133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

243. mál
[14:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Samkeppnisstaða Vesturlands er ekki skakkari en svo að hvergi er meiri vöxtur á landinu nema kannski á Reyðarfirði. Ég tel að vöxturinn sé vegna Hvalfjarðarganganna ekki síst og fagna því þessari fyrirspurn sem vekur athygli á þessu verkefni.

Ég tel að málið sé í eðlilegum farvegi og við höfum ekki tapað neinum tíma. Ég get ekki tekið upp tíma hönnuða og vegagerðarmanna um þessar mundir til að fara af meiri hraða í undirbúning þessa verkefnis. Það eru svo mörg önnur verk brýnni sem við þurfum að koma fyrr af stað en tvöföldun jarðganganna. Þau eiga að fara af stað en við eigum að leggja allt kapp á að bæta æðarnar út frá höfuðborgarsvæðinu og vinna að þeim verkefnum um allt land sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Við megum ekki gleyma því í umræðunni um mikilvæg verkefni á þessu svæði að víðar þarf að vinna.

Hér var spurt um skuggagjaldsleiðina. Ég tel að hún komi vel til greina. Hún verður væntanlega til umfjöllunar í tengslum við samgönguáætlun eftir áramótin. Ég tel koma til greina að taka þær æðar sem ég hef nefnt, út frá höfuðborgarsvæðinu, austur og vestur, inn í það verkefni. Það er svo stórt og umfangsmikið að það þarf að taka sérstöku tröllataki til þess að við getum unnið það jafnhratt og við þurfum.

Ég má til með að nefna, vegna þess að talað var um tvöföldun að göngunum, sem ég tel að þurfi að endurbæta, að það er verið að undirbúa endurbætur á Kjalarnesinu. (Forseti hringir.) Ég hef ekki tíma til þess að ræða nánar um það en (Forseti hringir.) það verkefni er afar mikilvægt.