133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[21:28]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að stinga inn orði í þessa umræðu um fjárlagafrumvarpið og tengd frumvörp sem liggja fyrir þinginu líka til afgreiðslu varðandi tekjuöflun ríkisins og breytingar á skattheimtu. Fyrst vil ég víkja að því sem mér finnst stinga í augu eða vera kannski sérstaklega athyglisvert í fjárlagafrumvarpinu, hinni miklu lækkun skatta sem er að finna í þessu frumvarpi ásamt nýlegum frumvörpum um lækkun á virðisaukaskatti.

Lækkun á tekjuskattsprósentu og hækkun á persónuafslætti er talin kosta ríkissjóð um 12 milljarða kr. á næsta ári og lækkunin á virðisaukaskatti samtals svipaða fjárhæð, um 12 milljarða kr. Í þessum aðgerðum í heild er því um að ræða lækkun skatta upp á um 24–25 milljarða kr. Á móti þessu hefur verið gert ráð fyrir því að áfengisgjald verði hækkað um tæpa 4 milljarða kr. en nú hefur verið frestað að taka það til afgreiðslu þannig að ég veit svo sem ekki hver útkoman úr því verður, hvort áfram verður haldið með þau áform að áfengisgjaldið hækki til mótvægis við lækkunina á virðisaukaskatti eins og áformað var þannig að heildarkostnaður við lækkun matarskattsins yrði milli 8 og 9 milljarðar kr. Á meðan málið hefur verið sett í bið er lækkun skatta af þessari stærðargráðu, þ.e. 24–25 milljarðar kr.

Fyrri hlutinn af þessu máli, lækkun tekjuskatts, er hluti af stjórnarsáttmálanum, má segja síðasti hlutinn í þeim áformum sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um eftir síðustu alþingiskosningar, þ.e. að lækka tekjuskatt um 4 prósentustig. Lækkun á virðisaukaskatti, eða matarskatti sem kallaður er, er ekki hluti af stjórnarsáttmálanum og er því seinna til komið að ráðast í þá skattalækkun. Það var auðvitað vitað að Sjálfstæðisflokkurinn hefði mikinn áhuga á að ráðast í þessa skattalækkun en hún er ekki hluti af stjórnarsáttmálanum og er því til viðbótar við þær skattalækkanir sem um samdist í upphafi kjörtímabilsins.

Þó að niðurstaðan hafi orðið að ráðast í þessa lækkun á virðisaukaskatti neita ég því ekki að það er mín skoðun — og ég vil svo sem nota þetta tækifæri til að koma henni á framfæri — í ljósi ójafnvægis í efnahagsmálum að ekki sé skynsamlegt að ráðast í þessa aðgerð. Ég er ekki endilega að segja að ég sé andvígur því að ráðast í slíka aðgerð, hún hefur kosti, lækkar útgjöld til matarkaupa og lækkar neysluverðsvísitölu, hvort tveggja eru jákvæð áhrif, en á móti kemur að hún eykur á kaupmátt og eftirspurn og þenslu í þjóðfélaginu sem stjórnvöld eru að glíma við að ná tökum á. Hún vinnur því gegn því markmiði þeirra að ná niður verðbólgu og koma á jafnvægi í efnahagsmálum. Þessi aðgerð hefur bæði kosti og galla og á þessum tímapunkti, þegar við glímum við verulega verðbólgu, er ég ekki viss um að það sé skynsamlegt að ráðast í svona mikla skattalækkun til viðbótar við það sem um samdist. Reyndar má svo spyrja sig hvort menn telji skynsamlegt að setja þessa peninga út til lengri tíma í þessu formi fremur en að nota þá til ráðstöfunar í verkefni sem bíða og ég veit að margir vilja ráðast í, eins og úrbætur á kjörum ellilífeyrisþega. Ég vildi láta þessa skoðun mína koma fram. Þó að ég styðji frumvarpið sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og var samþykkt í þingflokki mínum að standa að breytir það því ekki að mér finnst eðlilegt að hér komi fram þau sjónarmið sem ég hef lýst þannig að menn viti af þeim og geti haft þau til umhugsunar.

