133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

148. mál
[14:41]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta eru tölur sem tala sínu máli, að þörfin sé svona mikil á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum auðvitað séð það sem höfum fylgst með heilbrigðismálum í þinginu í tíð þessarar ríkisstjórnar að í heilbrigðisráðuneytinu hefur miklu meiri áhersla verið lögð á uppbyggingu á hjúkrunarheimilum úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu.

Vegna þess að verið er að tala um byggingu á Lýsislóð og byggingu á höfuðborgarsvæðinu vildi ég gjarnan fá upplýst hjá hæstv. ráðherra hvar sú uppbygging stendur. Ég heyri ekki annað en að ekkert sé farið að vinna að þeirri uppbyggingu sem ráðgerð er á höfuðborgarsvæðinu og það eru nokkrir mánuðir í kosningar.

Það er margbúið að kynna þessa uppbyggingu á þessum hjúkrunarheimilum í Reykjavík en þar virðist varla vera lyft skóflu. Ég vil gjarnan fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra.