133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:22]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er orðin ágæt umræða, 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2007. Hv. stjórnarandstaða hefur lagt fram sameiginlegt nefndarálit og hefur sömuleiðis verið með sameiginlegan tillöguflutning, bæði við 2. umr. og líka við 3. umr. fjárlaga. Er það nýmæli og eins og ég kom inn á og hefur verið áhugavert við bæði 2. umr. og 3. umr. er það hversu taugatrekkt hæstv. ríkisstjórn er yfir því að stjórnarandstaðan skuli koma sameinuð til leiks við fjárlagaumræðuna á þessu hausti.

Þetta segi ég vegna þess að menn, bæði formaður fjárlaganefndar við 2. umr. og síðan hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson og aðrir stjórnarþingmenn sem hér hafa talað, hafa staðið í þessum stóli og kallað eftir frekari tillöguflutningi frá stjórnarandstöðunni. Við buðum þeim það auðvitað þegar kallað var eftir þessum frekari tillöguflutningi frá stjórnarandstöðunni við 2. umr. að við værum til í að fara með ríkisstjórninni í að bæta fjárlagafrumvarp þeirra, enda kölluðu þeir svo sterklega eftir því.

En því miður varð það ekki raunin, virðulegi forseti. Heldur gerðist það að þær tillögur sem við lögðum fram um að stórbæta kjör eldri borgara og annarra lífeyrisþega, og einnig örorkulífeyrisþega, voru kolfelldar af ríkisstjórnarmeirihlutanum. Þannig var það nú.

Virðulegi forseti. Þegar vinnubrögðin eru slík er það ekki fýsilegur kostur fyrir stjórnarandstöðuna að leggja í mikla vinnu við tillögugerð eins og við gerðum varðandi lífeyrismálin og leggja hana fyrir þingið þegar vitað er að algjörlega óháð gæðum tillagnanna eru þær alltaf felldar.

Ég verð að segja, frú forseti, að það hryggði mig mjög að heyra, þegar við lögðum þessa tillögu fram, hvernig hún var afgreidd af hv. ríkisstjórnarmeirihluta á þinginu vegna þess að hún var afgreidd með þeim orðum að þær kjarabætur sem væru samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingum hennar frá því í sumar, væru þær stórkostlegustu í Íslandssögunni og bingó, búið, og þar með væri búið að bæta kjör eldri borgara þannig að sómi væri að.

Virðulegi forseti. Þeim málflutningi höfum við auðvitað mótmælt vegna þess að þetta er rangt. Umræddum hópi hefur verið haldið markvisst niðri af hinu háa Alþingi með lagasetningu. Lagðar hafa verið á þennan hóp íþyngjandi skerðingar með tekjutengingu og öðru því sem hefur rýrt kjör hópsins allverulega. Það er svo langt, langt í land að við séum búin að bæta þeim hópi upp þær kjaraskerðingar sem Alþingi, þessi staður hér, hið háa Alþingi, og meiri hluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur lagt á fyrrgreinda hópa.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir þeim tillögum sem við lögðum fram síðast við 2. umr. Eins og fram hefur komið lögðum við fram sameiginlega, stjórnarandstaðan, allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, þingsályktunartillögu strax við upphaf þings um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Þar var kveðið á um hinar margvíslegustu kjarabætur, en það sem var kannski grundvallaratriði og er grundvallaratriði í þeirri tillögu er að kveðið er á um mjög náið samstarf við félög eldri borgara og líka félög öryrkja og annarra lífeyrisþega.

Það er náttúrlega algert grundvallaratriði að menn breyti þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið gagnvart þessum hópum og hætti að setja lög, íþyngjandi lög á þá hópa og fari að setja lög með þeim. Það skiptir miklu máli og í tillögu okkar kristallast það viðhorf stjórnarandstöðunnar að þannig viljum við vinna.

Auk þess að telja til þau atriði sem við teljum mikilvægt að gera nú þegar til að bæta kjör þessara hópa, var líka annað grundvallaratriði í tillögunni að neysluútgjöld lífeyrisþega verði skilgreind þannig að þau myndi viðmiðun fyrir grunnlífeyri og tekjutryggingu. Er gert ráð fyrir að sú viðmiðun mundi síðan hækka í samræmi við neysluvísitölu þannig að tryggt sé að hún haldi verðgildi sínu.

Virðulegi forseti. Þetta þýðir í rauninni það, að ætlan okkar stjórnarandstöðunnar og Samfylkingarinnar er að ráðast í raunverulega úttekt á framfærsluþörf þessara hópa og er það algert lykilatriði.

Að öðru leyti felur tillagan í sér, og það sem við færðum síðan inn í breytingartillögu, í fyrsta lagi nýtt frítekjumark, samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar frá því í sumar, sem verði þannig að það nái bæði til ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega og báðir hóparnir geti unnið sér 900 þús. kr. á ári án þess að lífeyrir hins opinbera skerðist.

Tillögur ríkisstjórnarinnar og það sem samþykkt hefur verið er að þar er eingöngu gert ráð fyrir 300 þús. kr. frítekjumarki fyrir ellilífeyrisþega og engu frítekjumarki til öryrkja. Tillaga okkar var felld. Þessi tillaga okkar var felld af ríkisstjórnarmeirihlutanum, þ.e. að hækka þetta upp í 900 þús. kr. á ári til ellilífeyrisþega og að veita einnig öryrkjum frítekjumark.

Þess vegna, frú forseti, höfum við lagt fram svipaða tillögu aftur, nema að nú gerum við ráð fyrir að frítekjumarkið verði 70 þús. kr. á mánuði og gefum núverandi ríkisstjórn og ríkisstjórnarmeirihluta þar með tækifæri til að koma með okkur í það verkefni að bæta kjör stórra hópa ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega þannig að sómi sé að. Þetta er ekki kostnaðarsöm aðgerð, virðulegi forseti, heldur hleypur þetta á rúmlega hálfum milljarði. Við teljum þetta skipta gríðarlega miklu máli.

Við viljum gefa ríkisstjórnarmeirihlutanum tækifæri til að koma með okkur í að hækka frítekjumarkið upp í 70 þús. Við ætlum sem sagt að gefa ríkisstjórnarmeirihlutanum annað tækifæri. Ég segi annað tækifæri vegna þess að við eigum að koma mikið að stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, eiga fulltrúa á Alþingi og eru að koma úr prófkjörum. Í þeim prófkjörum, ekki síst í prófkjörum sjálfstæðismanna, heyrðist hátt í ýmsum frambjóðendum. Þá heyrðist hátt í ýmsum frambjóðendum um að hækka þyrfti frítekjumark á atvinnutekjur ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega.

Síðan kom í ljós við atkvæðagreiðslu í síðustu viku að nákvæmlega engin innstæða var fyrir því orðagjálfri í prófkjörunum. Engin. Vegna þess að hér sat þetta sama fólk og hafði lofað öllu fögru í prófkjörum sínum, og án efa fengið atkvæði út á það, og felldi tillögur okkar sem voru í mjög svipaða veru, ef ekki í sömu veru og þeirra eigin höfðu verið í prófkjörum. Þetta, virðulegi forseti, veldur mér áhyggjum. Þetta veldur mér áhyggjum ef menn sitja hér á hinu háa Alþingi og fylgja ekki sannfæringu sinni. Annaðhvort þýðir þetta það að menn fylgja ekki sannfæringu sinni eða þá hreinlega að ekkert er að marka loforð sem sett eru fram í prófkjörum hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, vegna þess að það birtist einfaldlega hér í salnum í síðustu viku.

Virðulegi forseti. Í tillögum okkar, sem voru felldar í síðustu viku, fólst einnig það sem við lögðum til í anda þingsályktunartillögunnar sem ég kynnti áðan, en við lögðum til að tekjutrygging yrði hækkuð upp í 85 þús. kr. á mánuði fyrir ellilífeyrisþega og 86 þús. á mánuði fyrir örorkulífeyrisþega, auk breytinga á launavísitölu frá því í sumar. Einnig lögðum við til að afnumin yrðu með öllu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka. Þetta hefur verið stórt baráttumál og dómur hefur fallið í þessu.

