133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[22:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Fjárlagafrumvarpið er nú til 3. umr. Ég fór í fyrri ræðu minni í dag yfir ákveðna þætti varðandi frumvarpið. Sérstaklega þá þætti sem hafa lotið að tillöguflutningi okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, um að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna í 70 þús. kr. á mánuði þann 1. janúar næstkomandi. Tillaga um 75 þús. kr. á mánuði var felld af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.

Þess vegna flytjum við aftur tillögu um 70 þús. kr. á mánuði í frítekjumark vegna atvinnutekna. Einnig flytjum við tillögu um að Framkvæmdasjóði aldraðra verði skilað þeim peningum sem innheimtir hafa verið í hans nafni af hálfu ríkisins á undanförnum árum, sem nemur 5 milljörðum kr. Að þeim verði skilað í Framkvæmdasjóðs aldraðra til þeirra verkefna sem honum var ætlað að sinna.

Virðulegi forseti. Það er bæði rétt og skylt að fjalla um störf fjárlaganefndar. Ég hef áður, bæði í ræðu minni í dag og við 1. og 2. umr. um fjárlög og fjáraukalög, gert grein fyrir því hvernig ég tel að vinna eigi að fjárlögunum. Vinna eigi að þeim á allt annan hátt en nú ert gert. Þetta eiga að vera fjárlög fyrst og fremst á ábyrgð þingsins, en það sem við nú erum að setja fram eru fyrst og fremst ráðherrafjárlög. Það eru fjárlög á vegum ráðherranna og framkvæmdarvaldsins og síðan er það þá meira svona gustukavinna fjárlaganefndar og Alþingis að afgreiða þau og leiðrétta einstaka þætti. Þetta ætti að vera öfugt. Eðlilegra væri að framkvæmdarvaldið setti fram fjárlagaramma á áherslur sínar og rútínubundin verkefni en síðan allt sem lyti að hinni pólitísku ábyrgð fjárlaganna ætti að vinnast af hálfu fjárlaganefndar og Alþingis og sú vinna ætti að hefjast miklu fyrr, ekki bara fara fram á haustmánuðum.

En varðandi annað sem rétt er að víkja að. Um samstarf og samvinnu innan fjárlaganefndar, að því marki sem meiri hluti og minni hluti hefur haft samstarf, er allt gott að segja. Í raun er það nú svo að í nefndinni er oft samhljómur um afstöðu og áherslur til einstakra verkefna þó svo að leiðir skilji síðan, oft í mörgum tilvikum þegar til kastanna kemur, milli meiri hluta og minni hluta.

En þó eru eðlilega allmargar tillögur sem hafa komið inn í fjárlagafrumvarpið, bæði við undirbúning 2. umr. og eins núna við 3. umr., sem hefur verið unnið að sameiginlega af þingmönnum, bæði í fjárlaganefnd og líka í einstökum undirnefndum þingsins öðrum, sem hafa fengið ákveðna þætti til meðferðar og meðhöndlunar. Margt af því sem kemur síðan fram í fjárlagafrumvarpinu til 2. umr. og leiðréttingar á mörgum liðum hafa verið sameiginleg áhersluatriði allra þingmanna meira og minna. Ég vildi bara láta þetta koma fram.

Að sjálfsögðu er góð samstaða um fjölda marga þætti í fjárlagagerðinni, annað væri það nú. Mörg af þeim atriðum sem hafa komið fram höfum við þingmenn stjórnarandstöðunnar, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, stutt í nefndum og tekið fullan þátt í að undirbúa.

Varðandi það hvernig vinnan hefur gengið fyrir sig þá hefur hún verið í góðu samkomulagi við formann og varaformann fjárlaganefndar í mörgum atriðum. Eins og ég sagði áðan hafa í sjálfu sér áherslur og ábendingar innan nefndarinnar gagnvart einstökum málaflokkum oft farið saman þó svo að leiðir hafi því miður stundum skilið við endanlega afgreiðslu og áherslurnar þá ekki gengið að fullu upp.

Ég vil t.d. nefna sérstaklega í því sem hér er verið að bæta við og leiðrétta, þá er tillaga um 5 millj. kr. framlag til vettvangsrannsókna á Hólum í Hjaltadal, sem er samstarfsverkefni Hólaskóla og reyndar byggðasafnsins og sveitarfélagsins og fleiri aðila sem hafa komið að fornleifarannsóknum í Skagafirði og ekki síst á Hólum og hafa einmitt orðið uppsprettan að því að tekið hefur verið upp nám á ábyrgð skólans í samstarfi við þessa aðila og einnig Háskóla Íslands í fornleifafræði. Þar hafa verið námskeið og skilgreindir námsáfangar bæði að námi við Hólaskóla og einnig við Háskóla Íslands. Einnig hefur þetta tengst uppbyggingu skólans í starfi að ferðamálum og verið mikill styrkur fyrir söfnin og safnastarfið og hina menningartengdu ferðaþjónustu í Skagafirði.

Þetta var einmitt áherslumál af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúa þeirra í sveitarstjórn, að koma þessu samstarfi á og einmitt að geta ráðið í fasta stöðu fornleifafræðing sem starfaði jafnt með Hólaskóla í rannsóknum og í kennslu og einnig með söfnunum í Skagafirði að tilsvarandi málum.

Ég hef því sérstakt tilefni til að fagna því að þetta skuli þarna vera komið og að góð samstaða hafi ríkt í fjárlaganefnd um að þetta verkefni kæmist á. Ég vil því fagna sérstaklega stuðningi við háskólanám í fornleifafræði og því sem henni tengist við Hólaskóla.

