133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:23]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason má ekki alltaf vera svona uppstökkur um leið og orðið einka-eitthvað er notað. Sannleikurinn er sá að þegar þessi aðferð er notuð í opinberar framkvæmdir þá virðist hún hafa þau áhrif að brýnum framkvæmdum er flýtt. Þær komast fyrr í gagnið. Það er ágætt að hv. þingmaður hafi það í huga í ræðum sínum á Alþingi.

Ég held að það sé óumdeilt að göngin undir Hvalfjörð voru mikil samgöngubót. Þau hafa mikil áhrif á samfélagið fyrir norðan Hvalfjörð. Það er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut að greiða fyrir umferð til Vesturlands og því fagna ég umræðunni um tvöföldun á göngum undir Hvalfjörð. Ég tel að þessi umræða sé hluti af umræðunni í samfélaginu upp á síðkastið um að aðskilja umferð úr báðum áttum.