133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mig langar að nefna nokkur atriði í tengslum við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2007. Auk þess hef ég hug á að víkja að ræðum sem hér hafa verið fluttar. Sérstaklega hefði verið ánægjulegt ef ræðumenn hefðu verið viðstaddir. Það eru sérstaklega þingmenn Framsóknarflokksins, formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson annars vegar og hins vegar hv. 7. þm. Reykv. n., Guðjón Ólafur Jónsson, sem ég hafði hugsað mér að eiga orðastað við í leiðinni.

Varðandi ræðu hins fyrrnefnda, formanns fjárlaganefndar, þá fór hann nokkuð með himinskautum, var sérstaklega ánægður með afrakstur vinnunnar í fjárlaganefnd og árangur ríkisstjórnarinnar og taldi það allt harla gott. Ég ætla að koma betur aðeins að því á eftir um leið og ég reifa svona áhyggjur mínar af stöðu ríkisfjármála og efnahagsmála á Íslandi um þessar mundir. Satt best að segja blöskrar mér glansmyndagerðin hjá stjórnarsinnum. Mér finnst það til marks um andvaraleysi.

Ég hef af því áhyggjur að menn horfist ekki af raunsæi í augu við hlutina. Sumt er jákvætt en annað ekki. Það eru viss batamerki á ákveðnum sviðum, t.d. í afkomu sveitarfélaganna þótt meira þurfi til. Það er jákvætt að ríkissjóður er mjög skuldlítill. En annað er hins vegar mjög neikvætt og virðist ekki ætla að verða nein bót á ástandinu þar sem helst þyrfti, þar á ég t.d. sérstaklega við viðskiptahalla og jafnvægisleysi í hagkerfinu.

Varðandi ræðu hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar þá get ég tekið undir það með hv. 10. þm. Norðvest., Sigurjóni Þórðarsyni, að það hefur út af fyrir sig nokkurt skemmtigildi að fá menn eins og hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson inn á þing — svona í hófi, mundi ég segja.

Ég verð þó að segja að ég hef varla heyrt ræðu þar sem eins hressilega var teygt á lopanum, í upp undir einn og hálfan tíma er mér tjáð, sem fjallaði aðeins um eitt lítið atriði. Öll ræðan var um eitt lítið atriði, þ.e. það mikla hneyksli að stjórnarandstaðan skyldi ekki styðja breytingartillögur meiri hlutans. Hv. þingmaður skrúfaði sig hring eftir hring og æsti sig upp út af því mikla hneyksli, út af þessu reginhneyksli. Hann las úr þessu fullkomið áhugaleysi, ef ekki bara fjandskap þingmanna stjórnarandstöðunnar við öll þau mál sem veita átti fé til. Það var sem sagt þannig. Af því að stjórnarandstaðan hér á Alþingi lætur ríkisstjórnarmeirihlutann um að koma fjárlagafrumvarpi sínu í gegn og gera á því breytingar eftir atvikum þá er það hvorki meira né minna en þannig að stjórnarandstaðan er gjörsamlega skeytingarlaus um allt sem þar á í hlut.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson er ekki mjög þingreyndur. Honum hefur nýlega skolað hér á fjörur ef svo má að orði komast, (Gripið fram í.) sökum mikils mannfalls í Framsóknarflokknum í Reykjavík. Óvenju mikið af mönnum hefur þar hrotið fyrir borð og þar engir smákarlar: fyrrverandi formaður flokksins, fyrrverandi forsætisráðherra, og einnig fyrrverandi félagsmálaráðherra og erfðaprins, Árni Magnússon. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson er hér allt í einu kominn með fast sæti í bili. Það kann að vísu að fara svo að því ljúki um miðjan mars næstkomandi, við sjáum til. En auðvitað má fyrirgefa hv. þingmanni í ljósi þessarar skömmu þingreynslu.

Það er eins og hv. þingmaður átti sig ekki á því að það er í fyrsta lagi algjörlega helguð hefð að stjórnarandstaðan lætur ríkisstjórn eftir að bera ábyrgð á fjárlagafrumvarpi sínu. Ég held að það sé almennur siður í þjóðþingum. Að lokum er það ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á því. Stundum þurfa minnihlutastjórnir að fá stuðning við frumvörp sín en þó er það stundum þannig að sá stuðningur er fólginn í hlutleysi eða hjásetu.

Hefðin er líka sú að það fer eftir atvikum hvort minni hluti greiðir atkvæði efnislega um einstakar greinar í viðkomandi frumvarpi og svo breytingartillögur eða kýs þá einföldu aðferð að sitja hjá við breytingartillögurnar sem og frumvarpið sjálft þá í heild sinni, sem er hefðin. Ég hygg að ef menn fletti þessu aftur á bak í gegnum þingsöguna þá finni þeir að þetta er upp og ofan og ræðst af aðstæðum hverju sinni.

Þannig hefur það t.d. verið hjá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að við höfum, ef við höfum talið aðstæður þannig að unnið hafi verið efnislega og boðið af sanngirni upp á hlutdeild stjórnarandstöðu í vinnu í fjárlaganefnd þá er sjálfsagt mál að sortera tillögurnar og styðja þær sem menn vilja sérstaklega styðja.

