133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:22]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Samfylkingin mun ekki greiða þessu fjárlagafrumvarpi atkvæði sitt heldur sitja hjá. Hún vísar ábyrgðinni á því alfarið á ríkisstjórnina sem eins og menn hafa orðið varir við hefur hvorki stjórn á efnahagsmálum né ríkisfjármálum. Vextir eru í hámarki, viðskiptahalli nær sögulegu hámarki hvern ársfjórðunginn á fætur öðrum, verðbólgan hefur verið mikil og gengið í sífelldum rússíbana. Þetta eru útgjaldafjárlög því að útgjöldin aukast núna um 16,7% á milli fjárlaga, þetta eru kosningafjárlög því að ríkisstjórnin rær nú lífróður. Erindi hennar er lokið, þreki hennar er lokið og að sjálfsögðu verður skipt um ríkisstjórn í kosningum í vor.

Þrátt fyrir að þetta séu útgjaldafjárlög eru vanefndir á þremur sviðum, (Forseti hringir.) gagnvart öryrkjum, gagnvart öldruðum og gagnvart verkalýðshreyfingunni. Við hljótum auðvitað að fordæma að þannig skuli staðið að málum.