Önnur atriði eru tínd til og eðlileg, 12 millj. kr. framlag vegna neyðarástands sem skapast hefur við Jökulsá á Fjöllum vegna stíflna þar. Alveg sjálfsagt að bregðast við og eðlilegt í alla staði. Fleiri atriði mætti nefna, þó þau séu ekki mörg sem koma inn við leiðréttingar á 3. umr. sem eru á allan hátt eðlileg.

Ég vildi bara geta þessa hér, herra forseti, því oft er maður nú harðari í gagnrýninni og gefur þá minna rúm fyrir það sem gott samkomulag er um og aðilar hafa unnið að sameiginlega, sem oft fer ekki svo hátt um á yfirborðinu þegar málin koma hingað inn í þingið. En svona er þetta oft og tíðum. Ég vil sem sagt þakka fyrir gott samstarf hvað þetta varðar allt saman í fjárlaganefnd og formanni og varaformanni fyrir samstarfið hvað þessum öllum atriðum viðvíkur.

Þau atriði sem ég ætlaði annars að minnast á og hef ekki gert áður er sala á eignum. Sérstaklega sala á jörðum. Mér telst til að samtals hafi verið leitað heimilda fyrir sölu á jörðum og jarðapörtum, bæði í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár og einnig á fjáraukalögum þessa árs, fyrir samtals um 65 jarðir og jarðaparta. Ég set mikla fyrirvara við slíkt ráðslag. Það er nú svo að miklir óvissutímar eru hvað varðar jarðamál í landinu. Það er viðurkennt að eitt stærsta vandamál nú sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir er uppkaup á jörðum og það að jarðir og lönd séu tekin úr landbúnaðarnotum alveg án þess að það sé skilgreint nokkuð fyrir fram hvort svo megi verða eða ekki.

Því miður voru fyrir tveimur árum samþykkt ný jarðalög sem hleyptu þessum málum öllum meira og minna í uppnám. Gerðar voru mun minni kvaðir til jarðakaupenda og möguleikar sveitarfélaga eða annarra slíkra aðila til að ganga inn í kaup á jörðum sem voru til sölu voru nánast að engu gerðir með hinum nýju jarðalögum. Til viðbótar þessu er jarðnæðið margt orðið of dýrt til að reka á því landbúnað.

Ég og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt frumvörp ítrekað á Alþingi, bæði nú í vetur og einnig á síðasta þingi þar sem að við leggjum til breytingar á þeim lögum. Við leggjum til að það mál verði allt endurskoðað á ný til að reyna að koma í veg fyrir að allt jarðnæði eða stór hluti jarða í landinu safnist á örfárra manna hendur og fari auk þess út úr landbúnaðarnotum.

Ég var á fundi á vegum Bændasamtakanna fyrir nokkrum dögum þar sem yfirskriftin var Landbúnaður á Íslandi, yfirskrift sem mér þótti nú vera býsna fjarlæg og vera svolítið groddaleg. En þar sögðu menn í alvöru að héldi áfram sama þróun og nú er gætum við staðið frammi fyrir því að landbúnaður á Íslandi mundi sem slíkur, stór atvinnuvegur, heyra sögunni til innan skamms ef færi fram sem horfir.

Það var mjög athyglisvert að heyra erindi frá Íslendingi, Valdimari Einarssyni, sem er bóndasonur vestan úr Dölum, frá Lambeyrum í Laxárdal. Hann hefur dvalið um alllangt skeið, í allmörg ár á Nýja-Sjálandi, fyrst sem ráðunautur þar við landbúnað og seinna sem einn af stjórnendum í bankastarfsemi þar sem snýr einmitt að landbúnaðinum. Hann varaði mjög ákveðið við þeirri þróun sem við nú stæðum frammi fyrir, þ.e. að hægt væri að kaupa land upp og úr landbúnaðarnotum. Hann sagði að í Nýja-Sjálandi mundi þetta aldrei geta gerst. Þar eru mjög strangar reglur um landeigendur. Mjög skýrar kvaðir eru á landeigendur um hvernig má fara með landið, og ef almannaheill eða búgreinin krefst þess verður að leyfa nýtingu á landinu, t.d. til beitar. Það mundi engum detta í hug að taka þann rétt af að nýta til beitar eða til landbúnaðarframleiðslu, þó svo eignarhaldið gæti verið í höndum annars sem ekki er við þann atvinnuveg. Reglurnar t.d. í Danmörku eru þær að þeim sem kaupa jarðir er skylt að búa á jörðunum, þar er búsetuskylda.

Herra forseti. Í ágætri samantekt í Morgunblaðinu 30. ágúst síðastliðinn fer Hjálmar Jónsson blaðamaður mjög ítarlega í gegnum þetta, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Mun strangari reglur gilda um eignarhald og viðskipti með jarðir í Noregi og Danmörku en hér á landi eftir þær breytingar sem gerðar voru á jarðalögum og tóku gildi árið 2004. Samkvæmt gildandi lögum í Noregi eru viðskipti með jarðir til dæmis háð samþykki sveitarfélags, en hliðstætt ákvæði var numið úr lögum hér, auk þess sem skylt er að búa á jörðinni um tiltekinn tíma. Sambærileg regla um búskyldu er í gildi í Danmörku og þar getur einstaklingur ekki átt fleiri en fjórar jarðir.“

Fram kemur í greininni að sami jarðeigandi eigi nú tugi jarða. Ekki er vitað nákvæmlega hversu margar jarðir það eru sem hver lögaðili á en þær safnast hratt upp á fárra manna hendur. Auk þess eru heldur engar hömlur á því að erlendir aðilar geti keypt upp landið, heila firði og fjöll og er það þegar komið í gang að erlendir aðilar eiga hér umtalsverðar jarðeignir.