Reyndar var það þannig, sem virðulegur formaður fjárlaganefndar mætti hugsa um, að á löngum árabilum var vinnuandrúmsloftið í fjárlaganefnd þannig að nefndin öll flutti meginbreytingartillögur milli umræðna. Það var síðan meiri hluti sem flutti tilteknar lykiltillögur, fjáröflunartillögur og annað því um líkt. En ef verið hafði gott samkomulag og vinnuandrúmsloft í fjárlaganefnd þá flutti nefndin gjarnan öll gjarnan uppistöðubreytingartillögurnar, þær sem ekki voru umdeildar, lagfæringar og viðbætur sem ekki voru átök um. Það vinnuandrúmsloft hefur ekki verið í nefndinni upp á síðkastið. Ég man ekki eftir neinum sameiginlegum breytingartillögum frá fjárlaganefnd sem heitið getur, að minnsta kosti ekki að þessu sinni.

Þarna hafa verið önnur vinnubrögð og annað andrúmsloft. Meiri hlutinn hefur einn flutt þessar breytingartillögur og þá er stjórnarandstöðunni að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvort hún velur sér það verklag að greiða efnislega atkvæði um þær út af fyrir sig eða hvort hún situr hjá og lýsir ábyrgð á fjárlögum á hendur ríkisstjórninni.

Þessi næstum eins og hálfs tíma ræða hv. þm. Guðjón Ólafs Jónssonar var eiginlega um ekki neitt. Hún var eiginlega byggð á fullkomnum misskilningi eða vanþekkingu á þeim hefðum sem hér ríkja í vinnubrögðum. Að sjálfsögðu ber ekki að lesa nokkurn skapaðan hlut út úr því þótt stjórnarandstaðan lýsi því yfir að hún hafi ákveðið að standa svona að málum. Þá liggur það fyrir með skýringum af hennar hálfu. Þetta er verklag sem menn velja sér í tengslum við umræðurnar eða atkvæðagreiðslurnar.

Það er auðvitað líka þannig að í mörgum tilvikum eru menn óánægðir og ósáttir við breytingarnar, t.d. til hækkunar á fjárveitingum sem lagðar eru til, þótt þær séu í rétta átt. Þá kemur upp staðan: Á stjórnarandstaðan að lúta litlu og segja: Þetta er þó betra en ekki neitt, og greiða því atkvæði? Eða á hún að segja, sem er kannski hennar afstaða: Þetta er aldeilis ónóg, við ætlum ekki að greiða atkvæði með upphæðum sem við teljum allt of lágar, þegar í hlut eiga t.d. fjárveitingar til heilbrigðis- eða menntastofnana eða annað slíkt?

Stjórnarandstaðan hefur verið í þeirri aðstöðu undanfarin ár að hamra á því sem hefur reynst rétt, að menn loka fjárlögunum af óraunsæi gagnvart því sem þarf að leggja til lykilmálaflokka eins og heilbrigðismála og stærstu stofnananna þar og skólamála. Þetta vita allir, þetta hefur alltaf komið á daginn.

Ríkisstjórnin neyðist til að viðurkenna þetta sjálf ár eftir ár í fjáraukalögunum — eða hvað var á dagskrá í umræðum og atkvæðagreiðslu um fjáraukalög nú fyrir skemmstu annað en hækkun á fjárveitingum til málaflokkanna sem í sumum tilvikum voru nákvæmlega sömu tölur og meiri hlutinn felldi sem breytingartillögur stjórnarandstöðunnar fyrir tæpu ári? Þannig var það nú. Þegar þetta er haft í huga, virðulegur forseti, fer nú að verða lítið eldsneyti í ræðunni miklu hjá hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni og ekkert eftir nema þá að velta því fyrir sér hvort slíkt hafi skemmtanagildi í sjálfu sér, að menn komi upp og þenji sig um slíka hluti eins og hann gerði. Auðvitað er það ekki málflutningur sem nær nokkurri átt að fara að halda því fram og bera það upp á þingmenn einstakra kjördæma úr stjórnarandstöðu að af því að þeir rjúki ekki til og styðji einhverjar breytingartillögur frá meiri hluta fjárlaganefndar, þá séu þeir áhugalausir um málefni viðkomandi stofnana í kjördæmum sínum. Hverjum dettur það í hug? Og hvað ætti mönnum að ganga til, t.d. þeim sem hér talar, að vera allt í einu á gamals aldri í pólitík orðinn algjörlega áhugalaus um málefni Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, svo dæmi sé tekið? En það heyrðist mér hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson vera að reyna að segja áðan. Ekki þarf að ræða það, herra forseti, það er svo fjarstæðukennt.