Einnig lögðum við til að vasapeningar þeirra sem dvelja á stofnunum mundu hækka um helming afturvirkt til 7. júlí á þessu ári og frítekjumark þessara sömu einstaklinga yrði einnig hækkað, úr 50 þús. kr. á mánuði í 75 þús. kr. á mánuði. Þá var einnig lagt til að öryrkjar héldu aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á ellilífeyri og jafnframt lagt til að skerðingarhlutföll yrðu minnkuð verulega, þannig að skattskyldar tekjur umfram frítekjumark, þ.e. 900 þús. kr. frítekjumarkið sem tillögur okkar kváðu á um, skerði tekjutryggingu aðeins um 35% í stað 45% eins og nú er.

Virðulegi forseti. Mér þykir mikilvægt að koma inn á þetta og minna á að þetta eru þær tillögur sem ríkisstjórnarmeirihlutinn felldi. Við höfum nú komið með tillögur og ætlum að veita þeim annað tækifæri, eins og ég sagði, til að hækka frítekjumarkið og vonumst við til að í atkvæðagreiðslu um fjárlögin muni þeir þingmenn sem lofuðu þessu í prófkjörsbaráttunni koma og standa við stóru orðin og greiða atkvæði tillögu um hækkun á frítekjumarki.

Virðulegi forseti. Við 3. umr. leggur stjórnarandstaðan einnig fram sameiginlega tillögur, þar sem felldar hafa verið tillögur okkar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, um að lagðir verði til 5 milljarðar sem verði skilað aftur í Framkvæmdasjóð aldraðra og þar með verði hafin alvöruuppbygging á hjúkrunarrýmum og þjónusturýmum fyrir þá sem á því þurfa að halda.

Sá hópur er, samkvæmt nýlegu svari sem kom frá heilbrigðisráðherra, mjög stór sem er í brýnni þörf. Það hleypur á hundruðum einstaklinga sem eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum. Þetta, virðulegi forseti, verðum við að leysa og því leggjum við til við 3. umr. að úr þessu verði bætt með þeim hætti að greiddir verði 5 milljarðar í Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. endurgreitt, vegna þess að þeir fjármunir ættu auðvitað að vera þar ef haldið hefði verið á málum eins og vera bar.

Frú forseti. Það sem mér finnst skipta máli í umræðunni er, eins og ég kom inn á í upphafi máls míns, að ljóst er að við hér á Alþingi höfum verið að setja íþyngjandi lög á eldri borgara og einnig á öryrkja. Það er eitthvað sem við verðum að leysa. Og það gengur auðvitað ekki þegar hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna standa í þessum stóli og guma af því að hér hafi allt gengið svo vel og allt verið í lukkunnar velstandi á undanförnum árum, þegar staðreyndin er sú að stór hópur hefur verið skilinn eftir. Þetta er hópur sem ekki getur gert mikið vegna þess að hann er lokaður inni. Hann er lokaður inni í þröngu lagaverki sem rýrir tekjur hans svo mjög eins og raun ber vitni.

Að mínu mati er eitt stærsta verkefni stjórnmálanna að tryggja að eldri borgarar fái lifað sjálfstæðu lífi með reisn og einnig að öryrkjar fái lifað sjálfstæðu lífi með reisn í íslensku samfélagi. Það sem er allra mikilvægast í þessum efnum er að allar breytingar verði gerðar í góðu samráði við félög eldri borgara og líka við félög öryrkja vegna þess að þau vita betur, þau lifa á þeim fjármunum sem svo mjög er um rætt hér. Meðan hv. Alþingi er svo fast í meðaltölum held ég að mörgum hér veiti nú ekki af að heyra hvernig raunverulegt líf er hjá einstaklingi sem er tekinn inn í það meðaltal sem menn eru ávallt að guma af.

Ég segi, virðulegi forseti, að það er komið nóg af stjórnmálum þar sem dembt er yfir heila kynslóð lagasetningum sem íþyngja henni og slík vinnubrögð eiga auðvitað að heyra fortíðinni til. Við í Samfylkingunni höfum sagt að við viljum vinna með þessum hópum til að bæta lífskjör þeirra og breyta þannig því vinnulagi sem viðhaft hefur verið í því að hér sé dembt yfir fólk íþyngjandi lögum.

Virðulegi forseti. Ég kom aðeins inn á það að þessir hópar hefðu verið skildir eftir. Þetta segi ég vegna þess að hv. stjórnarþingmenn tala mikið um hinn mikla kaupmátt ráðstöfunartekna sem hefur hækkað mikið á undanförnum árum, eða frá því að þeir tóku við. Það er vissulega rétt. Menn þekkja ástæðurnar fyrir því og er EES-samningurinn einn t.d. mjög stór þáttur í því. En það sem er kannski mikilvægast og það sem við eigum að vera að ræða er hvernig stjórnvaldsaðgerðum hér á landi hefur verið beitt til þess markvisst, ekki er hægt að segja annað en að það hafi verið markvisst, að kaupmáttaraukningunni hefur verið misskipt. Henni hefur gróflega misskipt. Henni hefur verið gróflega misskipt á þann hátt, virðulegi forseti, að samkvæmt úttekt fræðimanna er staðreynd að af þeirri 60% kaupmáttaraukningu sem við höfum búið við á undanförnum árum, hafa þeir allra tekjuhæstu, eða tíundin sem hæstar hefur tekjurnar, fengið tæplega 80% kaupmáttaraukningu en þeir tekjulægstu, þeir launalægstu hafa fengið um 27% kaupmáttaraukningu yfir þennan tíma. Ofan á þetta, yfir þann tíma sem núverandi ríkisstjórn hefur setið, er ég hérna með útreikninga sem Landssamband eldri borgara hefur tekið saman um þróun kaupmáttar fyrir eldri borgara, miðað við ólíkar tekjur úr lífeyrissjóði í samanburði við hækkun hjá almenningi. Ellilífeyrisþegi sem ekki býr einn er eingöngu að fá og hefur fengið á bilinu á árunum 1995 og til ársins 2007 16% kaupmáttaraukningu. Miðað við þær breytingar sem gerðar voru núna samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er dæmigert fyrir lægsta þriðjunginn í þeim hópi að fá eingöngu 16% kaupmáttaraukningu.

Virðulegi forseti. Við eigum að skoða þessar tölur. Þetta eru þær tölur sem við eigum að vera að skoða af því ég hafna því að kaupmáttaraukningu og velsæld í samfélagi okkar sé skipt með þessu móti. Við í Samfylkingunni höfum hafnað því og ítrekað tekið þetta mál upp vegna þess að við viljum ekki að kaupmáttaraukningu í samfélaginu og velferð sé misskipt svo gróflega eins og hér hefur verið gert á undanförnum árum. Það er bara stjórnvaldsaðgerðum þarna um að kenna vegna þess að núverandi stjórnvöld hafa með stjórnvaldsaðgerðum markvisst misskipt í gegnum skattalækkanir, misskipt ágóðanum sem samfélagið hefur eignast á undanförnum áratug eða meira.

Okkur jafnaðarmönnum blöskra slík vinnubrögð. Okkur blöskra slík vinnubrögð og við höfum ítrekað bent á það við umræðu t.d. um skattalækkanir vegna þess að við vildum fara aðrar leiðir í skattalækkunum en ríkisstjórnin lagði til. Frekar vildum við hækka skattleysismörkin og matarskattinn en að fara í flatar skattalækkanir. Við sjáum afleiðingarnar af þeim flötu skattalækkunum í svari sem ég er með fyrir framan mig, sem er svar fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um tekjuskatt einstaklinga. Það kom fram á síðasta þingi, mig minnir í febrúar á síðasta ári. Þar kemur berlega í ljós, þegar tekjutíundir eru brotnar niður, að það er einn hópur sem hefur fengið lækkaða skattbyrði á undanförnum árum og það eru þau 10% sem hæstar hafa tekjurnar í samfélaginu.