Þetta er almennt ekki heimilt í nágrannalöndum okkar. Almennt í löndum í heiminum eru mjög strangar reglur gerðar til eignarhalds og meðferðar á landi. Lagðar eru miklar kvaðir á þá sem eiga land. Því land er í sjálfu sér ekki eign neins annars en framtíðarinnar. Við höfum bara afnotarétt af landinu meðan við erum á þessari jörð, en það er framtíðin sem á landið. Þess vegna ber okkur skylda til þess að fara með landið út frá þeim hagsmunum.

Það er alveg eins og Tómas Guðmundsson, skáldið góða, sagði um Hótel Jörð, við erum gestir og hótel okkar er jörðin. Ætli við viljum ekki skilja þokkalega við hótelið, herbergið okkar, þegar við yfirgefum hótelið þannig að næsti aðili geti komið þar með sómasamlegum hætti inn?

Slíkur andi og þær reglur eru ekki í hinum nýju jarðalögum. Því var meira að segja stungið út að ríkið yrði að hafa samráð við sveitarfélögin áður en það seldi jarðir, sem það hafði fengið heimild til að bjóða til sölu. Ríkið getur því selt þær alveg á frjálsum markaði hvað það varðar. Einu takmörkin eru þau að ef ábúandi hefur búið á jörðinni einhvern tiltekinn árafjölda hefur hann vissan forkaupsrétt að jörðinni. En þó voru þau ákvæði einnig skert verulega við síðustu jarðalög og heimildir ríkisins líka til að halda undan jarðapörtum og ýmsum verðmætum eignum á jörðunum, heimilt var að halda þeim undan þó væri um slíka sölu að ræða.

Þess vegna hlýtur maður að staldra við þegar óskað er eftir heimildum af hálfu ríkisins til að selja samtals á þessu ári, bæði í fjárlögum og fjáraukalögum, 65 jarðir og jarðaparta. Ég taldi það saman.

Væri ekki nær að ríkið einmitt staldraði við og héldi aftur af sér varðandi sölu á jörðum og jarðalöndum almennt séð meðan verið væri að ná fótunum að nýju í þessum jarðamálum? Fyrir þrýsting, m.a. frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var skipuð nefnd af hálfu búnaðarþings fyrir tveimur árum til að fara ofan í þessi mál. Sú vinna er í gangi. En eðlilega er þetta mál sem snýr að landbúnaðarráðherra fyrst og fremst og stjórnvöldum um stefnu í þessum efnum.

Ég verð því að segja, herra forseti, að ég tel þessa stefnu ríkisins stórvarasama að vera að sækjast eftir heimild til að selja hvorki meira né minna en 65 jarðir og jarðaparta.

Svo mikill er ákafinn í sölunni að fá heimildir til að selja, að sama húsið og sama jörðin er tvítekin í frumvarpi til fjárlaga. Bæði í lið 2.28 í 6. gr., að selja gamla prestshúsið og kirkjuna á Stað í Grunnavík í Ísafjarðarbæ og svo er það aftur tekið fram í 2.29, að selja gamla prestshúsið og kirkjuna á Stað í Aðalvík. — Nei, fyrirgefið, þetta eru tvær kirkjur, á Stað í Aðalvík og í Ísafjarðarbæ.

Sótt er eftir heimild til að selja þessar jarðir. Þær jarðir nálgast það að vera komnar inn á friðlandið á Vestfjörðum, að minnsta kosti getur þetta land orðið seinna meir eitt samfellt friðland eða jafnvel þjóðgarður eða hvort sem er. Hvers vegna er ríkið að sækjast eftir heimild til að selja þetta? Þetta er í góðri vörslu nú þegar. Samningar eru við átthagafélög og félagasamtök þarna á svæðinu sem hafa sinnt þeim stöðum og kirkjum vel. En ef á að fara að selja þetta á almennum markaði þá er ekki víst að þessir aðilar kaupi jörðina og húsin á fyrrgreindum stöðum.

Svona mætti áfram telja hinar ýmsu jarðir sem sótt er um heimild til að selja, 65 jarðir og jarðapartar, taldi ég saman bæði í fjárlagafrumvarpinu og fjáraukalögum án þess að neinar fullnægjandi skýringar séu á. Líka það að einn mesti vandi landbúnaðarins núna eru einmitt uppkaup eignamanna á jörðum, sem leiðir oft til þess að þá eru viðkomandi jarðir teknar úr landbúnaðarnotum, jafnvel girtar af og útilokað að fólk geti farið þar um. Þetta eru yfirleitt erfiðustu jarðeigendurnir sem við þekkjum, það eru slíkir aðilar.

Af því ég er hérna að staldra við þessa sölu á eignum, þá vil ég líka staldra við og setja alvarleg spurningarmerki við svo opna heimild sem hér er tíunduð í sölu á eignarhlutum í húsnæði. Þar stendur í lið 3.3, að selja eigi eignarhlut ríkisins í fasteignum grunnskóla sem ekki eru lengur notaðir til skólahalds, og verja andvirðinu til endurbóta á skólahúsnæði í eigu ríkisins.

