133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:24]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að með þeirri leið sem valin var við Hvalfjarðargöng var mörkuð ný stefna sem gefist hefur afskaplega vel að flestra mati sem hér eru, með örfáum undantekningum eins og fram hefur komið. (JBjarn: Ríkisendurskoðunar.) Enginn vafi leikur á því að Hvalfjarðargöngin hafa skilað gífurlega miklu fyrir þjóðarbúið í heild sinni, ekki einungis Vestlendinga. Það liggur líka fyrir að fjölmörg dýr og mikilvæg verkefni bíða eins og hér hefur komið fram.

Þá kvikna auðvitað spurningar um með hvaða hætti, í hvaða forgangsröð og eftir hvaða leiðum væri skynsamlegast að fara. Ég fagna því að hæstv. samgönguráðherra hefur opnað fyrir frekari einkafjármögnunarleiðir, m.a. hefur verið nefnd leið sem kölluð er skuggagjaldsleið. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra koma inn á það í síðara svari sínu hvort hann hafi teiknað upp hvaða upp verkefni gætu hentað fyrir þá aðferð, einmitt til að hraða þeim stóru framkvæmdum sem bíða úrlausnar.