nú hver hneisan.

Við getum tekið Veiðimálastofnun. Við skulum skoða hana aðeins, hún er líka sérstakt áhugamál hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Veiðimálastofnun hefur eftir breytingar við 2. umr. 162,3 millj. kr. sem framlag úr ríkissjóði. Við 2. umr. lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að þau framlög yrðu aukin um 20 millj. kr. Að sjálfsögðu sat stjórnarandstaðan hjá, að sjálfsögðu sagði stjórnarandstaðan pass, að sjálfsögðu gat stjórnarandstaðan ekki greitt því atkvæði. Þetta er allt á ábyrgð stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Það er líka gott að fólk viti að það er stjórnarmeirihlutinn sem leggur þessar breytingar til og það er stjórnarmeirihlutinn sem samþykkir þessar auknu fjárveitingar án alls atbeina hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar.

Hæstv. forseti. Fyrirhugað er að fjölga nemendum Lögregluskóla Íslands. Mönnum hefur á stundum orðið tíðrætt um nauðsyn þess að fjölga lögreglumönnum og auka sýnilega löggæslu. Hvað gera menn svo þegar lagt er til að Lögregluskóli ríkisins fái aukalega 35 millj. kr. til að geta tekið inn fleiri nema? Auðvitað samþykkti stjórnarmeirihlutinn á Alþingi þá tillögu undantekningarlaust en hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá. Maður hlýtur að spyrja sig, hæstv. forseti, þegar svona háttar til: Hvað eru hv. þingmenn að gera í þingsalnum við þessa atkvæðagreiðslu þegar þeir treysta sér ekki til að greiða einni einustu tillögu atkvæði sitt? Þetta er svo sorglegt og svo átakanlegt að engu tali tekur. (Gripið fram í: Viltu ekki harka af þér samt?)

Við skulum næst snúa okkur að málefnum fatlaðra, hæstv. forseti. — Sé ég nú í salnum stuðningsfulltrúann sjálfan, hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson, sem lagði manna fyrstur á flótta úr Samfylkingunni. Hvernig skyldi hann hafa tekið á tillögunum um aukin útgjöld til málefna fatlaðra? Hvernig skyldu aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið á tillögum um aukin — ekki niðurskurð — aukin fjárútgjöld, aukin útgjöld til málefna fatlaðra, tillögu um að auka framlög til ýmissa verkefna á sviði fatlaðra um 90 millj. kr. eða tillögu um að setja sérstaklega 32 millj. kr. til viðbótar í málefni fatlaðra í Reykjavík? Hvernig tóku forkólfar stjórnarandstöðunnar á því máli? Hvernig tók stuðningsfulltrúinn á því máli? Hvernig tóku hv. þingmenn á því máli, tillögum um aukin framlög til málefna fatlaðra við 2. umr. um fjárlög næsta árs? Skyldu þeir hafa greitt þessu atkvæði? Að sjálfsögðu ekki, hæstv. forseti. Getuleysið er algjört. Ábyrgðarleysið er algjört og hræðslan við að taka ákvörðun er algjör. Það er gott fyrir forsvarsmenn fatlaðra um land allt að vita hver hugur stjórnarandstöðunnar er til málefna fatlaðra í raun og veru þegar á reynir. — Og það er geispað, hæstv. forseti, af því að þetta skiptir stjórnarandstöðuna ekki neinu máli, málefni fatlaðra skipta stjórnarandstöðuna engu máli eins og fram kemur og eins og hún sýnir hug sinn við atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga.