Nú veit ég ekki hve margir slíkir grunnskólar eru til, en ég dreg í efa að þetta sé heimilt samkvæmt lögum, að vera með svona kippuheimild. Ég veit ekki betur en skylt sé að sækja um heimild til að ráðstafa hverri eign fyrir sig, hverri sérmetinni eign fyrir sig. Svona grúppuheimild, kippuheimild, ég tel mjög líklegt að hún standist ekki lög. Sama stendur áfram líka í lið 3.4, að selja eignarhlut ríkisins í fasteignum framhalds- og sérskóla sem ekki eru lengur notaðir sem slíkir og þykja ekki henta til skólahalds og verja andvirðinu til endurbóta á skólahúsnæði í eigu ríkisins.

Nú má vel vera að einhverjir slíkir skólar séu til. En ég tel að breyting á eignarhaldi á þeim skólum ætti þá að vera í samráði við viðkomandi sveitarfélög sem eiga oft aðild að þeim. Ég dreg í efa að hægt sé að sækja um heimild til að selja óskilgreint einhvern bunka af eignum. Ég er eiginlega viss um að skylt sé að sækja um sölu á hverri eign fyrir sig.

Sama er sagt um sölu á eignarhluta ríkisins í félagsheimilum sem ekki eru lengur notuð sem slík. Ég dreg í efa að heimilt sé að sækja um svona opna heimild á þennan hátt. Annars staðar sjáum við að selja á eignarhlut ríkisins í fasteigninni Brautarholti 6, Reykjavík, og eignarhlut ríkisins í Heilsugæsluseli að Helluhrauni 17 í Mývatnssveit. Eignirnar eru sem sagt alltaf tilgreindar sem verið er að sækja um söluheimildir á, nema í ofangreindum tilvikum.

Ég tel ástæðu til, herra forseti, að forseti láti kanna hvort löglegt sé að sækja um svona opnar heimildir fyrir einhverjum óskilgreindum fjölda húsa vítt og breitt um landið. Ég óska eftir því að hæstv. forseti láti kanna hvort þetta sé í samræmi við góð lög og góðar reglur, að sækja um svo opna heimild eins og hér kemur fram.

Herra forseti. Ég hef vakið athygli á heimildum til jarðasölu sem ég tel mjög varhugaverðar, ekki síst í ljósi þess að þau stjórnvöld sem fara nú með stjórn landbúnaðarráðuneytisins hafa haft forgöngu um að setja þannig jarðalög að þau eru í anda þeirrar mestu frjálshyggju sem þekkist í heiminum við ráðstöfun á landi eins og ég hef áður vikið að. Ég vildi koma þessu að núna með jarðirnar hvað þetta varðar.

Fram hefur komið í ræðum hér á undan að fjármagn skortir í fjárlögin til að standa undir niðurgreiðslum til húshitunar, á rafmagni til húshitunar. Einnig skortir fjármagn í fjárlögin til að standa undir loforðum til að styrkja hitaveitur eða þegar verið er að stofna til nýrra hitaveitna á köldum svæðum. Það er mikið hagsmunamál fyrir einstakar byggðir þar sem möguleikar eru á að koma á hitaveitum. Samkvæmt lögum ber að veita þar ákveðinn fjárstuðning, stofnstyrki, til að koma slíkum hitaveitum á, en fjármagnið til slíkra stofnstyrkja er allt of lítið og er ekki í samræmi við þau lög sem kveða á um þátttöku ríkisins hvað það varðar.

En varðandi raforkuna þá er ég hér með ágætt bréf, herra forseti, sem lýsir vel þeirri stöðu sem upp er komin hjá mörgum raforkunotendum eftir markaðsvæðingu raforkukerfisins, eftir að átti að fara að hækka arðsemiskröfu raforkukerfisins og markaðsvæðingin hóf innreið sína. Af því að þetta skiptir allt máli og einnig hvernig ríkið kemur að til að jafna þennan kostnað langar mig til að lesa þetta bréf hér. Þetta er bréf frá Guðrúnu Bergmann, hótelstjóra á Hellnum, sem sent er iðnaðarráðherra en afrit er svo sent til þingmanna.

Með leyfi forseta:

„Ágæti ráðherra. Ný orkulög, hækkun raforkuverðs og dreifikostnaðar á raforku hefur komið afar illa niður á rekstri lítilla fyrirtækja eins og míns fyrirtækis sem er sumarhótelið Hótel Hellnar, en það er skilgreint vera á köldu svæði. Fyrir hækkun greiddi ég 2,99 kr. plús eina krónu fyrir kílóvattstundina en nú borga ég 3,24 kr. plús 1,05 kr. fyrir kílóvattstundina. Kostnaður við hverja kílóvattstund hefur því hækkað um 30 aura frá 1. maí sem sýnist lítil hækkun uns hún er margfölduð með notkun. Reyndar fengum við frest sem þessa atvinnugrein stundum, álestrarreikninga á miðju sumri þegar ekki var tími til að láta í sér heyra vegna anna við reksturinn.

Flutningskostnaður á orkunni er óheyrilega hár. Fyrir flutning á rafmagni til húshitunar greiði ég fyrir heimili mitt rúmlega 6 kr. á kílóvattstundina en fyrir fyrirtækið greiði ég rúmlega 9 kr. á kílóvattstundina, þegar við berum það nú saman við það sem stóriðjan er að borga, sem er kannski rúmlega ein króna eða þar um bil, þá er þetta litla fyrirtæki að borga 9 kr. á kílóvattstundina. Að auki er ég svo þess vafasama heiðurs aðnjótandi sem rekstraraðili á fyrirtæki í dreifbýli að greiða 1 kr. aukagjald á flutning rafmagns á hverja kílóvattstund sem raunar hækkaði í 1,05 kr. þann 1. maí sl., eins og að framan greinir.

