133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

heilsugæsla í Grafarholti.

322. mál
[14:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur beint til mín fyrirspurn um heilsugæsluna í Grafarholti en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Hver eru áform ráðherra um framtíðarskipulag heilsugæslu í Grafarholti í Reykjavík?“

Heilsugæsla í Grafarholti er hluti af heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og verður það áfram. Uppbyggingaráform fyrir Grafarholt skoðast því í samhengi við aðra uppbyggingu á svæðinu. Nú sækja flestir íbúar Grafarholts heilsugæslu á heilsugæslustöðinni í Árbæ en einnig í Mosfellsbæ og í Grafarvog.

Þetta hefur að mörgu leyti gengið mjög vel en ætlunin er að tryggja í framtíðinni að íbúar Grafarholts geti sótt þjónustu til Árbæjarstöðvarinnar uns að því kemur að reist verði stöð fyrir Grafarholtið sérstaklega. Skipulagið er þannig að þjónustusvæði heilsugæslustöðvarinnar í Árbæ nær yfir Grafarholt og Norðlingaholt ásamt eldri hverfum í Árbæ. Í undirbúningi hefur verið að útvega stöðinni í Árbæ nýtt og stærra húsnæði þar sem starfsaðstaða verði fyrir allt að tíu heilsugæslulækna auk annars starfsfólks. Auglýst verður eftir nýju húsnæði fyrir stöðina um miðjan þennan mánuð og ætti stöðin að geta flust í það í byrjun árs 2008. Það stendur því til að stórbæta aðstæðurnar á Árbæjarstöðinni sem þjónustar Grafarholtið um þessar mundir.

Hæstv. forseti. Framtíðaruppbygging og skipulag þjónustu á svæðinu austan Elliðaáa er m.a. háð skipulagsáformum Reykjavíkurborgar, þar með talið uppbyggingu í Úlfarsfellsdal. Ráðuneytið og stjórnendur heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins munu áfram verða í góðu samstarfi um uppbyggingu heilsugæslunnar en í því verkefni hefur verið lyft grettistaki að undanförnu, eins og þingmenn þekkja.