Við getum horft á ýmis önnur félagsmál. (Gripið fram í.) Ég ætla bara að nefna nokkur dæmi, til að mynda var lagt til af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar, stjórnarmeirihlutans á Alþingi, að hækka vinnuframlög til Geysis um 5,3 milljónir, framlag til Félags heyrnarlausra um 4 milljónir, framlag til Geðhjálpar um 5 milljónir, framlag til Stróks, vinnumiðlunar fyrir geðfatlaða, um 5 milljónir, framlag til Stígamóta um 5 milljónir, framlag til Félagsþjónustu við nýbúa um 4 milljónir, framlag til innflytjendaráðs og móttöku flóttamanna um 9 milljónir og ýmis önnur framlög um 18,7 milljónir. Maður hefði haldið að allir hv. þingmenn á hinu háa Alþingi hefðu getað sameinast um að auka framlög til þessara málaflokka. En hvað gerir þá stjórnarandstaðan? Hvað gera þá hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem eru vanir að kveina og kvarta í þingsölum þegar þeim loksins gefst kostur á að sýna hug sinn í alvöru til umræddra málaflokka, til málefna fatlaðra, innflytjenda og annarra hópa? Hvað gera hv. þingmenn? Þeir gera bara alls ekki neitt. Það er þeirra besti leikur. Það er það besta sem þeir geta gert, að gera ekki neitt. Þeir gátu ekki einu sinni hugsað sér að styðja tillögur meiri hlutans um þessi efni. Er þetta ekki grátlegt, hæstv. forseti? Er ekki grátlegt fyrir þjóðina að þurfa að búa við stjórnarandstöðu sem þessa, sem treystir sér ekki einu sinni til að taka afstöðu til fyrrgreindra málaflokka?

Við skulum aðeins ræða um heilbrigðismálin, hæstv. forseti. Við getum til að mynda tekið Landspítala – háskólasjúkrahús. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa löngum kvartað yfir fjárhagsvandræðum Landspítalans, fjársvelti Landspítalans, og því hvernig stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi á að hafa komið fram við Landspítalann og forráðamenn hans. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til við atkvæðagreiðslu um fjáraukalög fyrir þetta ár að framlög til Landspítalans ykjust um 1 milljarð kr., 1.000 milljónir. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði líka til við 2. umr. um afgreiðslu fyrir fjárlög 2007 að framlög til Landspítalans ykjust um rúman milljarð, þ.e. 1.023,4 millj. kr. Oft hefur verið kvartað og kveinað af hálfu stjórnarandstöðunnar yfir því að framlög til heilbrigðismála væru ekki næg, og framlög til Landspítalans ekki næg. Hvernig sýnir stjórnarandstaðan og hv. þingmenn hennar svo hug sinn til Landspítalans þegar færi gefst á að auka framlögin um 1 milljarð á þessu ári og 1 milljarð á næsta ári? Hún skilar auðu, hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan getur ekki einu sinni samþykkt að auka fjárframlög til Landspítala – háskólasjúkrahúss um 1 milljarð. Þetta er erfitt líf, hæstv. forseti, það er erfitt að vera hræddur. Það er erfitt að vera hræddur og skelfdur í stjórnarandstöðunni og fá svo þann dóm yfir sig að kjósendur treysti manni ekki, ofan á allt saman. Er það nema von að kjósendur treysti ekki fólki eins og hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar til að fara með stjórn landsins þegar stjórnarandstaðan segir pass í hverri tillögunni, í hverju málinu á fætur öðru sem snýr að framlögum úr ríkissjóði? (GAK: Ekki vera svona sorgmæddur.)

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til 120 millj. kr. aukningu á fjárframlögum til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri við umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2006. Við 2. umr. um það mál sem við erum hér með til umræðu, hæstv. forseti, lagði meiri hluti fjárlaganefndar til 100 millj. kr. hækkun.

Hvernig skyldi oddviti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafa tekið á þeirri tillögu við 2. umr. málsins? Hann gerði auðvitað það sama og allir aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. Hann gerði ekki neitt. Hann gat ekki einu sinni stutt stærsta sjúkrahús landsbyggðarinnar með því að greiða því atkvæði að sjúkrahúsið fengi 100 millj. aukalega á fjárlögum ársins 2007.

Það eru einkennileg skilaboð, hæstv. forseti, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sendir til höfuðstöðva Norðurlands í kjördæmi sínu. En það er hollt fyrir Akureyringa og aðra Norðlendinga og íbúa Norðaust. að muna hvern hug hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ber í raun og veru til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

Það má sömuleiðis líta á önnur mál sem varða heilbrigðisráðuneytið til að leita eftir hug stjórnarandstöðunnar til þeirra mála. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög til SÍBS ykjust um 7 millj., framlög til Hjartaheilla um 5 millj., framlög til vist- og meðferðarheimilisins í Krýsuvíkurskóla um 10 millj. og hvernig tók stjórnarandstaðan á þessu? Hún náttúrlega tók ekkert á þessu, hæstv. forseti. Hún ákvað bara að sitja hjá. Hún ákvað bara að það væri einfaldast að greiða þessu ekki atkvæði, að styðja ekki þessi framlög til mannúðarmála, til velferðarmála. Þetta eru skilaboðin, hæstv. forseti, sem stjórnarandstaðan sendir trekk í trekk til landsmanna. Þarna er hugurinn, þarna kemur hann best í ljós.

