133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:22]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Höfuðborgarsvæðið býr yfir miklum styrk og hefur áhrif á byggðir allt í kringum sig um Suðurnes, um Suðurland, a.m.k. austur að Þjórsá og um Vesturland milli Borgarfjarðar, jafnvel til Snæfellsness.

Fyrir liggur að það á að gera fullbúinn veg með fjórum akreinum frá Reykjavík til Keflavíkur. Það eru uppi mjög ákveðnar heitstrengingar frá alþingismönnum um að gera slíkt hið sama frá höfuðborgarsvæðinu og austur til Selfoss. Og auðvitað verða menn að gera svipaðar samgöngubætur á leiðinni frá Reykjavík vestur og norður um land í Borgarfjörð. Að öðrum kosti eru menn að beina styrk höfuðborgarsvæðisins til Suðurnesja og Suðurlands en frá Vesturlandi.

Í öðru lagi vil ég benda á, virðulegur forseti, að gjaldtaka fyrir að aka þessa vegi á auðvitað að vera með sambærilegum hætti og á ekkert að leggja meiri skatta á menn (Forseti hringir.) sem keyra Norður- og Vesturland en á Suðurnes eða til Suðurlands.