Ég ætla að víkja aðeins að ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og því sem hann gerði að umtalsefni, sem var í sjálfu sér ágætt að formaður fjárlaganefndar við lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fjallaði um hina stóru drætti í ríkisfjármálunum og efnahagsmálunum. En ég hlýt að endurtaka það að mér fannst gæta þar mikils óraunsæis eða mikillar óskhyggju í huga hv. þingmanns þegar hann talaði um þá glæstu mynd og hinn mikla árangur og hvað bjart væri fram undan í þessum efnum og hversu ótrúlegum árangri ríkisstjórnin hefði í rauninni náð. Því miður get ég ekki deilt þeirri bjartsýni nema að mjög litlu leyti. Reyni ég þó þegar ég les mig í gegnum þetta að leyfa ríkisstjórninni og stöðu mála að njóta sannmælis. Engin ástæða er til að slá striki yfir það sem jákvætt er og eru einfaldlega staðreyndir, t.d. að skuldir ríkissjóðs hafa farið lækkandi undanfarin ár. Ég segi gjarnan: Skárra væri það nú eins og aðstæður hafa verið. Það helgast af því að ríkissjóður hefur fengið inn gríðarlegu tekjur af þenslunni í þjóðarbúskapnum, ríkissjóður er því miður að fitna af viðskiptahallanum. Það gerist alltaf. Það má heita reglan að ríkissjóður fær inn auknar tekjur, það gusast inn í ríkissjóð þegar mikill innflutningur er og miklar tekjur af þeim sökum. Þegar hagsveiflan er á því rólinu er ríkissjóður gjarnan fyrsti aðilinn sem nýtur góðs af. Sveitarfélögin koma stundum í humátt á eftir í einhverjum mæli. Þau njóta að sjálfsögðu ekki tekna af óbeinum sköttum með sama hætti en oft verður launaskrið og útsvarstekjur aukast í kjölfar slíks ástands.

Einnig má segja að það sé jákvætt sem ég nefndi aðeins áðan, að afkoma sveitarfélaganna fer margra hverra heldur batnandi. Segja má að stærri sveitarfélögin njóti flest í nokkrum mæli þeirra launahækkana og þess tekjuauka sem orðið hefur í samfélaginu og má svo sem aftur segja: Skárra væri það nú. En þegar við horfum þó á stöðu sveitarfélaganna er ýmislegt ekki eins glæsilegt og vera skyldi þar. Ef við tökum t.d. glænýja árbók sveitarfélaga, árbók ársins 2006, þar sem gerðar eru upp tekjur, rekstur og afkoma sveitarfélaganna á árinu 2005, er það nú ekki allt of beysið, satt best að segja. Tökum t.d. rekstrarafkomuna. Hún er neikvæð fyrir fjölmörg sveitarfélög og ef við tökum tekjur og gjöld er hún að meðaltali neikvæð um að vísu ekki nema 25 þús. kr. á íbúa, en það er þó það. Ef við förum yfir í efnahagsstöðuna og skoðum skuldirnar, þá eru þær gríðarlega miklar. Hlutfallslega eru þær gjarnan á bilinu 100% til um og yfir 200% af tekjum, ef við tökum skuldir og skuldbindingar. Ef við tökum samstæðurnar, þ.e. rekstur sveitarfélaganna og undireiningar þeirra, þ.e. samantekin reikningsskil hækka þessar skuldatölur enn gjarnan sem hlutfall af tekjum. Auðvitað eru þá eignir og tekjur undireininganna á móti. En þetta eru ískyggilegar tölur, að sveitarfélögin holt og bolt skuli vera skuldug svo nemur árstekjum til tveggja ára tekjum í heild sinni. Þetta er veruleikinn. Vegur þar þyngst að stóru sveitarfélögin frá og með Reykjavíkurborg og niður að Seltjarnarneskaupstað eru með einni undantekningu með skuldir á bilinu tæplega 100% í tilviki Kópavogs og upp í 186% þar sem er Reykjanesbær. Hin stóru sveitarfélögin liggja svo þarna á milli, Reykjavík með 175%, Hafnarfjarðarbær með 170%, Akureyrarbær með tæp 140% o.s.frv.

Þetta eru nú tölurnar. Strax þegar kemur frá ríkissjóði að sveitarfélögunum er myndin ekki eins glæsileg. Og þegar menn monta sig af því hér, stjórnarliðar, að í tíð þeirra hafi skuldir ríkissjóðs lækkað og verið greiddar niður og þær séu jafnvel að verða óverulegar eða engar, t.d. ef gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans og innstæður í Seðlabanka eru teknar með, er það þá ekki þeim mun nöturlegra að menn standi frammi fyrir því að efnahagur sveitarfélaganna er sem raun ber vitni? Og sömu aðilar hafa þá horft algerlega aðgerðalausir á það að sveitarfélögin hafa safnað skuldum undanfarin ár og eru þrátt fyrir „góðærið“ þó ekki að ná meiri árangri en þetta, að þau eru rétt við núllið í rekstri og allar fjárfestingar eru í raun teknar að láni.

Ef við horfum á þjóðarbúið að öðru leyti, heimilin og atvinnulífið, er ósköp einfaldlega staðfest, því miður, að íslenska hagkerfið og máttarstoðir samfélagsins eru einhverjar þær skuldugustu sem fyrirfinnast á byggðu bóli. Ekki var virðulegur formaður fjárlaganefndar að eyða miklum tíma í að lesa fyrir okkur upp úr nýjustu matsskýrslunum um hagkerfið. Ekki fór hann mikið í síðasta hefti Peningamála frá Seðlabankanum, nei, það passaði ekki að vitna mikið í það. Ekki fór hann mikið í skýrslur Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Nei, það stemmir ekki inn í ræðuhöldin um hið mikla góðæri.

Þá verða bara aðrir að gera það. Ef menn ætla að fá raunsanna mynd af ástandinu verður auðvitað að skoða bæði kost og löst á hlutunum. Það hrynur allt til grunna hjá mönnum sem ætla einungis að horfa á aðra hliðina á málum þegar út í rökræðuna er komið.

Það er nærtækt að taka fyrst nokkurn veginn glænýja niðurstöðu matsfyrirtækisins Fitch Ratings sem kom fram rétt fyrir miðjan nóvembermánuð síðastliðinn. Þar voru neikvæðar horfur í lánshæfismati Íslands staðfestar og það var gert vegna þess að íslenska hagkerfið er enn mjög skuldsett og á eftir að takast á við mörg af þeim aðlögunarvandamálum og verkefnum sem sérfræðingar fyrirtækisins hafa áður bent á í skýrslum sínum. Þeir telja að merkja megi jákvæða þróun upp að vissu marki í fjármálakerfinu, þá fyrst og fremst að endurfjármögnun bankanna hafi gengið allvel sem auki nokkuð á traust og trúverðugleika á því sviði en segja að Fitch hafi áfram áhyggjur af þjóðhagslegu ójafnvægi og hvernig aðlögunin frá þessu ójafnvægisástandi geti orðið á endanum. Þeir ræða um að framboðshliðin, þenslan, sé drifin af miklum fjárfestingum og drifin áfram á framboðshlið með fjárfestingum í ál- og orkuiðnaði.

Síðan ræða þeir hjá Fitch svolítið um viðskiptahallann. Þeir vekja athygli á þeirri staðreynd að jafnvægi í hagkerfinu sé hvergi í sjónmáli. Stjórnvöld takist enn á við mikla heildareftirspurn og styrkingu krónunnar á nýjan leik í kjölfar skammtímainnflæðis á fjármagni vegna hins mikla vaxtamunar við útlönd, sem er í raun ástand þar sem allt sem hægt væri að kalla jafnvægi er úti í hafsauga, því að auðvitað ætti það ekki að vera að gerast við þessar aðstæður að krónan styrktist á nýjan leik eins og hún hefur gert núna á síðari hluta ársins þegar viðskiptahallinn er um 20%. Það eitt t.d. segir manni hversu gjörsamlega galið þetta ástand er, að eftir skammvinna veikingu fór krónan að styrkjast á nýjan leik af því að menn eru að spila með vaxtamuninn milli Íslands og útlanda, koma hér við með fjármagn og fá á því fljóttekna ávöxtun og aðhaldstæki Seðlabankans bíta minna en raun ber vitni fyrir vikið.

Það stefnir í að viðskiptahallinn verði um eða yfir 20% á þessu ári, 20% af vergri landsframleiðslu, 20% af um 1.100 milljarða vergri landsframleiðslu eða 220 milljarðar kr. þar um bil. Þetta þýðir að í lok þessa árs munu erlendar skuldir hækka í um 360% af vergri landsframleiðslu, þær nálgast sem sagt 4.000 milljarða kr. í lok ársins. Það er meira en þreföld skuldastaðan frá árinu 2000. Nú segja menn á móti gjarnan að þarna hafi myndast eignir erlendis. Gott og vel. En ég held að allir hljóti að sjá að þetta eru rosalegar breytingar, þreföldun á erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins á sex, sjö árum.

Hvað mundi þetta segja okkur um stöðu þjóðarbúsins t.d. ef syrti nú í álinn í alþjóðafjármálaheiminum eða ef t.d. vextir hækkuðu snögglega eða ef allt í einu drægi úr framboði á fjármagni til að fjármagna viðskiptahalla ríkja? Það hefur verið um auðugan garð að gresja þar. Auðvelt hefur verið að fá fé og frekar verið eftirspurn eftir því að koma fé í ávöxtun en það getur breyst. Þetta segja þeir Fitch-menn að þýði að hið mikla ójafnvægi ásamt skuldunum geri það að verkum að landið sé berskjaldað fyrir ytri áföllum, svo sem hækkun vaxta erlendis og/eða skyndilegum breytingum á viðhorfum fjárfesta. Slík framvinda og líkleg viðbrögð við þeim gætu valdið dýpri kreppu en á því skammvinna samdráttarskeiði sem fylgdi í kjölfar svipaðrar fjárfestingaruppsveiflu á seinni hlut tíunda áratugarins með óhagstæðum afleiðingum fyrir heimili, fyrirtæki og banka sem eru mun skuldsettari nú en áður var. Það er kannski lykilsetningin í þessu öllu saman, það sem gerir það að verkum að staðan verður viðkvæmari og í raun hættulegri með hverri slíkri hringferð sem hagkerfið tekur. Mikill munur er á stöðunni á árunum 2000–2002 og því sem nú er, að heildarskuldirnar erlendis hafa þrefaldast síðan. Nettóskuldastaðan hefur stórversnað jafnvel þó að eignirnar séu teknar þar inn í myndina á móti.

Þetta sögðu þeir Fitch-menn og ég bæti þessu við glæsiræðu formanns fjárlaganefndar sem fjallaði bara um það sem gott og jákvætt er að hans mati en sleppti öllu hinu.

Seðlabankinn er býsna áhyggjufullur líka, hann er það. Hann segir t.d. að þó að verðbólguhorfur hafi batnað dálítið frá því að hann birti sitt síðasta mat, sem var fyrir mitt ár, og Seðlabankinn hefur endurskoðað verðbólguspá sína talsvert mikið síðan þá, það ber vissulega að viðurkenna, en hann segir samt: Verðbólguhorfurnar eru þó enn óviðunandi, kalla á aðgát og aðhald. Væntingar um hraða lækkun stýrivaxta á næstunni eru því ekki raunsæjar.