Hið sama má segja um framlag til öldrunarstofnana, til að mynda Jaðars í Ólafsvík ef hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur komið þangað á leið sinni um Snæfellsnesið. Það var lagt til að framlög til Jaðars ykjust um 20 millj. Þetta er í kjördæmi hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar. Það væri fróðlegt þegar og ef hv. þingmaður fer aftur á Snæfellsnesið að heyra hann skýra út fyrir forstöðumönnum Jaðars í Ólafsvík að hann hafi ekki getað stutt tillögu um að framlög til þessarar öldrunarstofnunar yrðu aukin um 20 millj. kr. Það verður ekki skemmtileg stund fyrir hv. þingmann. En hann fær ekki vikist undan þeim örlögum sínum og þeim afdrifaríku ákvörðunum sem hann hefur tekið í þingsal, hvorki í þessum efnum né öðrum.

Við getum til að mynda tekið endurhæfingardeild Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands þar sem lögð var til 5 millj. kr. aukning á framlögum fyrir næsta ár. Stjórnarandstaðan sagði pass, gat ekki greitt þessu atkvæði. Sömu sögu er að segja um 44,6 millj. sem renna eiga til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnarandstaðan sagði pass. Það er hægt að taka Heilbrigðisstofnunina á Siglufirði þar sem lögð var til ríflega 50 millj. kr. hækkun. Stjórnarandstaðan sagði pass. Það er hægt að taka aðra heilbrigðisstofnun eins og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga þar sem lagt var til að framlög hækkuðu um 32 millj. Og stjórnarandstaðan sagði pass. Furðulegt, hæstv. forseti, furðulegt.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson er líklega sá hv. þingmanna sem ferðast hvað mest innan lands með flugi. Maður hefði því haldið að hann tæki vel í aukið framlag og aukna styrki til innanlandsflugs. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að framlög og styrkir til innanlandsflugs hækkuðu um 95 millj. og yrðu 246,8 millj. Og hvað gerði hv. þm. Einar Már Sigurðarson? Hvað gerðu aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar? Gátu þau stutt með þessum hætti við landsbyggðina? Nei, þau gátu það ekki. Það var bara ekki nokkur vegur. Það var ekki nokkur vegur að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar fengjust til þess að styðja tillögu um að auka styrki til innanlandsflugs. Þetta eru skemmtileg skilaboð til landsbyggðarinnar, hæstv. forseti.

Það er gaman fyrir landsbyggðarfólk að vita með hvaða hætti hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar berjast fyrir landsbyggðina og málefni hennar. Þetta eru skýr skilaboð, skilaboð um að það eigi ekki auka styrki til innanlandsflugs. Það er ekki einu hægt að styrkja það, hæstv. forseti.

Við getum tekið ferðamálin. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að landkynningarskrifstofur erlendis fengju 40 millj. kr. til viðbótar við það sem var í fjárlagafrumvarpinu og ferðamálasamtök landshluta 20 millj. Hvað gerði stjórnarandstaðan í þessum málum, þessi sama stjórnarandstaða og hefur lagt áherslu á mikilvægi ferðamannaþjónustunnar og ferðamannaiðnaðarins? Hvað skyldi þessi sama stjórnarandstaða hafa gert þegar hún gat aukið framlög til ferðamála um heilar 60 millj.? Ekki neitt. Bara hreint alls ekki neitt. Hún skilaði auðu. Hún gat ekki stutt tillögur stjórnarmeirihlutans um aukin framlög til ferðamála.

