133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

111. mál
[14:02]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda, Guðjóni Ólafi Jónssyni, fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er mjög mikilvægt mannvirki, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, mannvirki sem hefur verið í umræðunni í nokkuð mörg ár, eiginlega alveg frá því að ég settist fyrst á þing og fyrir þann tíma, fyrir bráðum átta árum. Það er í rauninni makalaust hvernig staðið var að þessu mannvirki af hendi R-listans, stöðug frestun, stöðugt verið að voma yfir ákvörðun sem átti að liggja fyrir. Ég kalla þetta stefnuleysi hjá R-listanum.

Því þykja mér það góðar fréttir að heyra frá hæstv. samgönguráðherra að þetta mál sé að þokast áfram því að það er mikil þörf fyrir að koma þessu mannvirki á, þetta er flöskuháls í umferðinni í Reykjavík og þetta eru sennilega þau gatnamót þar sem einna mest tjón og flest slys verða í Reykjavík. Ég fagna því svörum ráðherra (Forseti hringir.) og fagna því einnig að komin er ný stjórn í Reykjavík sem tekur á þessu máli af meiri festu.