Þeir segja að þó að viss jákvæð teikn séu á lofti sem séu fagnaðarefni sé áfram verið að fást við erfið úrlausnarefni.

Seðlabankinn segir, með leyfi forseta:

„Viðskiptahalli er gríðarlegur, meiri en fimmtungur af landsframleiðslu. Þótt dregið hafi nokkuð úr útlánaaukningu er hún enn mikil, vinnumarkaður er þaninn, væntingar miklar í þjóðfélaginu og útgjaldaaðhald hins opinbera hefur veikst.“

Svo kemur Seðlabankinn að því sama og matsfyrirtækið Fitch var að fjalla um og segir:

„Ljóst er að Ísland á mikið undir vilja alþjóðlegra fjárfesta og lánveitenda til að fjármagna hallann,“ þ.e. viðskiptahallann.

Það þarf að slá einhvers staðar 220 milljarða kr. til þess að borga mismuninn á því sem við erum að flytja inn og eyða og því sem við flytjum út og öflum í þjónustutekjur.

Seðlabankinn heldur áfram:

„Þjóðarbúið verður því berskjaldaðra en ella fyrir hræringum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og viðbrögðum við réttum eða röngum fréttum af íslensku efnahagslífi. Atburðir á fyrstu mánuðum ársins ættu að vera í fersku minni.“

Hvað er verið að segja? Jú, það er ósköp einfaldlega verið að vekja athygli á því að þetta ástand er orðið svo viðkvæmt að meira að segja einhverjar kviksögur, einhver orðrómur getur reynst okkur stórvarasamur við þessar aðstæður af því að auðvitað fylgjast menn með, auðvitað vita allir orðið hversu skuldsett íslenska þjóðarbúið er. Það vita allir hversu veikur Seðlabankinn er, hversu lítill gjaldeyrisvaraforðinn er og hversu ofboðslega háð íslenska fjármálakerfið og þjóðarbúið í heild er stanslausri endurfjármögnun á hinum miklu erlendu skuldum og viðbótarfjárþörf vegna viðskiptahallans, því að það tekur í að þurfa að bæta við 120, 150, 200, 220 milljörðum kr. árlega bara til þess að fjármagna hann umfram eyðsluna.

Seðlabankinn fjallar um þetta í ítarlegra máli og það mætti margt um það segja. Þar er fjallað um hættuna á því að undirliggjandi sé verðbólguþrýstingur. Það er í raun og veru verið að vara mjög við ýmsu sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, bæði tímasetningu skattalækkana og því hvernig ríkisstjórnin hefur hringlað fram og til baka með framkvæmdir og fleira í þeim dúr. Að síðustu er auðvitað sagt beint út að lækkun óbeinna skatta, þ.e. sú aðgerð sem hefur nú verið til umræðu á Alþingi allra síðustu klukkutímana komi auðvitað á mjög óheppilegum tíma hvað þetta varðar. Menn geta sagt sem svo: Við ætlum að gera það samt, það er mikið í húfi og það hefur verið mikill þrýstingur á að lækka matvælaverð og allt þetta. Stjórnarflokkarnir telja að þó seint sé verði þeir að efna kosningaloforð sín, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn. Það breytir ekki hinu að mat sérfræðinga og fagstofnana er það að þetta komi á ákaflega óæskilegum tíma og seinki óhjákvæmilega þeirri aðlögun eftirspurnar sem þarf að eiga sér stað. Seðlabankinn gengur reyndar lengra og telur sig þurfa að hafa stýrivextina um 0,25–0,5% hærri en ella ef ekki hefði komið til þessarar lækkunar skatta og vörugjalda.

Ég gæti farið í fleiri skýrslur og álit. Ég er hérna t.d. með sumarskýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um íslenska hagkerfið. Þar kveður við mjög svipaðan tón. Þar er varað mikið við hinum miklu erlendu skuldum. Það er reyndar sérstakt að þar er líka varað mjög við stóriðjustefnunni og spurt mjög áleitinna spurninga, ekki í fyrsta sinn, í þeirri skýrslu um það hvert Íslendingar séu eiginlega að fara í þeim efnum og hvernig standi á því að Íslendingar hafi ekki lagt í mat á því, sjálfstætt og óháð, gagnsætt mat á því hvort þjóðhagslega sé hagkvæmt að keyra þjóðarbúið og hagkerfið áfram með þessum hætti. Af umfjöllun sérfræðinga Efnahags- og framfarastofnunarinnar lýsa efasemdir um að það sé glóra í þessu, en þeir segja það á penan hátt. Þeir segja það í gegnum það, að velta þessari spurningu upp aftur og aftur í hverri skýrslunni á fætur annarri og spyrja með vaxandi undran hverju það sæti að íslensk stjórnvöld keyri þetta áfram án þess að nokkurt þjóðhagslegt mat sé lagt til grundvallar á því hvort þetta sé nógu arðbært eða hagkvæmt.