Heildarnotkun hjá mér vegna húshitunar frá 1. febrúar 2005 til 29. maí 2006 eru 136.776 kílóvattstundir. Á þessu tímabili var ég einungis með rekstur í sex mánuði en heildarkostnaður við húshitun var 864.841 kr. fyrir utan vask. Rafmagnskostnaðurinn var 225.707 kr. fyrir svipað tímabil. Aukagjaldið, þ.e. ein króna per kílóvattstund í dreifingu þýðir að fyrirtækið greiddi fyrir umrætt tímabil 136.776 kr. meira fyrir rafmagnið á þessu tímabili en samkeppnisaðili þess sem staðsettur er í næsta þéttbýli.

Einhvern tíma var fjallað um það sem réttlætismál að allir raforkukaupendur á Íslandi ættu að sitja við sama borð hvar sem þeir byggju á landinu. Þessi aukalegi kostnaður skekkir hins vegar samkeppnisstöðu fyrirtækja eins og hjá mér og er hvorki til þess fallinn að styðja við dreifða byggð í landinu né heldur að hvetja til atvinnureksturs í dreifbýli. Og ég er ekki ein um að greiða þennan kostnað. Innan Samtaka ferðaþjónustu bænda eru t.d. rúmlega 54 önnur fyrirtæki sem skilgreinast á köldu svæði og lúta þá sömu töxtum og ég er hér að greina frá.

Ljóst er að ferðaþjónustan er ein mest vaxandi atvinnugrein í landinu og er nú önnur stærsta útflutningsgrein landsins á eftir fiskveiðum. Því vil ég fyrir hönd míns fyrirtækis og annarra fyrirtækja sem stunda þessa ört vaxandi og öflugu atvinnugrein fara fram á breytingar á raforkuverði til þeirra fyrirtækja innan hennar sem skilgreinast á köldum svæðum. “

Svo telur Guðrún upp:

„Að 1,05 kr. aukagjald á kílóvattstund fyrir flutning verði felld niður.

Að flutningskostnaður á raforku til fyrirtækja verði lækkaður til samræmis við flutningskostnað til húshitunar.

Fyrirtæki í dreifbýli sem eru á köldum svæðum fái styrk til að setja upp varmadælu til upphitunar en með því mætti spara verulegan kostnað.

Ljóst er, að ef nýta á Ísland sem ferðaþjónustuland þarf að vera til þjónusta eins og gisting og veitingar víða í dreifbýli. Á þeim stutta árlega rekstrartíma sem ég starfræki Hótel Hellna, þ.e. frá 1. maí til 1. október, eru rúmlega 3.500 gistinætur. Ef rekstur eins og minn og annarra sem veita sambærilega þjónustu með svipaðan fjölda herbergja legðist af mundi ferðaþjónustan bera stóran skaða af. Ferðaþjónustan er ung grein hér á landi og kostnaður við uppbyggingu hennar er afar hár, dreifist á fá ár og rekstrartími ferðaþjónustunnar er stuttur. Þótt greinin sé í örum vexti á hún fullt í fangi með að mæta þeim kröfum sem markaðurinn gerir til hennar. Byggingarkostnaður, reglugerðarkerfi og húshitunarkostnaður er afar hár hér á landi og það mundi muna miklu ef síðasttöldu tveir liðirnir mundu lækka.

Því legg ég hugmyndir mínar ekki einungis fram fyrir þig, ágæti iðnaðarráðherra, heldur einnig fyrir þingmenn míns kjördæmis og treysti því að þeir veiti uppbyggingu í ferðaþjónustu og þeim rekstrarlegu þáttum sem hún þarf að takast á við aukna athygli.

Með fyrir fram þökk og von um vinsamlega umfjöllun á erindi mínu. Guðrún Bergmann hótelstjóri.“

Þarna er mjög hógværlega greint frá hvernig atvinnurekstur og búseta, sérstaklega í dreifbýli, er skattlögð og látin borga hærri gjöld m.a. fyrir rafmagn en annars staðar í samfélaginu og ég tala nú ekki um ef við berum saman raforkukostnaðinn sem ferðaþjónustan borgar annars vegar, sem er næststærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og sá atvinnuvegur sem skilar næstmestum nettógjaldeyristekjum samanborið við t.d. stóriðjuna sem greiðir kannski bara einn áttunda af þeim rafmagnskostnaði sem ferðaþjónustan borgar. Fyrir utan, herra forseti, þær niðurgreiðslur sem koma til íbúðarhúshitunar á köldum svæðum, til að greiða niður rafmagn, þær koma ekki ferðaþjónustunni til góða því að það er aðeins veitt til íbúðarhúsnæðis sem búið er í allt árið.

Ég bendi á þetta vegna þess að þetta er það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera. Hún getur lækkað skatta og álögur en hins vegar fært gjöldin yfir á notendur. Í markaðsvæðingu raforkukerfisins hefur það gerst að samábyrgðin hefur fallið brott en gjöldin hafa verið færð yfir á notendurna og þá gerist það ójafnt með þessum hætti. Nákvæmlega sama er líka að gerast varðandi fjarskiptakostnaðinn, varðandi símkostnaðinn. Menn monta sig af því að hafa selt Símann — hann var reyndar seldur á spottprís en hvað um það — en hvernig kemur það nú út? Hvað hefur gerst hjá þeim sem búa við þessa fjarskiptaþjónustu?

Það eina sem hefur gerst þar, herra forseti, er að það er verið að skipta landinu upp í gjaldsvæði, það er verið að mismuna fólkinu eftir búsetu. Við höfum heyrt um hækkun símgjalda, ég tók upp mál hér á Alþingi um daginn um hvernig GSM-símgjöld hafa hækkað. Þau hafa hækkað um 40% síðan Síminn var einkavæddur, sem er miklu meiri hækkun en í næstu nágrannalöndum okkar.

Ef litið er t.d. til internetsþjónustunnar, og aftur er það einmitt hið sama, er það dreifbýlið sem verður fyrir þessum mismun en í Bæjarins besta 25. september sl. er frétt um þetta. Þar er sagt frá að internetsnotandi á Ísafirði greiðir sama verð fyrir fjögra megabæta tengingu og notendur á höfuðborgarsvæðinu borga fyrir átta megabæta tengingu. Þegar Síminn er spurður hvers vegna þetta sé þá er sagt að það sé búið að skilgreina og skipta landinu í svæði hvað varðar afkastagetu þessa fjarskiptakerfis en hins vegar verðum við að borga sama verð.

Neytendasamtökin segja um þetta sama mál í Bæjarins besta, 28. september sl., með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin fjalla um þá mismunandi þjónustu sem Síminn býður upp á eftir búsetu á heimasíðu sinni í dag. Eins og sagt hefur verið frá er neytendum utan ákveðinna svæða boðin allt að helmingi hraðari tenging fyrir sama verð og neytendur annars staðar, t.d. á Vestfjörðum, greiða fyrir hægari tengingu. Á heimasíðu Neytendasamtakanna segir meðal annars:

„Staðreyndin er sú að þegar Ísfirðingur kaupir þjónustuleiðina „Bestur“ fær hann fjögurra megabæta tengingu og greiðir fyrir það 5.990 kr. En Reykvíkingur sem kaupir sömu leið fær átta megabæta tengingu, þ.e. helmingi hraðvirkari tengingu og hann greiðir líka 5.990 kr. Þetta á líka við um tenginguna „Langbestur“ sem kostar Ísfirðinginn 6.490 kr. að fá sex megabæta tengingu en Reykvíkingurinn fær afhenta tólf megabæta tengingu fyrir sama verð.“ Þá kemur fram að sambærileg mál hafi áður komið upp, t.d. í viðskiptum við orkufyrirtæki með sölu á heitu vatni …“

Neytendasamtökin benda því á og taka undir með Vestfirðingum um að eðlilegra væri að gefa upp hvaða lágmarksþjónusta ætti að vera í boði á einhverju ákveðnu verði í staðinn fyrir að skipta landinu svona upp eftir svæðum og láta menn borga fullt verð fyrir lélegri þjónustu.

Þetta er reyndar það sama og er uppi í raforkuþjónustunni þar sem þeir sem eru bara með einfasa rafmagn borga sama verð fyrir kílóvattstundina og þeir sem fá þriggja fasa rafmagn þó svo að í raun sé þörf bæði miklu dýrari tækjabúnaðar og miklu meiri orkukostnaður við einfasa rafmagn en þriggja fasa rafmagn. Og nú eftir að orkukerfið hefur verið markaðsvætt, Rarik gerði það að hluta til, þá getur ríkið ekki komið með beinum hætti að því að styrkja dreifikerfið eða verja fjármagni til þrífösunar á rafmagni og er algjörlega háð því hvað þetta fyrirtæki vill leggja í það. Nýjustu aðgerðir af hálfu iðnaðarráðherra eru að setja bæði Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik á einkavæðingarvagninn og ýta honum hratt af stað þannig að raforkukerfið verði allt saman innan skamms að fullu markaðsvætt og einkavætt. Allt þetta mun bitna langharðast á íbúum dreifbýlisins bæði hvað varðar raforkuna og fjarskipti, eins og ég hef rakið.

Þannig er hægt að lækka almenna skatta á hátekjufólki og draga úr skattheimtu en að færa í raun þann kostnað sem áður var greiddur og borin sameiginleg ábyrgð á beint út á neytendurna sjálfa eins og rafmagn, fjarskipti o.s.frv.

Aðeins í lokin, herra forseti, er ekki hægt annað en að víkja aftur að vegamálunum. Við heyrðum aftur í fréttum í kvöld að ráðherrar, bæði samgönguráðherra og fjármálaráðherrann eru að gefa yfirlýsingar um að þeir séu reiðubúnir að fara í tvöföldun á Suðurlandsvegi milli Selfoss og Reykjavíkur og eru reiðubúnir að láta það fara strax á fulla ferð og sérstaklega í einkaframkvæmd. Ég hef áður vitnað til yfirlýsinga fjármálaráðherra sem hefur lýst því á fundum á Suðurlandi að ekkert sé til fyrirstöðu að taka ákvörðun um að bjóða út veginn á milli Selfoss og Reykjavíkur fyrir jól í einkaframkvæmd.

