133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:43]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil við upphaf þessarar atkvæðagreiðslu þakka hv. nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf við vinnu við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2007. Hér er um velferðarfrumvarp að ræða. Það er verið að setja stóraukna fjármuni í heilbrigðis-, mennta- og félagsmál þar sem stjórnarandstaðan skilar auðu og styður ekki margar góðar tillögur sem við hv. þingmenn í meiri hluta nefndarinnar leggjum til.

Það er jafnframt verið að leggja til að stórhækka barnabætur sem mun sérstaklega nýtast tekjulágum fjölskyldum og millitekjufólki. Það er verið að stórhækka skattleysismörkin um næstu áramót eða um 14%, þau verða þá 90 þús. kr., sem mun sérstaklega gagnast lágtekjufólki þannig að hér er um skattabreytingar að ræða sem nýtast sérstaklega lágtekju- og millitekjufólki. Jafnframt hafa stjórnarflokkarnir það stefnumið að lækka tekjuskatt einstaklinga eins og þeir hétu fyrir síðustu kosningar og verður tekjuskattur einstaklinga lækkaður um 1% frá og með næstu áramótum. Jafnframt hafa stjórnarflokkarnir ákveðið að lækka virðisaukaskatt af matvælum 1. mars næstkomandi sem mun leiða til þess að verð á matvörum mun lækka á næsta ári, verðbólga verður mun lægri en við gerðum ráð fyrir í forsendum fjárlaga upphaflega fyrir árið 2007 og þannig er verið að bæta hag allra fjölskyldna í landinu enn frekar.

Það er með mikilli ánægju sem ég samþykki það og segi já við því að við afgreiðum fjárlög fyrir árið 2007 með þessum hætti. Hér er verið að halda áfram að greiða niður skuldir þjóðarbúsins. Tekjujöfnuður verður jákvæður um 9 milljarða kr. á næsta ári og þannig er nettóskuldastaða íslenska ríkissjóðsins að verða núll. Og ef við rifjum upp hver skuldastaðan var árið 1998 þá greiddum við Íslendingar jafnmikið í vaxtagjöld og við vörðum til menntamála í landinu þannig að núverandi ríkisstjórn hefur náð gríðarlegum árangri hvað þetta varðar. Við ætlum að halda áfram á þessari braut. Það er ljóst samkvæmt þessum forsendum fjárlaga að kaupmáttur heimilanna í landinu mun halda áfram að aukast á næsta ári um ríflega 5% og um rúm 2% á árinu 2008. Núverandi ríkisstjórnarflokkar stefna að því áfram að bæta kjör heimilanna í landinu. Í þeim breytingartillögum sem við höfum lagt til leggjum við áherslu á að bæta sérstaklega stöðu lífeyrisþega, lágtekju- og millitekjufólks. Síðan getur hv. stjórnarandstaða komið hér upp og reynt að skrumskæla raunveruleikann en staðreyndin er sú að við erum að bæta kjör heimilanna, við erum að lækka skuldir ríkissjóðs og við erum að bæta verulega til heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfisins en þar því miður, hæstv. forseti, skilar stjórnarandstaðan auðu.