133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

111. mál
[14:06]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er þörf á að hafa sem besta útfærslu á þessum gatnamótum, þarna er geysilega mikil umferð. Það hefur orðið mikil bragarbót með ljósastýringunni en það er mat mitt að þarna eigi að koma mislæg gatnamót og skapa eins mikið öryggi á þeim og nokkur kostur er.

Hins vegar er því ekki að leyna, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að það eru skiptar skoðanir meðal íbúa á þessu svæði um að fá slíkan nökkva eins og mislæg gatnamót verða þarna við hliðina á byggðinni, þannig að það þarf að huga að því við útfærslu. Það var mat margra sérfræðinga að sú lausn sem var í augsýn þegar allt var stöðvað hafi verið býsna snjöll. Þetta þarf allt saman að stokka upp að nýju og hefja vinnu og það er vilji til þess af minni hálfu.

Það er rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það er mikilvægt að það sé ávinningur af því sem gert er í samgöngubótum. Það er af mörgu að taka á höfuðborgarsvæðinu eins og reyndar um allt land þegar litið er til samgöngumannvirkja. Unnið er núna fullum fetum að undirbúningi Sundabrautar. Það liggur fyrir að skýrsla er að verða tilbúin um þann kost sem var skoðaður, þ.e. jarðgöng á Sundabrautinni. Það er kostur sem er nokkuð kostnaðarsamur en hann þarf að bera saman við þá leið sem aðallega hefur verið til meðhöndlunar. Sömuleiðis eru framkvæmdir fyrirhugaðar við svokallaðan Hlíðarfót sem á að tengja Hringbrautar- og Miklubrautarsvæðið við (Forseti hringir.) samgöngumiðstöðina og flugvallarsvæðið og (Forseti hringir.) háskólasvæðið sem þar á að rísa.