Ég get ekki orða bundist hvað þetta varðar. Við höfum horft á það, og ég hef rakið það ítarlega, hvernig stjórnvöld hafa skorið niður fé til vegaframkvæmda á undanförnum árum. Lofað var miklu fjármagni á árinu 2003, þá var kosningaár og ný vegáætlun og lofað auknu fjármagni til vegagerðar. Reyndar var voru vegaframkvæmdir sveltar mjög árið 2002, ári fyrir kosningar. Það er kosningabragð að skera niður framkvæmdir ári fyrir kosningar og þykjast svo ætla að gera mikið á kosningaári. Þetta var gert árin 2002 og 2003. Árið 2002 var eitt lægsta árið með framlög til vegamála. Síðan var tekin ákvörðun um að auka fé á árinu 2003 og þá var samþykkt gríðarlega mikil vegáætlun um stórframkvæmdir í vegamálum. Staðreyndin er hins vegar sú að frá árunum 2003–2006 er búið að skera vegáætlunina sjálfa niður um 6,5 milljarða kr. Auk þess hefur það fjármagn sem átti að koma inn til framkvæmda á árinu 2007 af svokallaðri sölu Símans einnig verið skert. Árin 2005 og 2006 eru þau ár sem einna minnstu fjármagni hefur verið varið til vegagerðar um langt árabil, að ég tali nú ekki um sem hluti af þjóðarframleiðslu. Nú á að verða trúverðugt að ráðast eigi í stórframkvæmdir í vegamálum á næsta ári, samkvæmt yfirlýsingum sömu ráðherra, og þá á endilega gera það í einkaframkvæmd

Ég hef mikinn skilning öllum nauðsynlegum vegaframkvæmdum og þetta hefur verið áherslumál hjá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég hef líka ítrekað flutt þingsályktunartillögu á Alþingi um sérstakt átak í safn- og tengivegum, vegum sem liggja inn til dala og út til stranda og hafa dregist alveg stórlega aftur á undanförnum árum. Ég hef lagt til að gert yrði stórátak í vegamálum hvað þessa vegi varðar. Þetta eru vegir sem fólk ekur með börn sín daglega til skóla um langan veg eða sækir atvinnu eða aðdrætti um langan veg, oft og tíðum malartroðninga. Þessir vegir hafa hlutfallslega orðið mjög út undan á síðustu árum og ekki verður séð að þeir komist á dagskrá nema gert verði sérstakt átak varðandi þá.

Ég er hér með undirskriftaskjal — það er helst að fólk veki athygli á þörfum vegaframkvæmdum með því að senda undirskriftaskjal — frá öllum íbúum í Bæjarhreppi í Strandasýslu þar sem þeir skora á samgönguyfirvöld að sjá til þess að vegurinn sem liggur um Bæjarhrepp í Strandasýslu verði allur lagður bundnu slitlagi hið bráðasta. En einmitt þessi vegur norður Strandirnar er núna aðalflutningavegurinn, bæði á fólki og vörum norður um Strandir til Hólmavíkur, Drangsness, Ísafjarðar og um norðanverða Vestfirði, og þar fara fram gríðarlega miklir fiskflutningar. Þarna hafa iðulega orðið slys, bílar lent út af vegna þess hve vegurinn er veikur og mjór. Umferð er ótrygg þarna og sáralítið hefur verið gert í vegabótum á þessu svæði á undanförnum árum.

Við erum minnug þess að það fyrsta sem ríkisstjórnin greip til á síðastliðnu sumri, þegar draga átti úr þenslu, var að fresta vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Í frumvarpi sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir fyrir helgi, um frestun á ráðstöfun á fjármagni af sölu Símans, er aftur verið að skera niður og fresta fjármagni til þessara svæða. Samtímis geta sömu ráðherrar komið hér og sagt að það sé alveg sjálfsagt að skoða það að gera stórátak í vegaframkvæmdum á næsta og þarnæsta ári, og alveg sjálfsagt að gera það í einkaframkvæmd.

Ég er með skýrslu sem ég vitnaði til í morgun frá Ríkisendurskoðun, sem kom út í júní sl., þar sem stofnunin gerði úttekt á hagkvæmni einkaframkvæmda í vegamálum. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er sú að það sé alls ekki nein sérstök hagkvæmni eða ódýrara að fara í vegaframkvæmdir á grundvelli einkaframkvæmdar. Ríkið búi yfir meiri tækniþekkingu og reynslu í vegagerð og hafi einnig möguleika á að ná í ódýrara fjármagn en einkaaðilar. Í þeirri skýrslu sem ég er með það eindregin skoðun Ríkisendurskoðunar í þeirri úttekt sem þeir gera að einkaframkvæmd í vegagerð sé síðri kostur. Hins vegar er hægt að slá málum á frest og það er ríkisstjórnin er að gera. Hún er að slá málum á frest með því að segja að það sé sjálfsagt að setja hina eða þessa framkvæmdina í einkaframkvæmd. Ef raunverulegur vilji væri hjá ríkisstjórninni til að taka á og gera átak í vegaframkvæmdum mundi hún gera það á vegum ríkisins. En þegar maður vill komast hjá því að þurfa að ræða málið af alvöru þá er slegið úr og í, sjálfsagt að skoða einkaframkvæmd eða einhverja slíka möguleika. Það er af því að þá vilja menn ekki taka á málinu.

Mér finnst líka af umræðunni síðustu daga, herra forseti, dapurlegt að hlusta á hvernig einstaka ráðherrar og jafnvel ráðherra samgöngumála segja eitt og annað en Vegagerðin vinnur síðan samkvæmt stefnumörkun sem Alþingi og samgönguráðherra hafa lagt upp með í vegagerð. Þetta er mjög óréttmæt umræða sem ráðherrarnir viðhafa gagnvart einstökum vegaframkvæmdum, hversu mikilvægar sem þær eru. Það er skoðun okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að gera eigi stórátak í vegamálum og standa við það en ekki bara svíkja það eins og gert hefur verið á undanförnum árum, fólk hefur verið svikið í vegamálum. Lofað var stórátaki í vegamálum á síðustu fjórum árum sem ekki hefur verið staðið við, vegáætlun var skorin niður um 6–7 milljarða kr. á síðustu fjórum árum. Og áfram er skorið niður um a.m.k. 3,5–5 milljarða kr., eftir því hvernig maður reiknar það, á næsta ári miðað við það sem búið var að lofa. Ef vilji er til þess að gera stórátak í vegamálum, eins og ráðherrar lýsa hér yfir, á að taka ákvörðun um að það sé gert á vegum ríkisins og þá getum við byrjað strax. Raunin er hins vegar önnur, það er verið að skera niður og fresta vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi sem eru búnar að vera á vegáætlun í mörg ár og síðan lofa menn út og suður burt frá raunveruleikanum. Slíkt er ekki heiðarlegt.

