133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að ræða á hinu háa Alþingi hugsanleg samgöngumannvirki hér á landi. Ég er kominn upp í ræðustól til að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um það hvort samgönguyfirvöld hafi með einhverjum hætti hafið undirbúning þess að tvöfalda Hvalfjarðargöng og ef svo er, hvað hafi þá verið gert.

Það vita náttúrlega allir að þessi göng voru mikið tímamótamannvirki á sínum tíma. Þau hafa fyllilega sannað gildi sitt fyrir löngu og hafa eflaust verið mikil lyftistöng fyrir byggðir norðan Hvalfjarðar á Vesturlandi og jafnvel á Norðurlandi. Þau hafa líka leitt til þess að slysum hefur mjög fækkað. Slys sem áður voru tíð til að mynda í Hvalfirði heyra nú sögunni til eða svo til. Jafnframt sjáum við að það hefur verið mikil uppbygging t.d. á Grundartanga. Ég held að hún fari ekki fram hjá neinum, bæði varðandi stóriðju og núna hugsanlega í tengslum við síauknar farskipasiglingar. Við sjáum að fyrirtæki eins og Faxaflóahafnir er að hasla sér völl á Grundartanga og virðist hafa áform þar varðandi uppskipun á þungavarningi, gámum og öðru. Það er a.m.k. mjög margt sem mælir með því að farið verði í að skoða tvöföldun á Hvalfjarðargöngum. Ég hef sjálfur verið hálfskeptískur á hvort þörf væri á að tvöfalda þessi mannvirki en þegar maður hefur horft á þessa þróun hlýtur maður að snúast á sveif með því og hugsa með sér að það sé a.m.k. skoðandi.

Nýlega var haldinn aðalfundur hjá Speli, sem er fyrirtækið sem á og rekur Hvalfjarðargöngin í dag, og þar kom m.a. fram í máli Gísla Gíslasonar stjórnarformanns að það yrði verkefni stjórnar Spalar á komandi mánuðum að taka upp viðræður við samgönguyfirvöld um það hvernig tryggja megi að Hvalfjarðargöngin og aðliggjandi umferðarmannvirki — við drögum þá náttúrlega hér inn Vesturlandsveginn líka þó að hann heyri ekki undir þessa fyrirspurn — afkasti þeirri umferð sem er fyrirsjáanleg á komandi árum.

Því kem ég upp, virðulegi forseti, og ber fram þessa fyrirspurn til hæstv. ráðherra og vil fá að heyra einhverjar fréttir af því hvort samgönguyfirvöld hafi á einhvern hátt undirbúið það að fara í þetta verkefni og hvað hafi verið gert og jafnvel hvað samgönguyfirvöld hyggist gera.