Ég velti aðeins fyrir mér líka tekjuöflun ríkissjóðs til lengri tíma. Það er alveg ljóst að ef við skoðum skattheimtustigið eins og það er í gögnum sem fylgja með þessu fjárlagafrumvarpi er tekjuöflun ríkissjóðs komin niður undir 30% af landsframleiðslu. Það finnst mér nokkuð lágt hlutfall borið saman við vestræn velferðarþjóðfélög og við verðum að hafa augun á því að ef menn ganga of langt í að minnka tekjuöflun ríkissjóðs fylgir á móti að menn takmarka útgjöldin á móti tekjunum og draga þá úr tekjujöfnunaraðgerðum eða aukinni þjónustu sem ríkið annars mundi veita. Það að lækka tekjuskattsstigið svona mikið kallar á það að menn gera minna varðandi tekjujafnandi aðgerðir á milli þjóðfélagshópa í samfélaginu og minna í að bæta þjónustu einstakra hópa.

Auðvitað er þetta pólitískt val og einhvers staðar liggur jafnvægið. Það getur verið breytilegt eftir því hvaða stjórnmálaflokkum menn fylgja en mér finnst þetta skattheimtustig vera orðið verulega lágt og farið að líkjast meira því sem gerist í þjóðfélögum sem við höfum hingað til ekki miðað okkur við þegar við höfum ákvarðað þjónustustig eða tekjujöfnun á milli þjóðfélagshópa. Þess vegna leiðir þessi þróun að óbreyttu, haldi hún áfram til lengri tíma, til meiri ójafnaðar í þjóðfélaginu og hún leiðir til þess að ekki verða eins miklar framfarir í þjónustu til þjóðfélagshópa eins og aldraðra. Menn verða að vera meðvitaðir um að þegar gengið er svona langt í lækkun skatta fylgja því líka aðrar ákvarðanir og menn verða þá að vera meðvitaðir um það sem af því leiðir.

Ég neita því ekki að ég hallast frekar að því að vera með skattheimtuna meiri en gert er ráð fyrir miðað við fjárlagafrumvarpið núna og þjónustuna meiri við ákveðna þjóðfélagshópa. Að öðrum kosti verður þjónustan lakari eða þeir einstaklingar sem í hlut eiga verða að borga hærri hluta af þjónustunni úr eigin vasa. Þá koma upp þessi pólitísku álitamál og það verða skurðarpunktarnir í stjórnmálum á næstu árum ef þróunin heldur svona áfram.

Ég held líka að menn verði að skoða mjög alvarlega að auka tekjur ríkisins af auðlindum landsins og sjávarins. Við vitum að í burðarliðnum er frumvarp um nýtingu auðlinda landsins og vonandi verður það lagt fram á næstunni þannig að menn geti tekið það til umræðu á þessu þingi. Ég held að menn verði að huga miklu meira að því en verið hefur að ríkið hafi tekjur af nýtingu auðlindanna, hvort sem um er að ræða rennandi vatn til virkjunar eða jarðhita eða fiskimiðin sjálf.

Það liggur t.d. fyrir varðandi Kárahnjúkavirkjun að sú virkjun er ekki reist á þeirri forsendu að ríkið taki til sín auðlindagjald af auðlindinni sjálfri, þ.e. vatninu. Landeigendur þar hafa hins vegar gert kröfu um að fá í sinn hlut tiltekið afgjald fyrir nýtingu á vatninu. Það var ákaflega fróðleg grein um það í Morgunblaðinu í gær frá lögmanni landeigenda sem lýsti máli þeirra skýrt. Þar kom m.a. fram að landeigendur gera kröfu til þess að þessi réttindi, þessi auðlind, verði metin á um 60 milljarða kr. Þeir munu eiga um helminginn af þessum réttindum, miðað við skiptingu þessara eigna milli ríkisins og landeigenda, en hlutur þeirra mun vera minni ef kröfur þjóðlendunefndar ná fram að ganga. Þá fær ríkið heldur stærra hlutfall í sinn hlut, um 60%. Engu að síður er hlutur landeigenda mikill og verðmæti þessara réttinda er metið mjög hátt. Landeigendur gera kröfu til þess að fá til sín sem nemur, ef ég skildi greinina rétt, um 15% af árlegum tekjum virkjunarinnar og vísa m.a. til samnings sem Seyðisfjarðarkaupstaður gerði um nýtingu vatnsins í Fjarðará þar sem þau réttindi eru leigð til 50 ára og meðaltalsgreiðsla af þeim er um 7,7% á ári. Síðustu 30 ár þessa 50 ára samnings er greiðslan um 10%, og ef ég skildi greinina rétt mundu um 10% af brúttótekjum þessarar virkjunar sem má reisa í Fjarðará renna sem afgjald eða auðlindagjald til kaupstaðarins.