Herra forseti. Ég hef rakið nokkur atriði til viðbótar í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór mjög ítarlega í gegnum efnahagsforsendur frumvarpsins fyrir næsta ár og hvert stefnir í efnahagsmálum þar sem hann dró upp mikil varnaðarorð og lýsti því hvernig ástandið hefur verið á þessu ári. Viðskiptahallinn er tvöfalt meiri en ráð var fyrir gert. Hann verður líklega um 210–220 milljarðar kr. á þessu ári en samkvæmt spánni sem gerð var fyrir ári síðan var gert ráð fyrir að hann yrði 110 milljarðar. Þetta er tvöföldun. Mönnum finnst þetta allt í lagi. Ráðherrum ríkisstjórnarinnar finnst það allt í lagi, sem sýnir hversu glámskyggnir þeir eru á það sem er að gerast. (Gripið fram í.) Það gerir ekki fyrrverandi ráðherra, nei. Vextir eru með því hæsta sem gerist, stýrivextir Seðlabankans 14%, skuldabréfavextir 22–23% eða hvað það nú er. Það sér hver heilvita maður að atvinnulíf og heimilisrekstur gengur ekki í þessu vaxtaumhverfi. Þetta var allt saman fyrirséð. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðum við því árið 2002 og árið 2003 að verið væri að sigla inn þetta umhverfi með þessum gríðarlegu stóriðjuframkvæmdum. Sumir láta sér þetta ástand koma á óvart, en það var varað við því. Við vöruðum við því, efnahagssérfræðingar bankanna vöruðu við því, Seðlabankinn varaði við því. Ég minnist orða fyrrverandi seðlabankastjóra, Birgis Ísleifs Gunnarssonar, sem sagði að við byggjum við ógnarjafnvægi í efnahagsmálum og ef ekki yrði slegið af stóriðjuframkvæmdum, skattalækkunum eða þessum ofboðslegu þensluaðgerðum ríkisstjórnarinnar þá sigldum við inn í mjög erfitt og viðkvæmt efnahagsástand. Og sú varð raunin, ríkisstjórnin keyrði áfram á stóriðjustefnu sinni. Til marks um það var vegaframkvæmdum frestað í sumar upp á rúman 1 milljarð kr. til að slá á þenslu en stóriðjuframkvæmdirnar, undirbúningur að stóriðjuframkvæmdum var á fullu. Framkvæmdum á Grundartanga var meira að segja var flýtt, framkvæmdum á Hellisheiði til orkuöflunar fyrir stækkun álversins á Grundartanga var flýtt á sama tíma og vegaframkvæmdir úti um land voru keyrðar niður, brýnar vegaframkvæmdir sem fólk hafði beðið eftir árum og áratugum saman. Þetta voru allt saman ríkisdrifnar framkvæmdir, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Hitaveita Suðurnesja. Þetta eru opinber fyrirtæki sem voru einungis að framfylgja stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar með þeim afleiðingum sem ég hef nefnt.

Það hefur verið samdóma álit annarra en ríkisstjórnarinnar, annarra en ráðherranna, ég held að það hafi verið samdóma álit flestra sem hafa spáð fyrir um efnahagsþróun á næsta og þar næsta ári að efnahagsástandið sé í mikilli óvissu og það velti á því hvort áfram verði kynt undir frekari stóriðjuframkvæmdir eða ekki. Verði kynt undir áframhaldandi stóriðjuframkvæmdir, verði gefið fyrirheit um að áfram eigi að halda á þeirri braut, verður áfram gríðarleg þensla í efnahagslífinu hér á landi, vextir háir og hár og mikill viðskiptahalli, mikill óstöðugleiki og óvíst hversu lengi bæði heimili og atvinnulíf bera slíkt. Því er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin gefi nú yfirlýsingu, við höfum krafist þess, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að ríkisstjórnin gefi yfirlýsingu um að sett verði stóriðjustopp og efnahagslífinu gefið tækifæri og tóm til að ná jafnvægi á ný og aðrar atvinnugreinar fái einnig sitt eðlilega svigrúm í atvinnulífi þjóðarinnar. Um það stendur raunar baráttan á næsta ári, hver verði stefnan í efnahagsmálum. Verður óbreytt stóriðjustefna þessarar ríkisstjórnar eða verður horfið frá henni og tekin upp efnahags- og atvinnustefna sem leiðir til meira jafnvægis og meira öryggis, bæði fyrir fjölbreytni atvinnulífsins vítt og breitt um landið og fyrir efnahag og afkomu einstaklinganna og fjölskyldnanna. Um það verður tekist á í vor en þetta frumvarp, herra forseti, segir ekkert um það. Þetta frumvarp lætur því ósvarað hver er raunveruleg stefna ríkisins í efnahagsmálum fyrir næsta ár og slíkt er mikið ábyrgðarleysi í því ástandi sem við nú búum við.