133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins.

170. mál
[13:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um biðtíma eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og samstarf hennar og Barna- og unglingageðdeildar.

Nokkur umræða hefur orðið í haust og vetur vegna óviðunandi biðtíma eftir þjónustu stöðvarinnar og að eftir langa bið eftir þjónustu þar taki við önnur löng bið barns eftir þjónustu Barna- og unglingageðdeildar. Barnið fær á meðan ekki þjónustu við hæfi, t.d. í skóla en biðin getur varað nokkur ár. Nokkur ár er langur tími í lífi barns sem er fatlað, veikt og þarf þjónustu.

Ég veit að bið eftir greiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni getur verið allt að þrjú ár hjá börnum á skólaaldri, að minnsta kosti því sem snýr að einhverfu og þroskahömlun. En það er annað þegar um hreyfihömlun er að ræða því hún uppgötvast yfirleitt fyrir skólaaldur. Dæmi er um að barn fari inn á Barna- og unglingageðdeild í greiningu eftir árs bið eftir að komast þangað. Síðan er því vísað á greiningarstöð í nánari greiningu, t.d. vegna einhverfueinkenna og þá upphefst önnur bið.

Þetta er mjög alvarlegt ástand. Barn með einhverfuröskun sem ekki hefur fengið þá greiningu þróar oft með sér erfiða hegðun og geðræn vandamál. Fötlunin sést ekki utan á barninu og þess vegna mætir það ekki þeim skilningi sem nauðsynlegur er þannig að það getur ekki fótað sig í samfélaginu. Fólk rekst á marga veggi, passar ekki inn í samfélagið og er stöðugt undir álagi við að reyna að átta sig á aðstæðum. Þessu fylgir mikill kvíði og einmanaleiki.

Þetta sýnir, virðulegi forseti, að meira samstarf milli þessara tveggja þjónustustofnana, Barna- og unglingageðdeildar og Greiningarstöðvar ríkisins, er nauðsynlegt. Annað bitnar á börnunum. Það er sárt til þess að vita að barn sem hefur ekki fengið greiningu fái ekki þá þjónustu eða skilning sem það fengi ef það hefði fengið slíka greiningu, en eyrnamerktir peningar fylgja fötluðu barni með greiningu inn í skóla. Greiningin skiptir líka máli fyrir foreldrana vegna umönnunarbóta sem foreldrar fatlaðra barna eiga rétt á. Sá réttur er mjög óskýr hjá börnum, t.d. með ADHD og skyldar raskanir. Réttur til þjónustu svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra fæst ekki fyrr en barn er búið að fá fötlunargreiningu.

Ég spyr hæstv. ráðherra:

1. Hversu löng bið er eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins:

a. fyrir börn í leikskóla

b. fyrir börn á grunnskólaaldri?

2. Hvernig er samstarfi Greiningarstöðvarinnar og BUGL háttað hvað varðar greiningu á börnum með einhverfueinkenni og geðræn vandamál? (Forseti hringir.)

3. Hvað þarf barn sem hefur fengið greiningu á BUGL og þarf nánari greiningu á Greiningarstöðinni (Forseti hringir.) að bíða lengi eftir henni?