Þarna er alveg greinilega um að ræða mjög háar fjárhæðir. Ég er ekki með í kollinum hvað árlegar tekjur Kárahnjúkavirkjunar gætu verið miklar en þetta gætu verið 5–10 milljarðar kr. ef miðað er við 15% sem eigendur þessara réttinda tækju í sinn hlut fyrir það að leyfa að réttindin yrðu nýtt svona. Það er með öðrum orðum komin alveg ný hugsun inn í þessi mál frá því sem var fyrir nokkrum árum og ég viðurkenni að fyrir mitt leyti hafði ég ekki hugsað þessi mál þannig að það ætti að borga fjárhæðir af þessari stærðargráðu fyrir þessi afnot. Þróunin er greinilega í þessa áttina og ríkið á t.d. verulega mikið af þessum vatnsréttindum. Það hlýtur því að þróast í þá veruna að ríkið taki til sín tekjurnar af nýtingunni í gegnum þetta leigugjald fremur en að ríkið beiti sér fyrir því að reisa virkjanir og jafnvel að gera ívilnandi samninga við stórfyrirtæki til að fá þau til að reisa iðjuver sem nýta raforkuna. Ríkið telur ávinninginn af framkvæmdunum vera fólginn í umsvifunum í þjóðfélaginu sem aukast við þetta. Ég held að þessir hlutir séu að breytast verulega mikið og ég held að menn verði að líta eins á sjávarauðlindina.

Þar eru á ferðinni feiknarlega miklir peningar. Til dæmis kom fram bara núna í vikunni að meðalleiguverð á þorskkílói í smábátakerfinu hefði verið um 95 kr. á síðasta ári. Þá voru leigð um 20 þús. tonn af þorski eða sem því svarar þannig að miðað við þessar upplýsingar tóku handhafar réttindanna 2 milljarða kr. til sín í afgjald af þeim sem svo raunverulega nýttu réttindin. Það liggur fyrir að menn greiða eitthvað um 10 milljarða kr. í leigu fyrir nýtingu veiðiheimilda í stóra kerfinu, ef ekki meira, og síðan borga menn mjög háar fjárhæðir á hverju ári vegna kaupa á þessum réttindum. Ef við reynum að dreifa þessum kaupum á eitthvert tímabil, 10–15 ára tímabil, til að reyna að nálgast einhverja eðlilega árlega greiðslu vegna kaupanna og bætum svo þeirri fjárhæð við það sem greitt er vegna leigu mundi ég halda að árlega væru greiddir í leigu eða fyrir nýtingu á þessum réttindum a.m.k. 20 milljarðar kr. Þessir peningar renna til manna sem nýta ekki réttindin sjálfir, eru ekki eigendur þeirra, heldur notendur og hafa þau undir höndum til að nýta þau sjálfir. Vegna þess að lögin eru eins og þau eru geta þeir framselt réttindin til þriðja aðila, nýta þau ekki sjálfir en hafa af þeim tekjur eins og þeir ættu þau.

Þetta fyrirkomulag getur ekki gengið til lengdar að óbreyttu fyrirkomulagi í sjávarútvegi. Ég geri ekki ráð fyrir því að verð á veiðiheimildum eigi eftir að breytast mikið á næstu árum, það hefur hækkað mikið á síðustu árum, það tekur mið af því verði sem fæst fyrir afurðirnar á erlendum mörkuðum og meðan það stendur nokkurn veginn eins og það er, og jafnvel hækkar eins og hefur gerst á síðustu árum, er ekki við öðru að búast en að verðmæti veiðiheimildanna verði í þeim fjárhæðum sem það hefur verið og haldi jafnvel áfram að hækka eitthvað. Og þá verða menn að skoða löggjöfina út frá þeirri staðreynd að þarna eru orðin til mjög verðmæt réttindi sem ríkið á fyrir hönd þjóðarinnar en úthlutar endurgjaldslaust eða svo gott sem. Það gjald sem tekið er fyrir úthlutunina er mjög lágt, um króna á hvert kíló eða svo, þannig að það skiptir ekki máli í þessum fjárhæðum.

Ríkið verður að fara að huga að því að taka þessar tekjur til sín og eftirláta þær ekki þeim sem hafa á einhverjum tíma eða með einhverjum hætti fengið ótímabundin afnot af þessum réttindum. Þarna getur ríkið fengið í sinn hlut verulegar tekjur á hverju ári rétt eins og það getur haft af nýtingu vatnsaflsins. Ég held að það sé eitt mikilvægasta verkefnið á næstu árum, að koma á þessari nauðsynlegu lagabreytingu til að tryggja að hlutur almennings af auðlindunum komi í gegnum þessi nýtingargjöld.