Það er ekki þannig sem við í Samfylkingunni viljum lækka skatta heldur viljum við gera það þannig að það komi þeim best sem lægstar hafa tekjurnar hlutfallslega. Þessi ríkisstjórn hefur verið alveg ótrúlega kjörkuð í því að halda fram að hér hafi skattar verið að lækka á undanförnum árum, þegar þetta svar kemur frá fjármálaráðherra til hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, og segir hreinlega svart á hvítu hvernig skattbyrðin hefur breyst og á hvaða hópa hún hefur verið að þyngjast og á hverja hún hefur verið að léttast.

Þetta geta allir kynnt sér og þess vegna hefur mér þótt merkilegt, virðulegi forseti, að sitja stundum í þessum sal og hlýða á ræður hv. þingmanna stjórnarliðanna þar sem þeir halda því fram að hér á landi hafi skattar verið að lækka. Vegna þess að þegar menn svo til frysta skattleysismörkin gerir skattalækkun ofan frá lítið fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar og meðaltekjurnar. En hún hefur greinilega, eins og birtist í fyrrgreindu svari, gert heilmikið fyrir þau 10% sem hæstar hafa tekjurnar. Við í Samfylkingunni. viljum ekki gera þetta á þennan hátt vegna þess að okkur blöskrar sá ójöfnuður sem núverandi ríkisstjórn hefur búið til.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur mál sem mig langar að koma inn á í tengslum við afgreiðsluna á fjárlagafrumvarpinu og er eitt þeirra menntamálin. Það er alveg klárt, og ég verð að viðurkenna að við höfum miklar áhyggjur af þróuninni á þeim skólastigum sem ríkisvaldið fer með, og það er staðreynd að við höfum verið að húrra niður. Við höfum verið að húrra niður í samanburði við OECD-ríkin þegar kemur að framlögum til framhaldsskóla og til háskólastigsins.

Við fórum að mig minnir úr 14. sæti, í framlögum til framhaldsskólastigsins, í það 19. og erum komin niður í 21. sæti í framlögum til háskólastigsins. Þetta, virðulegi forseti, hlýtur að valda okkur verulegum áhyggjum. Hæstv. menntamálaráðherra hefur verið dugleg við að segja og halda um það blaðamannafundi hversu mikið framlög til menntamála hafi aukist en það sem hæstv. menntamálaráðherra gleymir er að nefna að aukin framlög eru til komin vegna fjölgunar nemenda. Þau eru ekki til komin vegna þess að menn séu að bæta við í menntamálum og hækka framlögin. Nei, þau eru til komin vegna nemendafjölgunar. Það fylgir heldur ekki sögunni hjá hæstv. menntamálaráðherra að framlögin hafa ekki einu sinni fylgt fjölgun nemenda ef farið væri í einu og öllu að reiknilíkani því sem nota á til grundvallar við útreikninga á framlögum til framhaldsskóla og háskóla.

Virðulegi forseti. Varðandi framhaldsskólann þá verð ég að nefna að það er með ólíkindum hvaða aðferðum ríkisstjórnin hefur beitt við fjárlagagerðina í tengslum við útgjöld til framhaldsskólans. Í ár ákvað hæstv. menntamálaráðherra að beita einhvers konar sjokk-meðferð, ég bið forseta að afsaka slettuna, vegna þess í fjárlagafrumvarpinu var lagt til að rekstrarframlag framhaldsskólanna ætti að hækka um 500 millj. kr. sem svari til fjölgunar um ríflega 800 ársnemendur. Því átti að skipta á skólana samkvæmt almennum forsendum með aðstoð reiknilíkans. Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu kemur síðan fram að vegna aðhaldskröfu verði 300 millj. kr. af þessum 500 millj. kr. teknar til baka og því skipt niður á skólana samkvæmt almennum forsendum sama reiknilíkans.

Virðulegi forseti. Þetta olli verulegum titringi. Skólasamfélagið og við í stjórnarandstöðunni urðum verulega áhyggjufull yfir því sem þarna væri að gerast því þarna var um hreinan niðurskurð að ræða og einungis um rúmlega þriðjung af fjármagni sem fylgja ætti hverjum nemanda með nýjum nemendum inn í framhaldsskólana í haust. Á milli umræðna, á milli 1. og 2. umr., var ákveðið að koma með um 250 millj. kr. af þessu til baka, þ.e. skila 250 milljónum af 300 millj. kr. niðurskurði.

Eftir stendur engu að síður tvennt. En það fylgdi býsna merkileg yfirlýsing með þessum gjörningi. Hún var sú að tekin var pólitísk ákvörðun um að skera niður framlög til stóru bóknámsskólanna. Um það var tekin pólitísk ákvörðun þannig að þessar 250 millj. kr. fara að mestu til minni verknámsskóla. Það er gott og vel en, virðulegi forseti, þetta hefur í för með sér að þetta árið verða allir svo lifandis fegnir að hafa fengið þennan harkalega niðurskurð til baka að öll umræða um reiknilíkanið er látin bíða betri tíma. Að þessu leyti má segja að þetta hafi verið snjöll aðferðafræði hjá ráðuneytinu til að forðast umræðu um hið meingallaða reiknilíkan.

Virðulegi forseti. Svona rekur maður ekki mikilvægt skólastig. Að mínu mati er þetta hæstv. menntamálaráðherra til mikils vansa og sýnir okkur hvað ríkisstjórnin er í raun hugmyndalaus þegar kemur að framhaldsskólastiginu. Það er ljóst að það á ekki að blása til sóknar á framhaldsskólastiginu á næstu árum miðað við þetta.

Virðulegi forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af því á hvaða leið við erum með framhaldsskólann. Hann er í fyrsta lagi gríðarlega miðstýrður og reiknilíkanið sem notað er til að reikna út framlög á hvern nemanda er meingallað. Ég hef áhyggjur af þessari miðstýringu og reiknilíkaninu. Þetta tvennt hefur leitt til að skólastigið er að verða einsleitara. Við erum að berjast gegn brottfalli úr framhaldsskóla og þegar skólastig verður jafneinsleitt og framhaldsskólinn er þá útilokar það stóran hóp frá námi úr framhaldsskólanum.

Það er ekki sá skóli sem við jafnaðarmenn viljum reka. Við áttum okkur á mikilvægi þess að allir fái aðgengi að námi og höfum lagt fram tillögur í þeim efnum. Mér finnst, virðulegi forseti, að í tengslum við þessi fjárlög eigum við að ræða slíka hugmyndir. Mér finnst, virðulegi forseti, sú hugmynd mjög verðug sem fram hefur komið að við þurfum að treysta skólasamfélaginu í auknum mæli, sendum ekki svo bindandi námskrá inn í framhaldsskólana sem raunin er í dag, fækkum einingum á svokölluð kjarnafög og gefum skólunum frelsi til þess að marka sér sérstöðu. Það vantar nefnilega, í okkar kerfi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, að fagfólkinu sé treyst, að treysta skólafólkinu fyrir því sem fram fer í skólunum. Þetta eru menn að gera til að reka framhaldsskóla sem ódýrast en það getur ekki verið markmið í sjálfu sér. Það getur ekki verið eina stefna hæstv. menntamálaráðherra í málefnum framhaldsskólans að komast hjá því að hækka framlögin og komast hjá því árlega að fara í gegnum umræðu um stöðu framhaldsskólans. Það er sú stefna sem mörkuð hefur verið. Það er gert með því að beita sjokk-meðferðum líkt og nú við afgreiðslu fjárlaga.

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að rifja upp að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár sendi stjórn Félag framhaldsskólakennara til okkar alþingismanna ályktun um fjárveitingar til framhaldsskólanna og fjárhagsstöðu þeirra. Þetta var mjög skýr og skorinorð ályktun. Félag framhaldsskólakennara gagnrýndi stjórnvöld harðlega fyrir að vanáætla gróflega, eins og þar var sagt, og árvisst fjárveitingar til framhaldsskóla hvað varðar nemendafjölda og heildarfjárþörf. Þar var rakið að framlög vegna nemendafjölda í framhaldsskólunum hafi verið vanáætluð hingað til en gripið til þess í fjáraukalögum að bæta upp þann skort en það hafi þó aldrei náðst fyllilega.