Það er auðvitað þannig, virðulegur forseti, að það er mikið jafnvægisleysi í íslenska þjóðarbúskapnum. Það hefur verið viðvarandi og það er ekkert lát á því. Það sem vekur náttúrlega mesta undrun er að ekki verður annað ráðið af framgöngu ríkisstjórnarinnar en að það eigi bara að láta vaða á súðum áfram. Eða hvað er að gerast, hvað er í farvatninu, virðulegur forseti? Jú, er ekki verið að undirbúa hérna ein þrjú, fjögur ný risastór álvers- og stóriðjuverkefni? Hvað þýðir það fyrir hagkerfið ef af því verður öllu saman á árunum 2007–2010, 2012, 2015? Það þýðir væntanlega að þenslan verður enn þá meiri en hún hefur verið á undangengnu tímabili, jafnvægisleysið verður ekki minna. Það verður að keyra á svimandi háum stýrivöxtum og viðskiptahallinn verður mun meiri en ella. Í öllum þessum álitum er settur sá fyrirvari varðandi aðlögun hagkerfisins og jafnvægi í þessum efnum að ekki verði ráðist í frekari stóriðjuframkvæmdir. Það segja menn alveg skýrt hér í áliti Seðlabankans, það segir matsfyrirtækið líka eða matsfyrirtækin, svo maður tali nú ekki um sérfræðinga Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem hamra á því í áliti sínu að þar liggi stærsta óvissan.

Er þá hægt að fara nýjan hring svona svipaðan og menn fóru á árunum 1996, 1997 og 1998 og fram yfir 2000 og svipaðan hring og við erum búin að fara frá upphafi árs 2003 til og með yfirstandandi tíma, sem yrði þá lagt upp í kannski á síðari hluta næsta árs eða í öndverðu ári 2008 ef það yrði valið að gera svo? Jú, það getur vel verið að skútan fljóti einn hring enn en ekki mikið lengur, ósköp einfaldlega vegna þess að ef viðskiptahallinn næst ekki verulega niður og helst í jöfnuð og helst í afgang á allra næstu árum ja, þá bara hlaðast enn meiri skuldir á þjóðarbúið og smátt og smátt bresta forsendur þess að halda úti sjálfstæðu velmegunar- og menningarsamfélagi á Íslandi. Það verður bara þannig vegna þess að það er ekki hægt að láta það ganga upp að reka þjóðarbú frekar en bara heimili eða fyrirtæki með viðvarandi halla út í hið óendanlega, það sjá allir hugsandi menn að það getur ekki gengið og allra síst ef viðskiptahallinn er þannig saman settur að kannski tveir þriðju af honum eru í raun og veru bara hrein eyðsla, aðeins einn þriðji er til kominn vegna þess að menn séu að fjárfesta í framleiðslutækjum eða einhverjum innviðum sem geti gefið af sér arð og staðið undir sér síðar meir. En það er því miður þannig að aðeins um þriðjungur viðskiptahallans verður rakinn til slíkra fjárfestinga. Þá á náttúrlega eftir að svara því hvort þær fjárfestingar séu allar líklegar til að verða svo þjóðhagslega arðbærar að þær geri mikið meira en að bara sjá um sig sjálfar.

Ég óttast það hvað mest, verð ég að segja, virðulegur forseti, að versta martröðin sé eftir í sambandi við stóriðjubrjálæðið, ég óttast það. Það er þegar menn vakna upp við vondan draum og átta sig á því að svo lítið verður eftir af veltu stóriðjustarfseminnar í landinu, nettó, í íslenska hagkerfinu að það gerir ekki betur en að sjá um sig sjálft gagnvart þeim skuldum og skuldbindingum sem fylgja. Þetta stafar auðvitað af því, virðulegur forseti, að óvenjulágt hlutfall af veltu t.d. álfyrirtækis, þó að það sé skráð á Íslandi og skattgreiðandi hér, en ef það er í eigu erlends aðila, staðnæmist í íslenska hagkerfinu eða aðeins rétt um eða liðlega þriðjungur af veltunni. Hvernig stendur á þessu? Jú, það er vegna þess að þetta er í raun og veru umskipun á hráefni eða umbreyting á erlendu hráefni sem fer síðan úr landi aftur. Eigandinn er erlendur þannig að arðurinn til hans og þóknun og umsýsla hans rennur líka úr landi, og þá er niðurstaðan sú að aðeins 30–35% af veltunni staðnæmist í íslenska hagkerfinu. Þessar fjárfestingar og það sem þeim fylgir hafa hins vegar gríðarleg efnahagsáhrif, ryðja ýmsu öðru úr vegi. Hlutföllin eru þannig að um 15–20% fara í rafmagn, 10% í vinnulaun og kannski 5% í aðra kostnaðarþætti. Þessa speki hefur ræðumaður m.a. frá greiningardeildum innlendra banka og frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu. Í skýrslu þeirra er fjallað um þetta og það leynir sér ekki að þetta er einn af þeim þáttum sem valda efasemdum þeirra þar á bæ um að þessi stóriðjuáhersla sé skynsamleg.

Í raun er dæmið verra en þetta fyrstu 25–40 árin í hverju nýju álvers- og virkjanaverkefni. Það stafar af því að nánast hver einasta króna sem fer í að byggja orkuverið er tekin að láni erlendis. Tekjurnar vegna raforkusölunnar fara fyrstu 25–40 árin, á meðan þau lán eru borguð upp, beint úr landi, þannig að stór hluti af innkomunni fyrir þann þáttinn sem álverið borgar í raforkuverð, þ.e. þau 15–20% sem þangað fara, streymir í raun og veru í gegnum orkufyrirtækið, Landsvirkjun í flestum tilvikum eða Orkuveitu Reykjavíkur, og beint úr landi aftur. Þá fer nú ekki að verða mjög mikið eftir í íslenska hagkerfinu ef það eru fyrst og fremst þessi 10% eða þar um bil í vinnulaun, 5% í aðkeypta þjónustu og afskriftir og annað hér innan lands og einhver hluti af því sem borgað er fyrir rafmagnið.