Það geta verið töluverðar fjárhæðir eins og sjá má af þessu með sjávarútveginn og þeim kröfum sem fyrir liggja varðandi Kárahnjúkavirkjun ef við yfirfærum það svo á allar virkjanir landsins og þær sem síðar eiga eftir að koma. Ég held að töluverður hluti af tekjuöflun í framtíðinni muni færast yfir í þetta.

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst kannski vera stærsta verkefnið í fjárlögunum er að tryggja stöðugleika í þjóðfélaginu og í því felst að verðbólgu sé haldið lágri, að gengið sé stöðugt, vextir lágir og enginn viðskiptahalli, a.m.k. ekki viðskiptahalli til lengri tíma. Þetta eru einkenni stöðugleika ef við náum þessu fram. Á þessu ári hafa einkennin hins vegar verið öll á hinn veginn og lýst óstöðugleika í hagkerfinu, þetta mikla gengisfall á fyrri hluta ársins, mjög háir vextir, sérstaklega stýrivextir Seðlabankans, feiknarlegur viðskiptahalli og verðbólga sem er yfir 7%.

Þetta lýsir óstöðugleika sem stjórnvöld verða að reyna að ná tökum á og verða að nota fjárlagafrumvarpið sem megintæki til þess. Þess vegna held að efnahagslega sé það eitt stærsta verkefni fjárlaga og skyldra aðgerða að ná stöðugleika í þjóðfélaginu. Stöðugleikinn skiptir miklu máli. Hann er kjarabót í sjálfu sér fyrir almenning. Sem dæmi um óstöðugleika má nefna að viðskiptajöfnuðurinn á fjórum árum, frá 2005 til 2008, verður nær helmingur af landsframleiðslu eins árs. Það er náttúrlega viðskiptahalli af þeirri stærðargráðu að algjörlega er fátítt í vestrænu hagkerfi. Hann er skýranlegur og á sér sínar ástæður, eins og m.a. í miklum framkvæmdum við Kárahnjúka og álveri á Reyðarfirði. Það breytir því þó ekki að hann er mikill og hann hefur afleiðingar.

Þess vegna verða menn að gæta sín í efnahagsstjórninni þegar þeir ráðast í svona stórar framkvæmdir. Mig minnir að ég hafi séð einhvers staðar í skýrslu frá Seðlabankanum að þessi aðgerð, Kárahnjúkavirkjun og bygging álvers í Reyðarfirði, væri um fjórðungur af landsframleiðslu eins árs og að ekki væru dæmi um það, a.m.k. ekki í Evrópu, að ein framkvæmd hefði verið svona stór hluti af efnahag heillar þjóðar.

Þegar menn velja að ráðast í svona stóra aðgerð verða þeir að gæta þess að annað sé temprað á meðan og að menn ráðist ekki í aðrar stórar aðgerðir í beinu framhaldi á stuttum tíma. Ella viðhalda menn óstöðugleikanum.

Óstöðugleikinn kostar peninga vegna þess að honum fylgir verðbólga og verðbólgan hækkar skuldir heimilanna. Háum stýrivöxtum fylgja háir vextir fyrir almenning sem þýðir aukinn kostnað af skuldunum fyrir almenning. Það að ekki hefur tekist að halda því markmiði að verðbólgan sé ekki nema um 2,5% á ári síðustu ár kostar almenning töluvert mikla peninga. Skuldirnar eru um 8% hærri en þær væru ef verðbólgan hefði haldist við 2,5% markið sem menn settu sér. Núna t.d. á þessu ári er verðbólgan yfir 7%.

Skuldir heimilanna eru eitthvað um 1.100 milljarðar kr. eða meira og það má ætla að skuldirnar vegna verðbólgunnar og verðtryggingarinnar séu um 80–10 milljörðum kr. hærri en þær væru ef stöðugleiki hefði verið. Þetta er kostnaður almennings af óstöðugleikanum.

Þessar skuldir kosta peninga og miðað við raunvexti, segjum 6% sem bætast ofan á 7% verðbólgu, borga menn um 13% af þessum skuldum á þessu ári og það kostar um 10 milljarða kr. eða svo, 10–13 milljarða kr. eftir því hvort menn miða við 80 eða 100 milljarða kr. skuldahækkun vegna hærri verðbólgu.