Virðulegi forseti. Þessi ályktun var býsna harkaleg. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hafa brugðist við þessari árlegu vanáætlun á nemendafjölda og heildarfjárþörf framhaldsskóla með því að sækja um viðbótarframlög í fjáraukalagafrumvörpum, sem hrökkva þó hvergi til.“

Seinna segir þar, virðulegi forseti:

„Það hriktir í undirstöðum margra framhaldsskóla vegna erfiðs rekstrarumhverfis sem forsendur reiknilíkansins taka ekki tillit til. Af þessum sökum hefur námsframboð margra skóla orðið einhæfara.“

Í lokaorðum ályktunarinnar segir einnig, með leyfi forseta:

„Við Íslendingum blasa enn mörg óleyst verkefni áður en menntunarstig þjóðarinnar stenst samjöfnuð við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Þar er tekið á móti hverjum nemanda sem æskir skólagöngu, sú er ekki raunin hérlendis.“

Virðulegi forseti. Þessi ályktun var send þingmönnum fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár. Hún var býsna harkaleg og augljóst að mönnum var mikið niðri fyrir eftir áralangt svelti. Hvað gerðist, virðulegi forseti? Í fyrra var vanáætlaður með skipulegum hætti sá fjöldi sem færi inn í framhaldsskólana á þessu ári. Síðan var því mætt á fjáraukalögum, eins og sagði í þessari ályktun. Menn voru farnir að þekkja þessi vinnubrögð. Það virðist vegna þessa að hæstv. menntamálaráðherra notar þessa sjokk-meðferð, þ.e. að skera harkalega niður og skilja aðeins eftir um þriðjunginn af því fjármagni sem ætti að fylgja fjölgun nemenda í framhaldsskólunum. Það virðist gert til að sleppa við þessa umræðu. Það þykir mér miður, virðulegi forseti. Ég verð að segja, áður en ég lýk þessum hluta ræðu minnar, að mér finnst það menntayfirvöldum á Íslandi til vansa hvernig unnið hefur verið á þessu sviði.

Auðvitað eigum við að ræða það raunverulega hver staða framhaldsskólans er og hvert við viljum stefna með hann og sömuleiðis hvernig við náum til þeirra sem ekki ljúka námi úr framhaldsskóla, þeirra sem flokkast undir svokallað brottfall. Hvernig náum við til þeirra sem ekki skrá sig. Skoða þarf fjölda hópa vel innan framhaldsskólanna sem ekki hefur verið gefinn gaumur, t.d. nýbúa sem hingað koma, ætla að búa hér og vilja setjast að. Það er ekki nægjanlegt tillit tekið til þeirra í framhaldsskólunum. Það er verulegt áhyggjuefni vegna þess að brottfall hjá þeim hópi er verulegt, ef þeir einstaklingar yfirleitt skrá sig í framhaldsskóla.

Til dæmis má nefna að við ættum að ræða raunverulega skólapólitík, t.d. hvernig við getum einfaldað leið nýbúa í gegnum framhaldsskólann. Ein leið t.d. sú að þeir geti skipt t.d. á dönskunámi, sem er skyldufag, eða fengið einhverja sérstaka aðstoð í íslensku til að auðvelda þeim námið. Tungumálið getur orðið þeim að fótakefli, sérstaklega þegar komið er á hærri stig menntunar.

Virðulegi forseti. Ég vildi líka gera annað skólastig að umræðuefni, þ.e. háskólastigið. Á síðasta ári komu fram tvær skýrslur um stöðu Háskóla Íslands. Önnur þeirra var stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á stöðu háskólans og hin var úttekt á vegum European University Association. Þessar skýrslur vöktu verulega athygli vegna þess að báðar gáfu skýrt til kynna að þessi stóra og mikilvæga stofnun, rannsóknaháskólinn sem við höfum verið að byggja upp í hátt í 100 ár, búi við verulegan fjárskort. Báðar þessar skýrslur drógu fram að Háskóli Íslands væri vel rekin stofnun en væri að komast í þrot með þau úrræði sem þar eru til til að draga saman seglin og nýta fjármagnið sem best. Þar segir að næsta verkefni sé að auka fjárframlög til skólans.

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er gerður samanburður á Háskóla Íslands og tíu öðrum háskólum. Þar kemur Háskóli Íslands verulega illa út sem kom reyndar vel fram í umræðunni um fjárlögin í fyrra. Mér finnst við ekki hafa fengið næg svör frá hæstv. menntamálaráðherra um það hvernig menn ætli að bregðast við því. Þessar skýrslur mega ekki, eins og gerist bara allt of oft á Alþingi, verða til einskis. Hér eru gerðar góðar skýrslur sem eiga mikið erindi inn í umræðuna án þess að nokkuð sé gert með þær. Menn gefa sér góðan tíma í að ræða þær en síðan er þeim illa og lítið fylgt eftir. Miðað við þá löngu og miklu umræðu sem átt hefur sér stað um skýrslur þær sem ég nefndi teldi ég eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra gerði okkur grein fyrir því hvernig hún hygðist bregðast við þeim.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur mál sem mig langar að koma inn á og þau lúta að málefnum fjölskyldunnar vegna þess að núverandi ríkisstjórn og talsmenn hennar hafa haft sig mikið í frammi og haldið því fram að nærri því hver einasta stjórnvaldsaðgerð, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar, talar, sé til að bæta hag barnafjölskyldna og fjölskyldna í landinu. Þetta er auðvitað alls ekki rétt og ég ætla að nefna nokkur dæmi um það hvernig ríkisstjórnin leggur sig beinlínis fram um að kroppa í kjör og tekjur þessara hópa. Vinnubrögðin sem ríkisstjórnin beitir í þeim efnum eru náttúrlega með hreinum ólíkindum.

Mig langar að byrja á að nefna örlítið fæðingarorlof og Fæðingarorlofssjóð vegna þess að í umræðum, bæði um fjárlög og fjáraukalög, hafa komið fram tillögur um að lækka framlög í Fæðingarorlofssjóð. Það er auðvitað afleiðing þess að á vordögum árið 2004 voru gerðar breytingar á fæðingarorlofslögunum sem birtist í því að verið er að draga saman framlögin í sjóðinn.

Þessar breytingar voru gerðar til að minnka útgjöld sjóðsins en það sem stjórnarliðar hafa ekki viljað ræða er hvaða áhrif þetta hefur á lögin sjálf. Vegna þess að það er staðreynd, frú forseti, að um þetta var þverpólitísk samstaða um aldamótin síðustu þegar þessi lög voru sett og er mikið til þeirra horft frá nágrannaríkjum okkar. Auðvitað fagnaði stjórnarandstaðan þessu en síðan gerist það að gerðar voru breytingar á lögunum árið 2004 sem valda því að núna minnkar í sjóðnum. Þetta er að hafa veruleg áhrif á margar barnafjölskyldur, sem fagna því að barn hafi fæðst inn í fjölskylduna, vegna þess að þau fæðingarorlofslög sem við lögðum upp með um aldamótin eru ekki þau sömu og við erum að vinna með nú. Ég segi þetta vegna þess að þegar fæðingarorlofslögin voru sett þá var tekið mið af meðaltekjum síðustu 12 mánaða áður en fæðingarorlof var tekið, samfelldra 12 mánaða áður en fæðingarorlof var tekið. Árið 2004 var þessu breytt þannig að tekið var mið af tveimur síðustu skattárum, þ.e. tveimur síðustu almanaksárum áður en fæðingarorlof er tekið. Þetta hefur verulegar breytingar í för mér sér. Þegar tekið er mið að tveimur síðustu almanaksárum er alveg ljóst að þá er ekki lengur um að ræða hér á landi að foreldrar sem fara í fæðingarorlof fái 80% af tekjum sínum þegar þeir fara í fæðingarorlof, vegna þess að þegar farið er taka mið af launum svo langt aftur erum við komin niður í miklu lægri tekjur.

