133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:20]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og skemmtilega ræðu. Hún virðist vera framhald af þeirri ræðu sem hann flutti í morgun. Hann er að verða einhvers konar skemmtanastjóri í þinginu. Það skyldi þó aldrei verða ef hann heldur áfram á sömu braut — því hefur verið hvíslað að mér — að hann verði ekki bara skemmtanastjóri heldur jafnvel hirðfífl, þó að ég sé kannski ekki á sama máli hvað það varðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um tekjuhliðina. Nú gefur Framsóknarflokkurinn sig stundum út fyrir það að vera félagshyggjuflokkur. Þingmaðurinn hefur hér farið yfir það hvernig hann deilir út fjármunum ríkisins en hann hefur lítið fjallað um það hvernig hann hefur aflað teknanna. Það er þannig að afleiðing skattstefnu ríkisstjórnarinnar er sú að hann hefur alltaf farið dýpra og dýpra ofan í vasa þeirra sem hafa lágu launin. Nú hefur sjálfur hæstv. fjármálaráðherra, frú forseti, gefið mér þær upplýsingar að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi aukið enn á ójöfnuðinn þannig að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson fer alltaf dýpra og dýpra ofan í vasa þeirra með lágu launin en einn hópur sleppur og það er sá hópur sem hefur allra hæstu launin. Ég spyr bara hv. þingmann þegar hann fer hér yfir hvernig hann deilir út þessu fé hingað og þangað til margra ágætra verkefna hvort þetta sé eitthvað í samræmi við félags- og samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins. Ég get ekki séð það og það eru margir gamlir framsóknarmenn sammála mér og furða sig á þeirri vegferð sem þeirra gamli Framsóknarflokkur fer í í þessum fjárlögum og undanfarin ár, frú forseti.