Þetta kostar verulega peninga. Menn þurfa að ná þessum skuldum niður og nauðsynlegt væri að nota verðtrygginguna til að lækka skuldirnar aftur. Það þekkja menn að þegar verðbólgan hefur hækkað skuldirnar lækka þær ekkert jafnvel þótt verðbólgan lækki svo. Skuldirnar bara hækka hægar en var áður. Hækkunarkúfurinn sem kom með verðbólguskoti eins og á þessu ári stendur eftir sem hærri skuldir. Þetta er kostnaður sem leggst á almenning og reyndar líka fyrirtæki í landinu og er tilfinnanlegur, kostar mikla peninga. Þess vegna skiptir miklu máli að mönnum takist að stýra efnahagsmálunum þannig að menn sigli fram hjá verðbólguskoti af þessu tagi.

Ég vil líka, virðulegi forseti, úr því að ég er farinn að minnast aðeins á skuldir heimilanna og kostnaðinn við þær, minna á að íslenskt fjármálakerfi er eitt það allra dýrasta sem ég veit um í vestrænu hagkerfi. Fyrir þeirri fullyrðingu liggja skýrslur sem staðfesta þetta, t.d. skýrslan sem Neytendasamtökin birtu, á þessu ári ef ég man rétt, fremur en á síðasta ári, þar sem bornir voru saman raunvextir hér á landi miðað við níu önnur Evrópulönd. Það leiddi til þeirrar niðurstöðu að raunvextir hér á landi voru 2–5 prósentustigum hærri en í þessum löndum, eftir því við hvaða lönd var miðað.

Hluti af þessum vanda er auðvitað verðtryggingin sjálf. Eins og hún var nauðsynleg á sínum tíma þegar hún var tekin upp, og óhjákvæmilegt að gera það á sínum tíma, er hún núna farin að vera fóður fyrir skuldahækkun vegna sjálfvirkninnar sem hún býr til sem gerir það að verkum að þeir sem lána peningana, sem fyrst og fremst eru bankarnir, eru algjörlega öruggir með sinn hag og fá meira fyrir útlánspeningana en ella væri ef þeir byggju ekki við það öryggi sem felst í verðtryggingunni.

Ég held að verðtryggingin sjálf sé farin að vera vandamál, sérstaklega í ljósi þess að skuldirnar hafa vaxið mikið frá því sem var þegar verðtryggingin var tekin upp 1979. Núna eru t.d. skuldir heimilanna komnar yfir tvöfaldar ráðstöfunartekjur heimilanna. Þá verða menn að horfa á það í því ljósi sem er allt annað en var fyrir tæpum 40 árum.

Það hefur líka leitt til þess að bankarnir virðast ekki keppa neitt innbyrðis um viðskiptavinina, um almenning, og leggja sig ekkert fram um að bjóða mönnum betri kjör til að fá viðskiptin. Í raun og veru þyrfti að fá einhvern aðila til að opna samkeppni við erlendar fjármálastofnanir. Svo virðist sem þær sjái sér ekki hag í því að hefja starfsemi hér á landi og keppa við innlendu bankana.

Bara þessi skýrsla sem leiðir í ljós að íslenskir neytendur borga þetta meira fyrir skuldirnar sínar, 2–5 prósentustig á ári, segir okkur að það kostar íslenska lántakendur, íslenskan almenning, um 20–50 milljarða á hverju einasta ári. Íslenskur almenningur borgar meira sem þessu nemur á hverju ári fyrir fjármagnið sem hann tekur að láni en hann mundi gera í þeim níu Evrópulöndum sem tekin voru til viðmiðunar. Það má benda á fleiri skýrslur sem leiða sams konar niðurstöðu í ljós.

Eitt af stóru verkefnunum í stjórnmálunum er að lækka fjármagnskostnað hér á landi og gera hann a.m.k. sambærilegan við það sem gerist erlendis.

Auðvitað ættu íslensku bankarnir að geta boðið Íslendingum þessi kjör. Erlendis, t.d. í Danmörku eða annars staðar þar sem þeir hafa haslað sér völl, hafa þeir boðið fólki peningana að láni á þeim kjörum sem eru þetta lægri vextir en þeir bjóða fólki hér á landi.

Ég vildi aðeins minna á þetta atriði, hvað fjármagnskostnaðurinn hér á landi er mikill baggi á íslenskum neytendum miðað við það sem annars væri erlendis.