Virðulegi forseti. Þessari breytingu var harðlega mótmælt. Ég veit að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór vel yfir þetta og mótmælti þessu harðlega á sínum tíma. Hún fór fyrir nefndaráliti minni hlutans þegar þetta var afgreitt í þinginu og þar kom fram að þetta atriði, þ.e. hið breytta viðmiðunartímabil, hefði verið eitt af helstu gagnrýnisatriðum umsagnaraðila eins og ASÍ, BSRB, BHM og SÍB. Í nefndaráliti minni hlutans kom einnig fram að t.d. í umsögn frá BHM væri sagt að rofið væri samráð við samtök launafólks um sem næst 80% af heildartekjum í fæðingarorlofi. Á það var ekki hlustað heldur ákváðu menn að rýra gildi þessara ágætu laga sem sett voru á sínum tíma. Þessu höfum við auðvitað mótmælt vegna þess að þetta breytir náttúrlega fæðingarorlofslögunum, markmiðum þeirra og forsendum algerlega.

Við höfum nú lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Auk mín eru flutningsmenn í því máli hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Valdimar Leó Friðriksson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Mörður Árnason. Við leggjum til að þessu verði breytt til fyrra horfs að því leyti að mánaðarleg greiðsla fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% að meðaltali heildarlauna og það skuli miða við 18 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Af því við miðum við þennan tíma, þ.e. eitt og hálft ár eða 18 mánuði samfellda, þá er gert ráð fyrir að við útreikninga á meðaltali þessara launa skuli taka tillit til breytinga á launavísitölu á viðmiðunartímabilinu.

Þetta gerum við til að færa markmið fæðingarorlofslaganna aftur til fyrra horfs og ekki síst vegna þess að áhrifin sem þetta hefur á fjölskyldur í landinu eru veruleg. Meðal þeirra áhrifa sem þetta hefur er t.d. ef foreldrar eignast tvö börn með skömmu millibili, það líða innan við tvö ár á milli barneigna í fjölskyldunni, þá koma launatekjur sem foreldrarnir voru með jafnvel fjórum eða fimm árum fyrr inn í útreikninginn með seinna barninu og hafa þannig áhrif á tekjur í fæðingarorlofi. Þetta getur orðið til þess að markmið fæðingarorlofslaganna verði ekki uppfyllt, þarna erum við komin svo langt frá upphaflegum áætlunum, svo langt frá upphaflegum forsendum og upphaflegu hugmyndinni. Það getur margt gerst hjá ungi fólki á svo löngum tíma, við vitum t.d. að það getur verið mikið launaskrið hjá fólki sem er koma úr námi og það fær stöðuhækkun eða launahækkun eða lendir jafnvel í tímabundnu atvinnuleysi sem kemur þarna inn í. Þegar ungt fólk á barneignaraldri er að stíga fyrstu skrefin á starfsferli þá er framgangur og breytingar á launum oft allverulegar. Það getur því skipt verulegu máli, virðulegi forseti, hvort miðað er við tekjur allt að 36 mánuðum fyrir fæðingu barns eins og getur gerst núna eða 18 mánuðum og síðan uppreiknað miðað við launavísitölu.

Við hvetjum þingheim til að samþykkja þessar tillögur okkar og frumvarp og snúa aftur til baka að þeim upphaflega tilgangi sem þessi lög áttu að þjóna. Þetta er eitt dæmið um það hvernig núverandi ríkisstjórn hefur bara á þessu kjörtímabili gengið að barnafjölskyldunum, svo ég taki vægt til orða.

Virðulegi forseti. Það er mjög margt í fæðingarorlofslögunum sem við verðum að skoða og það eru líka fleiri atriði sem við leggjum til í frumvarpi okkar en við munum fara yfir það þegar mælt verður fyrir því. En það sem ég vil líka koma inn á hér, það kemur ekki fram í þessari tillögu núna, er að hv. Alþingi fari að ræða það af fullri alvöru að taka næsta skref í að lengja fæðingarorlofið, þannig að við séum a.m.k. á pari við nágrannaþjóðir okkar.

Hér á landi er fæðingarorlofið 39 vikur taki báðir foreldrar það sem þeir eiga rétt á. Í Finnlandi er það 44 vikur, í Noregi 52, í Danmörku 52, en það nemur allt að 68 vikum í Svíþjóð. Þetta snýst um fjölskyldustefnu. Við vitum að það er erfitt að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þangað til leikskólavist hefst. Oft þarf að bíða jafnvel í 9–12 mánuði og sú bið getur verið erfið vegna þess að það komast ekki allir að hjá dagforeldrum.

Þetta hefur auðvitað ekki góð áhrif á eitt af grunnmarkmiðum laganna sem er að stuðla að jöfnum rétti karla og kvenna á vinnumarkaði, vegna þess að hætt er við því þegar brúa þarf bilið þarna á milli að þá taki sá aðili sem hefur lægri tekjur það hlutverk að sér og í okkar samfélagi er það því miður enn þá yfirleitt konan, virðulegi forseti. Þetta rýrir stöðu íslenskra kvenna á vinnumarkaði og það er ein ástæðan fyrir því að ég tel að þurfum að lengja fæðingarorlofið en önnur ástæða er líka sú að við eigum að skipta því jafnt á milli foreldra. Enn ein ástæðan er að þetta er auðvitað algerlega óþolandi rask fyrir barnið og kemur náttúrlega verst niður á því að þurfa jafnvel að þvælast á milli aðila sem gæta þess.

Annað sem er líka ástæða fyrir því að ég tel mikilvægt að lengja fæðingarorlofið er að á þessum tíma, á þessum mánuðum á milli 9 og 12 mánaða, verða gríðarlegar breytingar í þroska barnsins sem mikilvægt er að foreldrarnir taki þátt í.

Virðulegi forseti. Ég nefndi það að mér þykir þessi ríkisstjórn hafa verið ansi aðgangshörð í að þrengja að barnafólki og fjölskyldum í landinu. Ég er búin að nefna það hvernig hún hefur með markvissum hætti breytt fæðingarorlofinu þannig að í dag erum við ekki með sama fæðingarorlof og lagt var af stað með í lögunum, núna fá foreldrar minna greitt í fæðingarorlofi en þeir fengu áður hlutfallslega af tekjum sínum.

Það er ekki bara á þessu sviði, virðulegi forseti, sem gengið hefur verið að barnafólki. Ég verð líka að nefna, og ég hef oft staðið í þessum ræðustóli og farið yfir það, að það er með hreinum ólíkindum hvernig þessi ríkisstjórn hefur starfað á kjörtímabilinu. Við erum með gott vaxtabótakerfi. Þetta vaxtabótakerfi er ætlað til þess að mæta fólki sem er með miklar skuldir vegna íbúðarkaupa. Það er staðreynd, virðulegi forseti, að húsnæðisverð hér á landi er mjög hátt og til þess að geta keypt íbúð þarf venjulegt fólk að skuldsetja sig töluvert og þess vegna hafa vaxtabæturnar skipt það fólk gríðarlega miklu máli.

Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin skert vaxtabætur um 1,2 milljarða kr. sé tekið mið af vísitölu neysluverðs í september síðastliðnum. Þetta eru auðvitað ekki neinar smáræðis upphæðir, virðulegi forseti. Til þess að skera svona niður hefur ríkisstjórnin beitt ævintýralegum aðferðum á þessu kjörtímabili. Það er stundum sagt um ríkisstjórnina að hún sé hugmyndalaus og þrotin hugmyndum og ég get alveg tekið undir það, en þegar kemur að því verkefni að skerða vaxtabætur eða skerða kjör barnafólks vantar hana ekki hugmyndir. Það sjáum við á því og ég get nefnt það hér að í fyrsta lagi er sífellt lægri hluti eftirstöðva skulda lagður til grundvallar við útreikning vaxtabóta. Það hefur farið frá því að árið 2003 og 2004 miðuðust vaxtabætur við 7% af eftirstöðvum skulda, árið 2005 var sú tala lækkuð niður í 5,5% og loks í 5% á yfirstandandi ári, en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu núna á ekki að ganga nema til hálfs við að vinda ofan af þessari skerðingu og miða við 6%.

