133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:35]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það fjárlagafrumvarp sem hér er til lokaafgreiðslu er endahnykkurinn á 12 ára ferli ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í ríkisfjármálum. Stefna stjórnarflokkanna í ríkisfjármálum hefur einkennst af vaxandi misskiptingu og nú þeirri mestu sem við þekkjum í íslensku samfélagi. Í öðru lagi af því að auka verulega skatta og gjöld á meðaltekjufólk og lágtekjufólk í landinu, í þriðja lagi af stöðugum óstöðugleika í efnahagsmálum með meiri verðbólgu en þekkist í löndunum í kringum okkur og hærri vöxtum en víðast hvar annars staðar í veröldinni og í fjórða lagi af agaleysi í framkvæmd ríkisfjármála þannig að á ári hverju skeikar liðlega 20 milljörðum á fjárlögum og því sem látið er úr sjóðum ríkisins. Og í fimmta lagi af stöðugum vexti ríkisútgjalda sem nú eru meiri en nokkru sinni fyrr og því miður með rangri forgangsröðun verkefna þar sem gæluverkefni ráða meira för en nauðsynleg þjónustuverkefni við fólkið í landinu.

Við í stjórnarandstöðunni höfum við þrjár umræður og auðvitað á umliðnum árum reynt að gera ríkisstjórninni grein fyrir þeim ágöllum sem á frumvarpinu eru, m.a. þeim alvarlegu brestum í forsendum sem aftur og aftur eru bæði við áætlanagerð um tekjur og gjöld. Við sjáum til að mynda í dag þær tölur sem Seðlabankinn hefur gefið út um viðskiptahalla á fyrstu níu mánuðum þessa árs sem eru þegar orðnir 100 milljörðum meiri en fjármálaráðuneytið spáði fyrir ári síðan. Met í viðskiptahalla við útlönd sem sýnir okkur að áætlanir hæstv. fjármálaráðherra eru stjarnfræðilega langt frá veruleikanum og þess vegna full ástæða til að hafa alvarlegar áhyggjur bæði af tekjuforsendunum og eins vegna framkvæmdar á útgjöldum.

Við flytjum hér nokkrar breytingartillögur sem við munum að venju styðja við afgreiðslu frumvarpsins en sitja hjá við tillögur stjórnarliðsins og við afgreiðslu fjárlaganna sjálfra enda verður ríkisstjórnin sjálf að bera ábyrgð á þeirri óráðsíu, ofþenslu og þeim stöðuga óstöðugleika sem ríkir í landinu í efnahagsmálum með tilheyrandi verðbólgu og vaxtasköttum á almenning í landinu.