Þarna er um að ræða tugi milljarða kr. á hverju ári sem leggjast á almenning og eru miklu hærri fjárhæðir en ríkið leggur út með þessum skattalækkunum núna. Það má eiginlega segja með svolitlum rökum að ríkið lækki sína skatta og geri bönkunum kleift að taka þessa peninga til sín í formi hás endurgjalds fyrir lánsfé.

Ég held að það væri verðugt verkefni stjórnmálamanna að tryggja að skattalækkun sem menn hafa ákveðið að gera og hrint í framkvæmd lendi þar sem hún á að vera, hjá einstaklingunum, hjá almenningi, en ekki í vösunum á bönkunum. Hið sama má segja um virðisaukaskattslækkunina sem áformuð er á matvælum. Það þarf auðvitað að tryggja að hún lendi hjá neytendum en ekki hjá þeim sem selja vöruna. Það er veiki hlutinn í þeirri aðgerð sem er hluti af þessum fjárlögum. Reynsla erlendis segir okkur að ef ekki kemur til ný samkeppni um sölu á þessum vörum sé hætta á því að vörurnar lækki ekki í verði af þeirri einföldu ástæðu að verðmyndun í kapítalísku markaðshagkerfi ræðst ekki af framleiðslukostnaði heldur kaupgetu almennings. Þegar kaupmátturinn vex frekar en ekki er engin ástæða fyrir þá sem selja vöruna til að lækka verðið á henni, það er bara þannig.

Þetta er mikið áhyggjuefni sem ég held að menn þurfi að skoða mjög vandlega í þinglegri meðferð þessa máls um lækkun virðisaukaskatts á matvöru, því að það er ekki tilgangurinn að neytendur fái ekki nema hluta af lækkuninni í sinn vasa en hinn hlutinn lendi hjá þeim sem selja vöruna. Það er því margt að varast í þeim efnum, það eru mörg brýn verkefni sem fram undan eru varðandi ríkisfjármálin og efnahagsmál og fyrst og síðast er það auðvitað stöðugleikinn sem menn þurfa að ná fram því að það er grundvöllur að árangri á öðrum sviðum. Óstöðugleikinn er gróðrarstía fyrir verðhækkanir á vörum og öðru slíku þannig að það eru aðstæður sem gera mönnum erfitt fyrir að ná pólitískum markmiðum.

Virðulegi forseti. Ég vil víkja að einu máli í lokin en sem eru samgöngumál, ekki með almennum hætti, ég ætla ekki að fara yfir þau í heild sinni eins og út af fyrir sig væri ástæða til að gera en það hafa aðrir gert og ég sé ekki ástæðu til að blanda mér mikið inn í það, ég vil aðeins víkja að litlum hluta eða litlu máli sem tengist því.

Í fyrsta lagi geri ég athugasemdir við að framlög til vegamála á næsta ári eru skorin niður um 5,5 milljarða, samkvæmt upplýsingum í frumvarpinu, sem á að vera framlag til að ná tökum á efnahagsástandinu, draga úr þenslunni, ná jafnvægi. Á sama tíma er verið að lækka skatta um fjórum sinni hærri fjárhæð og eftir að fjárlög eru lögð fram er tekin ákvörðun um lækkun virðisaukaskatts á matvæli fyrir tvöfalt hærri fjárhæð en nemur niðurskurði á vegamálum. Það segir sig sjálft að ef menn telja að árangur náist með samdrætti í fjárfestingum ríkisins um 5,5 milljarða, sem fyrst og fremst er í vegaframkvæmdum, til þess að koma á jöfnuði og lækka verðbólgu þá vinnur 12 milljarða kr. skattalækkunin á móti því og ríflega það. Ég fæ það því ekki til að ganga upp að menn geti ráðist í þá framkvæmd, skattalækkunina, án þess að það komi við það markmið að ná fram stöðugleika.

Telji menn hins vegar að eftir sem áður náist ásættanlegur árangur í efnahagsmálum þrátt fyrir skattalækkun upp á 12 milljarða þá spyr ég: Er einhver þörf á því að vera að skera niður vegaframkvæmdir um 5,5 milljarða? Ég fæ þetta tvennt ekki til að ganga upp, þetta verður að skýra þannig að maður átti sig á því hvernig þetta getur farið heim og saman. Þá er ég í sjálfu sér ekkert að tala gegn framkvæmdunum sem slíkum, ég er bara að tala um þetta út frá efnahagslegum sjónarhóli.