Á sama tíma erum við með atvinnugreinar þar sem kannski 80% af veltunni verður eftir í íslenska hagkerfinu, eins og í tilviki sjávarútvegsins, 75% í tilviki ferðaþjónustunnar, alveg upp undir 100% stundum í tilviki hátækni- og þekkingarfyrirtækjanna þar sem menn eru fyrst og fremst að selja hugvitið.

Þá gæti það farið svo því miður, virðulegur forseti, að við ættum eftir að verða fyrir þeirri bitru reynslu, t.d. ef það gerðist að vaxtakjör yrðu óhagstæðari á alþjóðafjármagnsmörkuðum, eða ef álverð yrði ekki mjög hátt, að sáralítil hjálp yrði af álversfjárfestingunum til að borga af stórvaxandi erlendum skuldum þjóðarinnar, sem eru afleiðingar af því ástandi sem stóriðjufjárfestingartímabilin hafa skapað eða eiga a.m.k. ríkan þátt í að skapa næstu 25–40 árin, að það gerði ekki betur en að Kárahnjúkadæmið og álverið á Reyðarfirði sæi um sig sjálft, kannski varla það, kannski yrði Landsvirkjun hreinlega í baksi.

Hvað á þá að segja við erlendu sérfræðingana þegar þeir koma næst? Það vita allir með hverju íslenska ríkið, ríkisstjórnin og sérfræðingar hennar hafa verið að reyna að róa sendinefndir Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Jú, við heyrðum það í ræðum í dag að það yrðu svo miklar útflutningstekjur af áli. Það mundi breyta þessu öllu á næstunni, við fengjum svo mikil verðmæti til að gera öll góðverkin sem hv. formaður fjárlaganefndar var að tala um. En það þarf þá að verða eitthvað eftir úr því dæmi. Ef það bara rétt slefast við að sjá um sig sjálft þá er það nú ekki mikið, það eru í öllu falli tekjurnar sem koma inn í vinnulaun og aðkeypta þjónustu en það er bara svo lágt hlutfall af veltunni. Þó að dæmið sé stórt, þó að þarna sé velt miklum fjármunum þá vega 10% í vinnulaun svo lítið. Þessi iðnaður er sífellt að verða vélvæddari, sjálfvirkari, eins og við sjáum á því að risastórt álver sem framleiðir 300–400 þúsund tonn af áli í dag er með svipaðan fjölda starfsmanna eða jafnvel færri en álverið í Straumsvík var með í upphafi þegar það framleiddi kannski 40 eða 70 þúsund tonn. Það segir sína sögu um þróunina í greininni. Þetta er að langmestu leyti að verða vélvædd umbreyting á hráefni og minna og minna sem fellur til í formi vinnulauna og annarra slíkra ytri eða aðkeyptra kostnaðarþátta. Stóru þættirnir eru innflutningur á báxíti og rafskautum og síðan þóknunin til erlends aðila og hagnaðurinn sem hann dregur úr landi.

Þetta eru nú allt saman þættir, virðulegur forseti, sem mér finnst alveg leyfilegt að rifja upp eða taka inn í umræðuna, svona til að rétta hana aðeins af og fá í hana aðeins meiri ballans, sérstaklega eftir ræðu formanns fjárlaganefndar, sem dró upp mikla glansmynd og taldi allt saman harla gott sem hann og hans menn, flokksbræður og -systkin og félagar í ríkisstjórninni hefðu sýslað við. Ég vil þó taka það sérstaklega fram að ég er ekki einhver bölsýnismaður og er ekki svartsýnn á að málum sé þannig komið á Íslandi að við getum ekki unnið okkur út úr þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir, virðulegur forseti, ég trúi að sé hægt að gera það en það er erfitt verkefni. Það er verulega krefjandi verkefni að sjá hvernig hægt er að ná íslenska þjóðarbúskapnum í jafnvægi á næstu missirum, það verður að takast, það þarf að takast. Það verður sársaukafullt, það er ekki hægt öðruvísi.

Hin leiðin er ekki boðleg, að láta bara vaða áfram á súðum, panta meiri veisluföng, skrifa fleiri tékka, það er ekki boðlegt. Við getum ekki sem ein kynslóð í landinu leyft okkur að halda hér uppi í raun og veru fölskum umsvifum og þenja hagkerfið út í formi lána sem dælt er inn í hagkerfið og ætla svo bara fjandanum að hirða þann síðasta eða einhverjum öðrum að borga reikninginn. Það er ekki boðlegt. Það er það sem ríkisstjórnin hefur í raun og veru því miður í allt of miklum mæli komist upp með að gera, það er allt of holt undir þessu svokallaða góðæri. Það er í raun og veru í allt of, allt of miklum mæli bara ábyrgðarlaus eyðsla umfram efni, umfram það sem verið er að afla með því að skuldsetja þjóðarbúið og ætla framtíðinni, börnunum okkar að borga reikningana. Þannig eiga menn ekki að hafa leyfi til að hegða sér og allra síst eiga menn að komast upp með að slá sig til riddara á grundvelli slíks og guma af einhverjum glæsilegum árangri í þeim efnum þegar honum er í raun og veru ekki til að dreifa nema í allt of, allt of takmörkuðum mæli.