Í öðru lagi var eingöngu greitt út 90% af hámarksupphæð vaxtabóta árið 2004 og 95% árið 2005.

Í þriðja lagi hefur húsnæðisverð hækkað mjög mikið á kjörtímabilinu og langtum meira en eignaviðmið til útreiknings vaxtabóta hafa gert, sem stóðu í stað árið 2005 og hafa nýlega verið hækkuð upp um 30%, sem er þó ekki nándar nærri nóg, virðulegi forseti, eins og við þekkjum. Það hefur leitt til þess að Alþýðusamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu um að verið sé að brjóta samkomulag sem gert var við Alþýðusambandið frá því fyrr í sumar. Sagt er í yfirlýsingu frá ASÍ að þarna sé um vanefndir að ræða.

Á vefsíðu Alþýðusambands Íslands frá 24. nóvember segir, að það séu einfaldlega vanefndir af hálfu ríkisstjórnar á því sem lofað var í sumar. Þetta er sagt um það frumvarp sem fór í hér gegn fyrir nokkrum dögum. Einnig segir á vefsíðunni að ríkisstjórnin hafi lofað því í sumar við endurskoðun kjarasamninga að tekið yrði á vanda þessa fólks sem missir nú stóran hluta vaxtabóta sinna eða jafnvel allar bæturnar fyrir þær sakir einar að fasteignamat hækkar á milli ára. Það er staðreynd, virðulegi forseti, að ekkert hefur breyst hjá þessu fólki og það hefur ekki meira fé á milli handanna þó að fasteignamatið hafi hækkað. Það stendur alveg í sömu sporum, nema það er búið að missa allar vaxtabæturnar. Stór hópur fólks hefur misst allar vaxtabæturnar, þarna getur munað tekjum og erum við að tala um upphæðir sem geta verið allt að mánaðarlaun eftir skatt, slíkar eru upphæðirnar. Þarna var því verulega verið að koma aftan að fólki með þeim gjörningi sem átti sér stað þegar breytingarnar voru gerðar hérna fyrir rúmri viku. ASÍ mótmælir þessu harðlega.

Á vefsíðu Alþýðusambands Íslands er jafnframt sagt að ekki verði horft fram hjá því að ríkisstjórnin hafi gefið loforð í sumar um að tekið yrði á þeim vanda strax og þing kæmi saman og að samráð yrði haft við verkalýðshreyfinguna um nauðsynlegar breytingar. Þetta var brotið vegna þess að ASÍ var aldrei haft með í ráðum við þá breytingu og er því mótmælt harðlega hér.

Þá segja þeir einnig að niðurstaðan, eins og hún stefni í að verða, sé með öllu óviðunandi og komi ekki til móts við vanda þeirra þúsunda sem fá skertar vaxtabætur eða engar. Á þetta var bent strax í sumar. ASÍ benti á þetta strax í sumar og ég vil líka vísa til þess að ýmsir þingmenn, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, bentu einnig á þetta áður en þing fór heim í vor.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst ríkisstjórnin hafa staðið illa að verki með því að koma svona í bakið á þeim stóra hópi fólks sem lofað var í sumar að fengi þessar bætur, fengi skerðingar til baka en stór hópur er að fá tóman jólapakka, fær sendan tóman kassa heim fyrir þessi jól, sem hefur búist við því og var beinlínis lofað að hann skyldi fá þessar skerðingar til baka.

Virðulegi forseti. Af því að ég sé að hv. þm. Birkir J. Jónsson er genginn hér í salinn, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, þykir mér mikilvægt að inna hann eftir því hvað sé orðið um hina boðuðu stefnu, fjölskyldustefnu Framsóknarflokksins, þegar ég hef rakið hér hverja staðreyndina á fætur annarri um hvernig verið er að herða að og þrengja að barnafólki í landinu. (ÖS: Hún fór með fylginu.) Hvert er þessi fjölskyldustefna farin? Já, hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir réttilega á að líklegt er að stefnan hafi fokið með fylginu, enda held ég erfitt verði fyrir Framsóknarflokkinn að sækja það fylgi aftur miðað við það að hafa skert t.d. fæðingarorlofið eins og raun ber vitni og komið í bakið á fjölda foreldra og fjölskyldna og að hafa skert vaxtabæturnar. Þær breytingar sem gerðar hafa verið nú og það fjárlagafrumvarp sem við erum að samþykkja — það eitt stendur eftir í vor þegar Framsóknarflokkurinn mætir kjósendum sínum að búið er að skerða vaxtabæturnar á kjörtímabilinu um 1 milljarð. (BJJ: Ég er að missa matarlystina.) Ég er ekki hissa á að hv. þm. Birkir Jón Jónsson lýsi hér yfir að hann sé að missa matarlystina vegna þess að það hafa margir misst matarlystina yfir því hingað til og þetta bendir kannski til þess að hann sé að átta sig á mikilvægi málsins.

Ég vil segja, virðulegi forseti, um þennan hluta að ríkisstjórnin hefur beitt þeirri aðferðafræði að skera mjög harkalega niður og koma síðan með örlítið til baka rétt fyrir kosningar. En við, virðulegi forseti, ætlum ekki að láta hana komast upp með það í þetta skipti varðandi vaxtabæturnar vegna þess að þó svo að örlítið sé að koma til baka núna þá stendur eftir heill milljarður sem verður að svara hvernig menn ætli að skila og hvort þeir ætli að skila honum. Sama var gert með barnabæturnar, skert var harkalega, skorið harkalega niður og síðan var örlitlu skilað til baka rétt fyrir kosningar. Þetta eru vinnubrögð, virðulegi forseti, sem allir sjá í gegnum.

Ég vil í lok ræðu minnar, frú forseti, örlítið koma inn á stöðu krónunnar og Evrópumálin. Þannig er, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hefur staðið fyrir hinum mestu efnahagsmistökum sem við höfum séð hér á landi um langa tíð. Ekki þarf að nefna marga hluti þar sem henni hefur mistekist. Við getum t.d. nefnt verðbólguna sem hefur verið á þvílíku flugi og hefur ekki snert við verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og gerði það ekki í rúm tvö ár, er kannski nýfarin að snerta þar við svona dag og dag núna, og fór meira að segja langt upp í 10% núna í ágúst. Ríkisstjórnin hefur með þessu lagt á íslenska þjóð nýjan skatt, svokallaðan verðbólguskatt og hefur innleitt hann og er hann orsök mestu kjaraskerðinga almennings í um áratug. Það er bara staðreynd, frú forseti, og ég kom inn á það áðan að það er ekki einasta að dýrt sé að kaupa sér húsnæði hér á landi og vextirnir séu háir, heldur erum við með hæstu vexti í heimi. Það er líka ein af afleiðingum þessara efnahagsmistaka ríkisstjórnarinnar að vera með heimsins hæstu vexti, og út af því hefur almenningur í landinu setið með þá verðbólgu í fanginu og orðið fyrir gríðarlegum kjaraskerðingum og ekki síst vegna verðtryggingar á húsnæðislánum. Fjölskyldur í landinu sem eru með miklar skuldir, og ekki þá síst þær yngstu, hafa orðið fyrir gríðarlegum kjaraskerðingum vegna þessa. Þetta er verulegt áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin virðist ekki og hefur ekki viljað taka á því máli.