Svo vil ég líka gera athugasemdir við að það er verið að setja fé til þess að auka vegaframkvæmdir á næsta ári fram hjá þessum samdrætti um 5,5 milljarða, ekki í fjárlögin 2007 heldur í fjáraukalögin 2006, það eru settar 1.000 millj. kr. í vegaframkvæmdir sem á ekki að nota fyrr en á næsta ári, 2007. Ég sé ekki betur en verið sé að fara krókaleið fram hjá pólitískum markmiðum sem menn hafa sett sér til þess að þurfa ekki að breyta þeim en mér finnst það ekki eðlilegt. Mér finnst ekki eðlilegt að menn segi í öðru orðinu að þeir ætli að draga saman framkvæmdir um 5,5 milljarða og láti það bitna á tilteknum framkvæmdum og svo í hinu orðinu bæti við einum milljarði í nýjar framkvæmdir á sama ári. Ég get ekki skrifað upp á svona skollaleik, virðulegi forseti, því að þetta er ekkert annað en skollaleikur. Að mínu mati er heldur ekki rétt að fara þannig með fé, þ.e. að það fé sem á að vera í fjárlögum ríkisins fyrir árið 2007, vegna þess að það er til framkvæmda á því ári, að setja það í fjáraukalög á árinu 2006 þegar fyrir liggur að það á ekki að nota það fyrr en 2007. Ég er bara að gera athugasemdir við svoleiðis sjónhverfingar. (Gripið fram í: Það er bara lögleysa.) Það má vera að það sé lögleysa, ég hef ekki sett mig inn í það, en a.m.k. tel ég ekki eðlilegt að standa svona að málum.

Ef menn vilja auka vegaframkvæmdir um einn milljarð á árinu 2007 þá eiga menn að setja það inn í fjárlagafrumvarpið og minnka niðurskurðinn úr 5,5 niður í 4,5. Það væri þá bara markmið sem menn settu sér og ætti að koma skýrt fram en það á ekki að vera að fara svona krókaleiðir sem mér finnst vera til þess að blekkja menn og fela það sem raunverulega er verið að gera. Ég vil ekki taka þátt í því, ég skrifa ekkert upp á þann feluleik.

Út af þessum framkvæmdum vil ég líka segja að þó að ég hafi fullan skilning á því að taka upp nýjar framkvæmdir og ég hef út af fyrir sig efasemdir um að það sé nauðsynlegt að vera í þessum niðurskurði á næsta ári, en að því gefnu og að maður taki það trúanlegt að skattalækkunin upp á 25 milljarða kr. raski ekki efnahagslegum stöðugleika svo að menn nái ekki þeim markmiðum sem menn setja sér, þá sé ég ekki rökin fyrir því yfir höfuð að vera að standa í slíkum niðurskurði á vegaframkvæmdum á næsta ári. Mér finnst ekki geta farið saman að menn flytji hér frumvarp og segi um tilteknar framkvæmdir: Við skulum fresta þessum framkvæmdum á árinu 2007, gera minna en áætlað er og færa það yfir á seinni ár eða 2008, en koma svo með nýjar framkvæmdir á árinu 2007 og segja, við skulum vinna þær á árinu 2007 fyrir tvöfalt hærri fjárhæð en því sem frestun nemur. Ég fæ það ekki til þess að ganga upp að menn geti í raun og veru farið fram með tillöguflutning af þessu tagi.

Ég er auðvitað að tala hér um þá tillögu sem fyrir liggur í lagafrumvarpi um að seinka framkvæmdum við vegagerð á Vestfjörðum og norðausturhorni landsins, við Arnkötludal og við Hófaskarðsleið. Að seinka framkvæmdum næsta árs á Arnkötludal, draga úr þeim þannig að það verði ekki unnið fyrir 400 milljónir heldur aðeins fyrir 200 milljónir, í stað þess að vinna tæplega helminginn af verkinu árið 2007 fyrir 400 milljónir af 900, þá verði bara unnið fyrir 200 milljónir af 900. Það er samdráttur um helming. Við Hófaskarð er gert ráð fyrir að lækka framkvæmdirnar um 300 millj. kr. en þar er um að ræða fé bæði úr sérstökum lögum um ráðstöfun símapeninganna og af vegáætlun. Það er lagt til að flytja símapeningana, sem eru 300 milljónir á næsta ári, yfir á árið 2008, þannig að það þýðir auðvitað að menn vinna minna á næsta ári sem því nemur.

