133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

290. mál
[13:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Mér þykir leitt að segja þetta, en þetta er þriðji hæstv. félagsmálaráðherrann sem gefur nákvæmlega sama svar, nánast orðrétt upplesið.

Mér finnst þetta bara dapurt í svona smámáli en þó miklu réttlætismáli því það skiptir fjölskyldur gríðarlega miklu máli hvert þeir verða að senda börn sín í skóla til að njóta jafnréttis hvað húsaleigubætur varðar.

Hæstv. ráðherra gat þess að ekki væri um háar upphæðir að ræða. Þetta væri réttlætismál. Einhvern veginn er það svo að slík réttlætismál eiga erfitt með að komast til framkvæmda. En þetta er ekki bara réttlætismál, þetta er fjárhagslegt mál bæði fyrir viðkomandi byggðarlög og einstaklinga sem hér eiga hlut að máli.

Ég vil líka minna á hinn almenna hluta í þessum reglum þar sem er gert skylt að nemendur verða að vera skráðir að minnsta kosti í sex mánuði með vistun á skóla til þess að mega fá húsaleigubætur. Margir iðnnemar sem eru á samningi koma t.d. í nám eftir áramót og til vors en ná þá ekki þessum sex mánuðum og eiga því ekki rétt á húsaleigubótum.

Þannig að hér er alveg furðulegt óréttlæti í gangi. Það er engin afsökun að vísa til einhverrar nefndar, að þetta sé í einhverju samstarfsferli milli ríkis og sveitarfélaga, einhverju svona eilífðardæmi.

Það er krafa um að á þessu máli verði tekið svo að fólk, hvort sem það býr í Fljótum eða norður í Lýtingsstaðahreppi eða í uppsveitum Árnessýslu og sendir börn sín í framhaldsskóla í sama sveitarfélagi, eigi rétt til húsaleigubóta en þurfi ekki að senda þau í fjarlæga landshluta til að fá þann rétt.