Þá er einnig hægt að nefna að viðskiptahallinn er í sögulegu hámarki og er langmestur hér á landi af öllum OECD-þjóðunum. Skuldir þjóðarbúsins hafa aldrei verið hærri. Nefna má að skuldir heimilanna hafa aldrei verið hærri og skuldir fyrirtækjanna hafa aldrei verið hærri. Við erum líka með, eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni, aukna skattbyrði hjá öllum tekjuhópum nema þeim allra tekjuhæstu og við erum með hæstu vexti í heimi. Og það verður ekki af ríkisstjórninni skafið að peningastefna hennar og efnahagsstefna hafa leitt þetta af sér. Þetta er náttúrlega ekkert annað en kjaraskerðing til almennings.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur ekki sinnt neinum af viðvörunarljósunum sem allir fagaðilar og stjórnarandstaðan hafa kveikt fyrir löngu. Seðlabankinn hefur verið látinn standa einn eins og hv. þm. og formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur ítrekað bent á, í baráttunni enda neitar ríkisstjórnin að horfast í augu við raunveruleikann. Það er bara þannig, virðulegi forseti, að þær vaxtahækkanir sem við höfum þurft að búa við, sem eru í rauninni knúnar fram af núverandi ríkisstjórn með aðgerðaleysi sínu í að nýta ríkisfjármálin við stjórn efnahagsmálanna, valda því að þær þrengja auðvitað verulega að þessu verðtryggða hagkerfi sem almenningur þrífst í, það er almenningur sem situr í því. Það er þannig, virðulegi forseti, að hin löngu verðtryggðu lán draga úr mætti vaxtahækkana Seðlabankans og gera síðan hækkanir Seðlabankans á skammtímavöxtum bitlausari en ella. Á þessu verður að taka.

Hæstv. forseti. Í þessu sambandi er ekki óeðlilegt að fara inn í umræðuna um kosti þess að halda hér uppi íslensku krónunni og halda uppi sjálfstæðum gjaldmiðli. Hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hélt ræðu sem ítrekað var vitnað í hér í morgun þar sem menn ákváðu að nota tíma sinn á Alþingi í að snúa út úr orðum formanns Samfylkingarinnar og hengdu sig í eina setningu og slitu úr öllu samhengi. Mér hefði þótt miklu meira um vert ef þeir þingmenn hefðu komið hingað í ræðustól og þorað að ræða þau efnisatriði sem í umræddri ræðu voru, vegna þess að í henni komu fram mjög merkar og mikilvægar yfirlýsingar nú í aðdraganda kosninga. Í þeirri ræðu sagði formaður Samfylkingarinnar m.a. að skoða ætti af fullri alvöru aðild að Evrópusambandinu og ítrekaði þannig afstöðu Samfylkingarinnar til margra ára. En eins og vitað er er Samfylkingin eini flokkurinn sem vill að við göngum í Evrópusambandið. Þetta sagði formaðurinn. Þetta nefndi hún vegna þess að flestar rannsóknir bentu til að upptaka evru mundi þegar fram liðu stundir stuðla að auknu jafnvægi í efnahagsmálum okkar.

Með leyfi forseta, segir jafnframt:

„… styrkja rekstrarskilyrði fyrirtækja og bæta verulega kjör heimilanna í landinu. Öflug fyrirtæki og fjársterkir einstaklingar flýja nú krónuna unnvörpum en íslenskur almenningur situr fastur í rússíbananum.“

Nær hefði verið að hv. þingmenn stjórnarliða hefðu þorað að koma hér upp og ræða þessi ummæli formanns Samfylkingarinnar fremur en að standa hér og þvæla um einhverja eina setningu sem þeir slitu úr öllu samhengi. Þá hefðum við staðið hér og rætt þessi alvörumál sem skipta allan almenning gríðarlega miklu til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna að 17. nóvember sl. kom grein í Viðskiptablaðinu undir yfirskriftinni: Krónan er stressaður gjaldmiðill. Hún heldur áfram að vera viðkvæm fyrir fréttum. Þetta er fyrirsögnin á þeirri frétt. Í henni segir að sérfræðingar séu sammála um að veikingarhrinuna sem átti sér stað dagana á undan megi rekja til skýrslu Fitch Ratings frá því í vikunni þar á undan þar sem ítrekaðar voru neikvæðar horfur fyrir lánshæfismat ríkissjóðs og einnig að tilkynning Seðlabankans um erlenda lántöku hafi haft áhrif, enda túlkuðu erlendir aðilar þá aðgerð bankans sem ótta við yfirvofandi kreppu.

Virðulegi forseti. Við þurfum auðvitað að fara í gegnum heiðarlega umræðu um það hvort við viljum hafa svo stressaðan gjaldmiðil áfram í landinu, svo veikburða gjaldmiðil sem þolir ekki fréttir frá útlöndum eða skýrslugjöf frá útlöndum öðruvísi en að fara á mikið flug. Við búum í opnu hagkerfi og við viljum búa í opnu hagkerfi, staða íslensku krónunnar hefur veruleg áhrif á lífskjör fólksins í landinu og þess vegna verðum við að skoða þetta í alvöru.

Ég ætla ekkert að leyna því að ég hef verið stuðningsmaður þess og er stuðningsmaður þess að við göngum í Evrópusambandið, gerumst þar fullgildir aðilar og tökum upp evru sem gjaldmiðil. Ég tel að það gæti reynst okkur afar farsælt og mundi bæta lífskjör okkar. Fyrir því hafa verið færð veruleg rök og auk þess yrði mikill akkur í því fyrir viðskiptalífið. Enda er það staðreynd að þeir sem sitja uppi með krónuna í dag, þann gjaldmiðil, er almenningur í landinu og lítil og meðalstór fyrirtæki. Stóru fyrirtækin nota krónuna lítið í dag og eru farin að gera upp að miklu leyti til í erlendri mynt og flest í evru. Þetta er auðvitað eitthvað sem við verðum að taka inn í reikninginn og ég vona að farið verði að ræða hér fyrir alvöru.

Sem dæmi um þetta kom áhugaverð frétt snemma í haust, en þá var Viðskiptaráð með morgunfund þar sem þeirri spurningu var velt upp hvort krónan væri á útleið bakdyramegin og evran að koma í staðinn. Þeirri spurningu hefur verið ýtt úr vör að verulega miklu leyti til af atvinnulífinu því að atvinnulífið finnur hvað harkalegast fyrir því hversu erfitt er að halda uppi krónunni. Atvinnulífið hefur líka burði til að gera svo skýra grein fyrir afstöðu sinni í þessum efnum vegna þess að þar er um skipulagða starfsemi að ræða í þeim efnum, eins og hjá Viðskiptaráði sem velti þessu upp á morgunverðarfundi.

Í frétt af fundinum sem birtist í Fréttablaðinu 4. október síðastliðinn segir Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marels, sem er eitt af okkar stóru hátæknifyrirtækjum í útflutningi, að innan Actavis, Össurar og Marels hafi farið fram alvarleg umræða um skráningu hlutabréfa í evrum. Hann segir einnig mikilvægt að fyrirtæki sameinist um eina mynt komi til þess að þau leggi krónuna af til þess að viðskiptakostnaður verði ekki of mikill. Hann segir krónuna sífellt minni þátt í rekstri Marels og að á síðasta ári hafi 25% kostnaðar félagsins verið í krónum. Á næsta ári verði það 12% og 7% árið 2009. Í fréttinni er vitnað orðrétt í stjórnarformann Marels þar sem hann segir:

„Við horfum ekki lengur á krónuna sem hagstærð í okkar rekstri.“

Virðulegi forseti. Þetta er eitt fyrirtæki af mörgum sem svona er ástatt um og ef staðan er sú að fyrirtæki eru raunverulega að skila krónunni út bakdyramegin og taka upp aðra gjaldmiðla í rekstri sínum, þá verðum við auðvitað að skoða það og fara að ræða af fullri alvöru hvernig við ætlum að bregðast við því og hvar almenningur á að standa í því umhverfi.

