133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

290. mál
[13:48]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um sáraeinfalt mála að ræða. Þess vegna tel ég að fólk eigi að spyrja sig, hvers vegna getur hæstv. félagsmálaráðherra ekki kippt þessu í liðinn?

Ástæðan er auðvitað sú að félagsmálaráðherrarnir eru alltaf að koma og fara. Þetta er þriðji hæstv. félagsmálaráðherrann á örfáum mánuðum, eru ekki komnir þrír á þessu ári? Maður er hættur að hafa tölu á því.

Þannig að auðvitað geta þeir ekki hrint einu sinni einföldum verkefnum í framkvæmd, sanngirnisverkefnum, svo sem að nemendur sem búa innan sama sveitarfélags og þurfa að sækja langt að í skóla fái húsaleigustyrk. Sömu flokkar boða hér sameiningu sveitarfélaga en geta ekki kippt svona einföldu máli í liðinn. Það er alveg með ólíkindum að horfa upp á þetta.

Við ræddum um daginn um utanvegaakstur. Það er sama upp á teningnum þar hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Þar koma ráðherrar og fara og geta ekki (Forseti hringir.) klárað einföldustu mál.