Samkeppnismálin. Hvernig ætli stjórnarandstaðan hafi tekið á þeim? Gat hún stutt tillögur stjórnarmeirihlutans um 17 millj. til viðbótar við það sem var í fjárlagafrumvarpinu til Samkeppniseftirlitsins til að styrkja og efla samkeppniseftirlit? Nei. Auðvitað gat stjórnarandstaðan ekki stutt tillögur stjórnarmeirihlutans í þeim efnum.

Eigum við að snúa okkur að umhverfismálunum? Umhverfisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð. Þessi þjóðgarður verður sá stærsti í Evrópu. Maður hefði haldið að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu einhvern áhuga á því að láta þetta mál til sín taka á hinu háa Alþingi og styðja að farið yrði af stað með myndarbrag þegar þjóðgarðurinn yrði opnaður. Hver eru svo viðbrögð stjórnarandstöðunnar? Stjórnarmeirihlutinn lagði til að tæplega 120 millj. kr. yrðu settar í Vatnajökulsþjóðgarð og stjórnarandstaðan sagði pass. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem á tyllidögum þykjast hafa áhuga á náttúruvernd sýna hug sinn í verki til náttúruverndar með þessum hætti. Þeir treystu sér ekki til að styðja fjárframlög til Vatnajökulsþjóðgarðs. Það er hollt fyrir náttúruverndarmenn og áhugamenn um umhverfisvernd að hafa það í huga að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa engan áhuga á náttúruverndarmálum og engan áhuga á Vatnajökulsþjóðgarði. (SigurjÞ: Framsóknarflokkurinn hefur hann.) Þau gátu ekki stutt tillögu um að setja 120 millj. kr. í Vatnajökulsþjóðgarð. Ja, mikil er skömmin, hæstv. forseti.

Við skulum sömuleiðis horfa á aðrar stofnanir umhverfisráðuneytisins. Meiri hluti fjárlaganefndar lagði til 10 millj. kr. viðbótarframlag til Landmælinga Íslands, 10 millj. viðbótarframlag til Náttúrufræðistofnunar Íslands, 7 millj. kr. viðbótarframlag til náttúrustofu í Neskaupstað, náttúrustofu í Vestmannaeyjum, náttúrustofu í Bolungarvík, náttúrustofu í Stykkishólmi, náttúrustofu á Sauðárkróki, náttúrustofu í Sandgerði og náttúrustofu á Húsavík, 7 millj. kr. viðbótarframlag til hverra þessara náttúrustofa þannig að hver stofa fengi samtals á næsta ári 15,8 millj. Hver er svo áhugi hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar á starfsemi náttúrustofa um landið? Hann birtist í því, hæstv. forseti, að þingmenn stjórnarandstöðunnar treystu sér ekki eða vildu ekki eða gátu ekki stutt tillögur um aukin framlög til náttúrustofa og náttúrufræðistofnana.

Þetta sýnir allt saman, hæstv. forseti, hvaða hug stjórnarandstaðan ber til landsmanna. Þetta sýnir allt saman af hverju hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að kjósendur treysti ekki þingmönnum Samfylkingarinnar. Þetta sýnir af hverju landsmenn treysta ekki stjórnarandstöðunni til að fara með stjórn landsins. Það er vegna þess að stjórnarandstaðan skilar auðu. Það er ekki nóg með að stjórnarandstaðan hafi ekki lagt fram neina tillögu í heilbrigðismálum. Stjórnarandstaðan lagði heldur ekki fram neina tillögu í menntamálum og stjórnarandstaðan lagði ekki fram neina tillögu í félagsmálum. Stjórnarandstaðan gat ekki stutt eina einustu tillögu frá meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. um fjárlög á hinu háa Alþingi, ekki eina til allra þessara góðu málefna, sumra hverra sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa rætt oft og mikið um. Þau gátu ekki stutt eina einustu tillögu, hæstv. forseti, og það er gott að það sé skráð í þingtíðindin og það er gott að almenningur um allt land fái að vita af því.

Hver er svo ábyrgðin? Hver er ástæðan fyrir því að þingmenn stjórnarandstöðunnar gátu ekki flutt eina einustu tillögu um framlög til menntamála, félagsmála eða heilbrigðismála og gátu ekki stutt eina einustu tillögu frá stjórnarmeirihlutanum á Alþingi? Hver er ástæðan, hæstv. forseti? Það kannski kemur fram í máli hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar hér síðar, þ.e. þeirra sem ekki er búið að dæma úr leik.