Auðvitað er margt jákvætt og hefur margt þróast okkur Íslendingum í hag á síðustu árum. Það er t.d. auðvitað þannig að vöxtur fjármálageirans og þær tekjur sem þaðan spretta núna eru ævintýralegar, það er alveg hárrétt, það hefur margt gerst magnað í þeim efnum. En menn skulu fara varlega í að treysta að það sé á vísan að róa um aldur og ævi með þær tekjur. Bæði getur brugðið til hins verra um afkomu á þeim bæjum mjög skyndilega, það þekkjum við. Afkoma í slíkri starfsemi og í slíkri þjónustu sem er mjög eftirspurnarháð er oft mjög sveiflótt.

Það getur líka farið svo að eitthvað af þeim umsvifum sem íslenskir bankar hafa byggt upp á erlendri grundu hverfi bara allt í einu héðan frá íslenska hagkerfinu. Það getur dottið í þá banka að selja eignirnar en það getur líka dottið í erlenda banka hreinlega að kaupa íslensku bankana. Hvenær verður KB-banki orðinn nógu stór og spennandi til þess að einhver af risunum í Evrópu eða einhvers staðar annars staðar fari allt í einu að hafa á honum áhuga og geri eigendunum þannig tilboð að þeir geti ekki hafnað því? Þá losna auðvitað heilmiklir fjármunir þar með, en öll hin erlendu umsvif sem hafa vissulega skilað arði hér heim vegna höfuðstöðva bankanna hér, af því að hér er hagnaðarmiðstöðin, þau geta þar með gufað upp í leiðinni þegar starfsemin er ekki lengur á okkar höndum

Auðvitað verða menn að hafa í huga að slíkt er ekki að öllu leyti sambærilegur grunnur undir efnahagslífinu og hagkerfinu eins og rótföst starfsemi sem er hér og verður ekki með auðveldum hætti flutt héðan. Það á að sjálfsögðu í miklu ríkari mæli við um umsvif t.d. í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og öðru slíku þar sem landið sjálft eða auðlindir þess og fólkið sem hér býr eru undirstaðan en ekki atvinnuumsvif í erlendum löndum á grundvelli vinnuafls sem þar er. Menn segja kannski: Er á meðan er, og gott og vel, ég geri ekki lítið úr því að miklar tekjur af þessari starfsemi hafa skilað sér inn í landið.

Ég held þó að við séum í ákveðinni hættu með að búa ekki nógu vel að þeirri fjölbreyttu nýsköpun og þróun í undirstöðum atvinnulífs okkar og efnahagslífs sem flestar framsæknar þjóðir vilja helst sjá blómstra og við ættum að vera miklu meira hugsi en við erum yfir því að það er ekki lengur sá kraftur og uppbygging í t.d. hátækni- og þekkingargreinum hér eins og virtist ætla að verða um tíma. Það er í vaxandi mæli merki um að slík starfsemi sé, ef ekki beinlínis flutt úr landi þá a.m.k. byggð upp erlendis og fyrirtækin haldi að sér höndum í höfuðstöðvum sínum hér heima og fjárfesti ekki eða bæta við sig, auki ekki afköst sín í framleiðslu eða starfsemi hér af ástæðum sem við þekkjum auðvitað öll.

Þetta fer nú vonandi allt saman vel samt, forseti, og við skulum bara vera bjartsýn og trúuð á að okkur takist að glíma með farsælum hætti við þessi verkefni. Þetta eru allt saman viðfangsefni til að takast á við. En þeim mun lengur sem menn fresta vandanum og fresta að horfast í augu við hann og fresta því að takast á við t.d. að ná jöfnuði í viðskiptum þjóðarbúsins við útlönd þeim mun verra verður að eiga við þetta, það er alveg augljóst mál. Hvert ár sem glatast í þeim efnum er mjög dýrt og ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar er auðvitað fyrst og fremst fólgið í því að það er engin viðleitni af neinu tagi til þess að takast á við þá hluti. Þvert á móti tala menn hér eins og þeir gera, hv. þm. Birkir Jón Jónsson og aðrir talsmenn stjórnarflokkanna, þó svo að viðskiptahallinn sé næstum helmingi meiri en hann átti að vera samkvæmt áætlun á þessu ári, um 20% í staðinn fyrir kannski 10–12%. Er það ekki eitthvað til þess að hafa áhyggjur af? Getur hv. þingmaður komið hér og bara yppt öxlum yfir því, gert sér upp gleðilæti? Mér finnst það alveg með ólíkindum.

Ég ætla nú ekki hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni að eyða sínum skamma tíma hér inni á Alþingi kannski í það að hafa miklar áhyggjur af viðskiptahallanum, ég skynja alveg þörf hans fyrir að fjalla um aðra hluti. Hitt er svo annað mál hvort hann gerir sér mikið gagn með ræðum eins og hann flutti hér í dag eða hvort hann vill endilega að metnaður sinn í þingsögunni verði fyrst og fremst sá, að í fyllingu tímans verði eingöngu slíkt að finna í þingtíðindunum sem hann hafi skilið hér eftir sig.