133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:19]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Umferðaröryggismálin, tvöföldun og breikkun vega á umferðarþungum samgönguæðum frá Reykjavík að Vesturlandi og frá Reykjavík og austur fyrir fjall á Selfoss, eru einhver brýnustu samfélagsverkefni okkar nú um stundir.

Aðgreining akreina og tvöföldun vega þolir enga bið. Hrikaleg slysatíðni í kjölfar gífurlegs umferðarþunga, 70– 90% umferðaraukning á þessum þyngstu umferðaræðum á milli Reykjavíkur og þessara tveggja landshluta á örfáum árum kallar á það. Á tíðum er viðvarandi hættuástand á þessum vegum. Eina leiðin er að breikka vegina og skilja á milli akreina. Eina viðunandi framtíðarlausnin er tvöföldun vega með aðskilnaði akreina. Þess vegna er umræðan hér fagnaðarefni. Hún er þörf og um að gera að ýta duglega á samgönguyfirvöld með að fylgja þessum þverpólitíska þrýstingi eftir.