133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:28]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nokkuð undarleg ræða sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson flutti. Það versta kannski við ræðuna var allur þessi fjöldi rangfærslna. Nokkrum þeirra var beint sérstaklega til mín af einhverjum ástæðum, kannski af því að ég var sá eini sem nennti að hlusta á hv. þingmann í hálftíma áðan. (Gripið fram í: Ha?)

Í fyrsta lagi er rétt að taka fram að það er rangt að sá er hér stendur hafi verið á brott rekinn úr Samfylkingunni. Í öðru lagi fullyrti hv. þingmaður að ég hefði setið hjá við afgreiðslu breytingartillagna meiri hlutans við 2. umr. fjárlagafrumvarps og tók hann sérstaklega fram að ég hefði setið hjá við tillögur um hækkanir á framlögum til íþrótta- og æskulýðsmála og málefna fatlaðra. Frú forseti. Þetta er ekki rétt og ég legg til að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson kynni sér gögnin betur áður en hann fer með svona fullyrðingar.

Það er líka rétt að halda því til haga að breytingartillögur meiri hlutans um hækkanir á fjárframlögum til íþrótta- og æskulýðsmála eru allar í samræmi við þær ábendingar sem ég kom fram með strax við 1. umr. fjárlagafrumvarps. Hv. þingmaður talaði um skoðanir, orð á tyllidögum og jafnframt hældi hann sér fyrir framlag til málefna geðfatlaðra. Þess vegna spyr ég hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson: Hyggst þingmaðurinn styðja breytingartillögu mína um hækkun á fjárframlögum til Fjölmenntar sem er menntunar- og starfsendurhæfingarúrræði fyrir geðfatlaða og heilaskaðaða? Þarna vantar um 12 millj. miðað við loforð ríkisstjórnarinnar, og ég spyr: Hyggst hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson styðja þessa breytingartillögu?