Það verður væntanlega stutt ræða hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni enda er búið að afskrifa hann. Kjósendur hafa aldrei treyst honum. Fyrir liggur sú yfirlýsing formanns Samfylkingarinnar að kjósendur treysta ekki hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni til að fara með stjórn landsins og ríkisfjármálanna. Það hlýtur að vera stutt ræða fram undan hjá honum, hæstv. forseti. (Gripið fram í: Miðað við þína.) Hann getur auðvitað ekki svarað þessu, hann getur ekki svarað þessu ábyrgðarleysi, hæstv. forseti. Það er auðvitað ábyrgðarleysi af hálfu stjórnarandstöðunnar að þora ekki, geta ekki eða vilja ekki taka afstöðu til einnar einustu tillögu stjórnarmeirihlutans á hinu háa Alþingi.

Eitt vakti athygli mína, í framhaldsnefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar er ýjað að því að stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi bæði eyði of miklum fjármunum og of litlum fjármunum úr ríkissjóði. Það er fróðlegt að lesa álit minni hlutans. Það er sérstök ástæða til að lesa úr þessu minnihlutaáliti vegna þess að þetta er í fyrsta skipti á kjörtímabilinu sem stjórnarandstaðan kemur sér saman um eitt álit. Í fyrsta skipti frá 1999. Í álitinu segir m.a., með leyfi forseta:

„Jafnframt því sem hægir á hagkerfinu er næsta ár kosningaár sem oft hvetur ríkisstjórn sem óttast úrslit kosninga til að taka „vinsælar“ ákvarðanir á kostnað skynseminnar.“

Það væri kannski rétt, hæstv. forseti, að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar svöruðu því hverjar þessar vinsælu ákvarðanir eru, þessar vinsælu, óskynsamlegu ákvarðanir. Hvaða ákvarðanir eru það sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar telja óskynsamlegar og vilja þá væntanlega fella niður framlög til þeirra? Geta þau lýst því? Þora þau að lýsa því? Ég held að það sé nefnilega málið, hæstv. forseti, að þau þora því ekki fremur en öðru hér í þingsalnum.

Hæstv. forseti. Í lokaorðum í framhaldsáliti minni hlutans stendur:

„Ríkisstjórnarmeirihlutinn er orðinn þreyttur og farinn að kröftum. Það stafar hins vegar ekki af miklum afrekum heldur er ástæðan þvert á móti fyrst og fremst valdþreyta og hugmyndaskortur. Núverandi ríkisstjórnar verður m.a. minnst fyrir virðingarleysi gagnvart fjárlögum og agaleysi við stjórn ríkisfjármála. Væntanleg fjárlög fyrir árið 2007 eru því miður enn eitt dæmið um slík vinnubrögð ríkisstjórnarmeirihlutans.“

Þetta er eitthvað sem ætti að fara í stóru brandarabókina, hæstv. forseti. Hver skyldi árangurinn af stjórn ríkisfjármálanna hafa verið síðustu árin? Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvernig efnahagsstjórnin hefði gerbreyst á síðustu 10 árum, hvernig kaupmáttur almennings hefði aukist, verðbólga minnkað o.s.frv. Skuldir ríkissjóðs hafa greiðst upp hratt og örugglega og ríkissjóður er nánast skuldlaus. Ríkissjóður hefur skilað 150 milljörðum í afgang á síðustu tveimur árum. Er það virðingarleysi gagnvart fjárlögum og agaleysi við stjórn ríkisfjármála? Hvert er virðingarleysið við þessa meðferð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2007? Það er auðvitað virðingarleysi hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar gagnvart landsmönnum með því að þora ekki, geta ekki og vilja ekki taka nokkra ábyrgð, hvorki á einstökum tillögum né fjárlögunum í heild.

Þetta er getulaus stjórnarandstaða, hæstv. forseti, og það er sama hvernig menn hamast hér í ræðustól af hálfu stjórnarandstöðunnar, því verður ekki breytt. Kjósendur hafa ekki traust á þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Hún er sjálf búin að dæma sig úr leik og það mun koma í ljós á vori komanda.