Virðulegi forseti. Ég vil líka vitna í mjög góða grein sem kemur í 51. árgangi Fjármálatíðinda, seinna hefti árið 2004, þar sem Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabankans skrifar mjög góða grein sem ber yfirskriftina „Hagkvæmt gjaldmiðlasvæði. Hve smátt er of smátt?“ Þetta er mjög fróðleg grein og góð aflestrar fyrir okkur sem höfum áhuga á þessu og ég hvet sem flesta til þess að skoða hana. Þar kemur ýmislegt mjög áhugavert fram og m.a. að gjaldmiðlaóvissa sé líkleg til þess að draga úr utanríkisviðskiptum. Þar vitnar hann í nokkrar rannsóknir sem hafa verið gerðar og segir að þótt niðurstöður athugana séu nokkuð mismunandi þá sýni þær ótvírætt að sjálfstæður gjaldmiðill leiði til umtalsvert minni utanríkisviðskipta en ella. Þar segir líka að sjálfstæður gjaldmiðill virðist vera umtalsverð viðskiptahindrun með öllu því velferðartapi sem viðskiptahindranir hafi í för með sér.

Hvað Ísland áhræri, segir Arnór í greininni, þá hafi áhrif sjálfstæðs gjaldmiðils á utanríkisviðskipti verið könnuð og hann vitnar í niðurstöður rannsókna Þórarins Péturssonar og Francis Breedons frá árinu 2005 og segir að þær gefi til kynna að viðskipti Íslands við evrulöndin og við EMU-löndin kunni að aukast um 60% með aðild að EMU án þess að viðskipti við önnur ríki verði fyrir neikvæðum áhrifum. Við verðum að taka mark á niðurstöðum sem koma fram úr slíkum rannsóknum, að utanríkisviðskipti muni aukast allverulega, um allt að 60% eins og þarna kemur fram. Við verðum líka að skoða vísbendingar um að stóru fyrirtækin séu að hætta nota krónuna. Það er ábyrgðarhluti að ríkisstjórnin skuli ætla að sitja þegjandi á meðan þannig þróun á sér stað og staðreyndirnar liggja á borðinu, það er ábyrgðarhluti. Við í Samfylkingunni höfum ekki viljað sitja þegjandi og hljóðalaus á meðan slík þróun á sér stað og höfum viljað ræða þetta af fullri alvöru og teljum það, eins og ég kom inn á, ábyrgðarhluta að taka ekki þátt í þessari umræðu eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert.

Virðulegi forseti. Það kemur líka fram í fyrrnefndri ágætri grein Arnórs Sighvatssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, að útilokun á gengisóvissu mundi bæta skilyrði innlendra smáfyrirtækja til að stækka út fyrir markað smáríkisins og auðvelda erlendum fyrirtækjum að starfa innan þess. Þar vitnar hann í niðurstöður fræðimanna sem heita Frankel og Rose, sem virðast styðja þetta, en innan hagfræðinnar finnast sterk tengsl á milli gagnkvæmra viðskipta þjóða og samfylgni í hagsveiflu.

Í lokaorðum þessarar greinar kemur fram að sterk rök séu fyrir því að sjálfstæður gjaldmiðill feli í sér umtalsverða viðskiptahindrun og rannsóknir hafi leitt rök að að jafnvel smávægileg viðskiptahindrun geti haft töluverð áhrif á efnahagsleg sambönd og það sé almennt viðurkennt að viðskiptahindranir feli í sér mikið velferðartap. Þá segir hann í niðurlagi greinarinnar, og mér finnst mikilvægt að leggja við hlustir þegar slíkt er sagt, að það að leggja á eða viðhalda viðskiptahindrunum krefjist rækilegs rökstuðnings. Ég vil þess vegna varpa þeirri spurningu, virðulegi forseti, til hv. þingmanna stjórnarliðanna sem hér sitja hvernig þeir ætli að rökstyðja það að við höldum hér úti sjálfstæðum gjaldmiðli inn í óendanlega framtíð eins og ummæli þeirra og vinnubrögð hér virðast bera merki um að við munum gera, vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fara vel í gegnum þessa umræðu.

Ég hef komið inn á það að atvinnulífið er orðið ansi hávært í umræðunni um að taka upp evru og við vitum að evran verður ekki tekin upp nema það sé gengið að fullu inn í Evrópusambandið. Það er margvíslegur annar ávinningur af því auðvitað og við erum að sjálfsögðu, eins og ég hef áður komið inn á í þessum stól, mjög stórir aðilar að Evrópusambandinu — nema við höfum lítið um það að segja sem þar fer fram, við erum eins konar aukaaðilar. En verði gengið þar inn og evran tekin upp þá fylgja því margvíslegar kjarabætur fyrir bæði almenning og fyrirtæki.

Mér finnst líka mikilvægt að nefna t.d. það sem kemur fram í grein í Fréttablaðinu 26. apríl, þar segir Ingimundur Sigurpálsson, sem er formaður Samtaka atvinnulífsins, að full ástæða sé til að ræða Evrópusambandið og evruna af fullri yfirvegun. Í viðtali við formann Samtaka iðnaðarins frá 20. september kveður við svipaðan tón, þar segir að samtökin hafi lengi viljað stuðla að virkri umræðu um Evrópumálin. Ég vil spyrja hv. þingmenn stjórnarliða: Ætla þeir enn þá að sitja hjá á meðan þessir stóru aðilar, Verslunarráðið, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins fara í gegnum þessa umræðu eins og raunin er? Það getum við að sjálfsögðu ekki.

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það áðan að almenningur hefur auðvitað setið uppi með verðtrygginguna í fanginu og ég hef verið áhugamanneskja um að afnema verðtrygginguna en hins vegar yrði það mál sjálfleyst ef við gengjum í Evrópusambandið og tækjum upp evruna. Mér þykir áhugavert í því ljósi og ég vil kannski skilja það eftir hér að lokum, þó að ég gæti haldið lengri ræðu um kosti þess að við gengjum í Evrópusambandið, að á fundi Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja þann 27. apríl síðastliðinn kom mjög mikilvæg yfirlýsing fram í ræðu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, með leyfi forseta:

„Hreiðar Már segir ljóst að það stýritæki sem vaxtastýring Seðlabankans er sé ekki nægilega öflugt tæki í hagstjórninni. Hann telur að tvennt sé til ráða við núverandi aðstæður í hagkerfinu, að taka upp evruna með inngöngu í Evrópusambandið eða afnema verðtrygginguna.“

Virðulegi forseti. Þetta var sagt í apríl á fundi Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Það hefur ekki heyrst múkk frá ríkisstjórninni um það hver framtíðarsýn hennar sé í þessum efnum. Ég tel það vera ábyrgðarhluta vegna þess að umræðan um aðild okkar að Evrópusambandinu snýst fyrst og fremst um lífskjör. Hér hefur ríkt óstjórn í efnahagslífinu og það er staðreynd að íslenskt viðskiptalíf er afar viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áhrifum, eins og fram hefur komið í ræðu minni, það þolir ekki fréttir erlendis frá um skýrslugjöf. Þess vegna er það ábyrgðarhluti að horfa fram hjá þessu, þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir lífskjör í landinu, við verðum hluti af stærri heild, við verðum hluti af stærra myntsvæði og því fylgir meiri stöðugleiki. Við fáum lægri vexti, það er staðreynd, við getum afnumið verðtrygginguna, hún mun falla um sjálfa sig, og við fáum meiri stöðugleika í efnahagslífið. Og eins og ég kom inn á áðan þá hafa komið fram mjög sterk rök fyrir því og það hefur komið fram í niðurstöðum kannana og athugana og rannsókna fræðimanna að utanríkisviðskipti hér gætu aukist um allt að 60%. Þetta, virðulegi forseti, er eitthvað sem við verðum að taka fullt mark á og ég vona að þingheimur fari að hlusta á þetta en sitji ekki sofandi meðan atvinnulífið losar sig við krónuna þannig að íslenskur almenningur verði sá eini sem tekur upp krónu og greiðir af húsnæðislánum sínum eða fyrir mat en aðrir verði ekki hér í viðskiptum með krónu. Þetta tel ég mikilvægt, frú forseti, og fannst eiga erindi inn í þessa umræðu.