133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

148. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa prýðilegu umræðu. Fram kemur hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að um þriðjungur íbúa á hjúkrunarheimilum búi í fjölbýli eða sambýli við aðra þegar hjón og sambýlingar eru frátaldir. Það er hátt hlutfall. Hátt í 900 aldraðir Íslendingar búa nauðugir í sambýli við aðra en maka sína eða sambýlinga og það er alvarleg staða. Þetta er svipuð staða og fyrir nokkrum árum þegar ég spurði hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra að þessu. Okkur hefur ekki miðað sem skyldi hingað til en það kemur fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að byggja þurfi 374 ný rými til að mæta þörfinni og þar af leiðandi vonandi til að eyða að mestu þessu ömurlega ástandi, að fólk sé neytt til sambýlis með þessum hætti.

7 milljarðar á ári eru lágur kostaður. Við þurfum að ráðast í átak til að afmá þennan smánarblett af samfélaginu. Það er stundum sagt að kynslóðin sem byggði upp ríkasta samfélag í heiminum sé núna fátækustu gamalmenni á Vesturlöndum. Það má að sumu leyti til sanns vegar færa, þ.e. þeir þeirra sem búa við krappari kjörin. Við erum að brjóta mannréttindi á þessu fólki. Það þarf að vinna bráðan bug á. Ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra stefnir að því á fáum missirum og vona að þetta gangi eftir, eða hraðar af því að hér er um að ræða afskaplega hóflegar kostnaðartölur miðað við hvað verkefnið er brýnt. Það á að banna með lögum að fólk á öldrunarstofnunum sé neytt til sambýlis við aðra en maka sína eða sambýlinga. Gamla fólkið á að fá að lifa með því öryggi og við þá reisn í sinni heimabyggð sem það á að sjálfsögðu skilið. Um það efast ég ekkert að sé þverpólitísk samstaða. Við eigum að þrýsta á það af öllu okkar afli að þetta gangi fram, og hraðar. Það er ekki þannig að fjármagnið þvælist fyrir, hér er um að ræða mjög hóflegan kostnað.