133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

290. mál
[13:52]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson talaði um að ráðherrar kæmu og færu og það er út af fyrir sig rétt hjá honum auðvitað. Ég er tiltölulega nýbyrjaður í þessu starfi. En ég get lofað honum því að ég er ekkert alveg að fara úr því og við munum sjá til með það í vor.

Svo ég snúi mér að hv. fyrirspyrjanda Jóni Bjarnasyni, um leið og ég þakka honum fyrir fyrirspurnina, er ég auðvitað sammála honum í því að hér er á ferðinni sanngirnismál. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þá mun ég beita mér fyrir því að þetta mál verði tekið upp á sameiginlegum vettvangi ríkis og sveitarfélaga. Menn mega ekkert að vera að gera lítið úr þeim samráðsvettvangi. Hann er til staðar og þar fjalla menn um verkefni sem ríki og sveitarfélög starfa saman að. Þetta er alveg dæmigert verkefni um það, þannig að ég mun beita mér fyrir því að við förum yfir þetta mál og helst finna lausn á því.

En auðvitað er það líka þannig að þetta fyrirkomulag eins og það er núna, það má segja að það geti staðið í vegi fyrir sameiningu sveitarfélaga. Við getum alveg sagt að svo sé. Þannig að út frá mörgum hliðum er þetta mál sem ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að leysa og ég vonast til þess að okkur takist það sem allra fyrst.