133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

148. mál
[14:38]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. heilbrigðisráðherra þegar hún segir að hærra hlutfall aldraðra hér á landi sé á stofnunum en í nágrannalöndum okkar. Staðreyndin er hins vegar sú að það er skortur á hjúkrunarrýmum í Reykjavík og vantar verulega á. Það hefur verið metið milli 300 og 400. En ef við miðum við forsendur sem hafa verið gefnar í t.d. heilbrigðisáætlunum, að 25% þeirra sem eru 80 ára og eldri eigi að hafa aðgang að hjúkrunarheimilum, eigum við nægilega mörg hjúkrunarrými.

Vandinn er hins vegar sá að við höfum ekki byggt upp heimahjúkrunina eins og við hefðum átt að gera. Við sjáum það t.d. á lausn reynslusveitarfélagsins á Akureyri, þegar það yfirtók bæði félagslega þjónustu og heimahjúkrun á einu bretti minnkaði þörfin fyrir innlögn á hjúkrunarheimili verulega og það þurfti ekki að bæta við hjúkrunarrými í heil tíu ár. Þar sjáum við hvað hægt er að gera með því að horfa á hlutina í meiri heild.