Ég get ekki fallist á að styðja slíkar aðgerðir þegar mönnum finnst líka, eins og ríkisstjórninni, hægt að leggja til að taka inn tvær nýjar framkvæmdir við Vesturlandsveg og Suðurlandsveg á næsta ári, 500 milljónir á hvorum stað. Það er ekki einu sinni búið að ákveða hvað á að gera fyrir peningana. Það er þó líklegt, miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið, að á Vesturlandsvegi verði peningarnir notaðir í að gera hringtorg upp í Mosfellsbæ við afleggjarann til Þingvalla. Og það er líklegt að á Suðurlandsvegi verði peningarnir notaðir í samræmi við áform um framkvæmdir um 2+1 og að setja vegrið á milli akreina.

Gott og vel, hvor tveggja framkvæmdin er þörf og ekki ætla ég að leggjast gegn þeim, en það eru framkvæmdirnar fyrir vestan og fyrir norðan líka. Samgönguráðherra hefur ekki veitt Vegagerðinni heimild til að bjóða út Arnkötludal. Það var gert ráð fyrir að bjóða þá framkvæmd út á þessu ári, það hefði verið hægt að gera það um mitt ár, það var hægur vandi ef menn hefðu viljað hafa útboðsgögnin til. En í sumar ákvað ríkisstjórnin að stöðva öll útboð, ekki bara þar heldur líka annars staðar, aflétti því í byrjun október eins og við þekkjum og kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra, en því virðist ekki hafa verið aflétt af Arnkötludal. Vegagerðin hefur ekki heimild til að bjóða þá framkvæmd út á þessu ári. Hvað á svona skollaleikur að þýða, virðulegi forseti? Ég vil láta koma fram óánægju mína með þetta hringl og blekkingaleik, því að það er ekkert annað en blekkingaleikur að vera að taka tilteknar framkvæmdir út úr og fresta þeim og skjóta inn nýjum framkvæmdum á sama tíma og láta það heita eitthvað annað, umferðaröryggismál er það látið heita hér á höfuðborgarsvæðinu en auðvitað er hitt líka umferðaröryggismál. Vegir í Strandasýslu eru nú ekki allir upp á marga fiska því miður og menn geta flett upp fréttum fyrr á þessu ári um það sem gerðist á leiðinni frá Brú til Hólmavíkur, t.d. í Bitrufirði ultu flutningabílar með farm vegna þess að vegurinn er mjór og ekki vel gerður og vegkanturinn gaf sig. Það er auðvitað öryggismál að koma upp nýjum vegi eða öðrum vegi sem ber þá umferð sem um veginn þarf að fara, það er líka umferðaröryggismál og ég geri kröfu til þess að þessar framkvæmdir haldi áfram á þeim hraða sem ákveðið var á síðasta ári með lögum um ráðstöfun söluhagnaðar af Landssíma Íslands. Ég vil að sjónarmið mitt komi fram við þessa umræðu varðandi þau mál, að það liggi fyrir algerlega skýrt og ljóst að ég mun ekki styðja seinkun á framkvæmdum fyrir vestan og norðan eins og gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpinu. Ég vil að það komi hér fram, að mönnum sé þetta ljóst og af hverju ég geri þessar athugasemdir.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hægt að nefna margt í fjárlagaumræðunni og menn hafa líka bent á margt, t.d. formaður fjárlaganefndar, með réttu, um það sem vel hefur tekist til. Til dæmis er ánægjulegt að sjá að persónuafsláttur er hækkaður í frumvarpinu, það er ekki bara að skattprósentan sé lækkuð um 1% heldur er persónuafslátturinn sjálfur hækkaður í krónutölu sem ég er miklu meira fylgjandi að gera en að lækka skatta með því að lækka skattprósentu, vegna þess að það dreifir skattalækkuninni meira, jafnar eftir tekjuhópum, það bætir kaupmátt lágtekjumanna eða þeirra sem hafa lítið, meira en prósentulækkunin mundi gera. Ég held að það hefði verið skynsamlegra ef menn hefðu farið þá leið í skattalækkunum undanfarinna ára í meira mæli að hækka skattleysismörk og í minna mæli að lækka skattprósentu en þetta varð niðurstaðan á milli stjórnarflokkanna á sínum tíma og að því hef ég auðvitað staðið þó svo að það þurfi ekki að þýða að það sé nákvæmlega eins og maður vildi hafa það. Ég vildi því einmitt nefna þetta atriði til þess að sjónarmið mitt í þeim efnum kæmi fram.